Svavar Gylfi Jónsson fæddist á Vaðstakksheiði undir Snæfellsjökli 25. maí 1932. Hann lést á Borgarspítalanum 12. maí 2022.

Foreldrar hans voru Jón Sigurjónsson bóndi, f. 20.8. 1899, d. 14.7. 1990, og Helga Káradóttir húsfreyja, f. 9.4. 1904, d. 31.7. 1981. Systkini Gylfa eru Sveinlaug Lilja, f. 1925, d. 1983, Óskheiður Ester, f. 1926, d. 2011, Þórdís Rakel, f. 1929, Sólveig Benedikta, f. 1930, Elísa Steinunn, f. 1935, d. 2016, Sigurjón Sveinar Bláfeld, f. 1939, d. 2016, og Kári, f. 1939, d. 2022.

Gylfi kvæntist Vénýju Viðarsdóttur, f. 17.11. 1930, d. 1.3. 1993, hinn 17.11. 1954. Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg, f. 25.5. 1954, d. 2.7. 2015. Börn hennar eru Unnur María Þorbergsdóttir, f. 1971, og Eyrún Eiðsdóttir, f. 1977. 2) Unnur María, f. 12.10. 1958, d. 7.9. 1964. 3) Viðar, f. 26.12. 1961, kvæntur Drífu Skúladóttur, f. 12.1. 1962. Börn þeirra eru Kári, f. 1984, og Véný, f. 1993. 4) Sigurjón, f. 14.8. 1965, kvæntur Önnu Rakel Sigurðardóttur, f. 17.2. 1967. Sonur þeirra er Sigurður Sölvi, f. 2003. Fyrir á Sigurjón soninn Viktor, f. 1987. 5) Halldór, f. 13.6. 1970, kvæntur Höllu Skúladóttur, f. 1.6. 1967. Börn þeirra eru Gylfi, f. 1997, og Lovísa, f. 2001.

Gylfi fæddist á Vaðstakksheiði í Neshreppi utan Ennis og ólst þar upp við sveitastörf. Í seinni heimsstyrjöldinni fluttist fjölskyldan svo á Hvassahraun í Gullbringusýslu og bjó þar í þrjú ár áður en hún flutti til Reykjavíkur.

Gylfi byrjaði ungur að vinna fyrir sér hjá Eimskipafélagi Íslands, almenn verkamannastörf og á lyftara. Hann var einn vetur á bændaskólanum á Hvanneyri, 1949-1950. Hann varð verkstjóri hjá Eimskip og gegndi því starfi þangað til hann byrjaði með kranaþjónustu 1961 og var með hana í nokkur ár. Hann var síðan vörubílstjóri það sem eftir lifði af hans starfsævi, bæði hjá Þrótti og Eimskip.

Gylfi var mikill áhugamaður um hestamennsku og var einn af stofnendum hestamannafélagsins Gusts. Hann stundaði glímu, hafði gaman af veiði, góðum sögum, kunni ógrynni af kvæðum og fannst gaman að taka lagið.

Útför hans fer fram frá Langholtskirkju í dag, 25. maí 2022, klukkan 11.

Vinur minn hringdi í mig um daginn og vottaði mér samúð sína vegna fráfalls pabba. Við röbbuðum saman dágóða stund og í lokin sagði hann: „Þetta er sorglegt Dóri minn en mikið ertu heppinn að hafa átt svona frábæran pabba og hafa hann svona lengi. Það er ekki sjálfgefið og þú getur setið með fólki heila kvöldstund og sagt af honum sögur.“ Já þetta er rétt hjá mínum góða vini og þakklæti er mér ofarlega í huga því Véný Viðarsdóttir og Gylfi Jónsson voru hreint út sagt stórkostlegir foreldrar. Heimili okkar systkinanna einkenndist af frelsi, trausti og mikilli gleði. Gott andrúmsloft ríkti og vinir okkar urðu líka vinir mömmu og pabba. Skeiðarvogurinn var félagsmiðstöð. Þetta voru dásamlegir tímar. Pabbi hafði einstaklega góða nærveru og fólk fór ósjálfrátt í gott skap við það að umgangast hann. Allt hans fas var svo áreynslu- og æðrulaust og ég man hreinlega ekki eftir því að hann hafi skeytt skapi sínu. Blótaði reyndar stundum einhverjum vitleysingum, pólitíkusum og svoleiðis liði, en hann var aldrei reiður. Ánægjustundirnar með honum eru óteljandi og okkur leið alltaf vel saman enda var hann með einstakt lundarfar. Hann var líka frábær húmoristi og með mjög góða frásagnargáfu. Sagði þvílíkar „sannar“ bullsögur grafalvarlegur á svip með órætt og skemmtilegt blik í augum. Maður spurði sig oft að aflokinni svona sögustund hvort hann hreinlega tryði þessu sjálfur eða hvort hann væri svona ruglaður í alvörunni. Við vorum alla tíð mjög nánir og þegar ég var lítill þá héldumst við alltaf í hendur þegar við fórum að sofa enda var rúmið mitt við hliðina á hjónarúminu en þegar ég fékk sérherbergi þá vandaðist málið. Hendur okkar náðu ekki á milli herbergja. Brugðum við þá á það ráð að binda saman fullt af treflum og klútum og strengdum á milli okkar. Þetta band slitnaði aldrei og mun aldrei slitna.

Covid-19 fór vel í okkur feðgana. Vinnustaður minn var lokaður og höfðum við góðan tíma til að gera alls konar. Rúntuðum um bílasölur borgarinnar, fórum í kaffi í hin og þessi bakarí, keyptum í matinn og fórum upp í hesthús. Síðast bættist inn í þennan rúnt byggingarsvæði Sigurjóns bróður. Þangað fannst pabba gaman að koma. Grjóni sagði okkur stundum að snáfa í burtu. „Hvað á það að þýða að trufla svona vinnandi fólk!“ Þetta fannst okkur fyndið og pabbi sagði oft þegar við keyrðum í burtu: „Djöfull eru þeir seigir þessir menn.“ Mikið rétt, en hann var sá seigasti af öllum. Var alltaf skemmtilegur, jákvæður og til í allt þó að hann hafi gengið í gegnum gríðarlega erfiða hluti á sinni löngu ævi. Elsku pabbi, takk fyrir allt.

Halldór Gylfason.

Lífið er ferðalag, eru orð að sönnu. Á 90 ára ferðalagi gerist margt. Þú horfir á líf kvikna og líf fjara út. Gleðin og sorgin togast sífellt á. Þá er gott að vera með meðfædda innri hugarró, sem gagnast hvort sem koma þarf gleðinni á æðra plan eða láta mann gleyma vandræðum sínum.

Þeir eltu hann á átta gata tæki

og tvenna Saaba höfðu þeir til reiða

(pabbi vinar míns átti Saab)

En Gylfi gamli sat á Skóda einum

og heldur þótti gott til veiða.

Þannig byrjaði drápa sem pabbi samdi, þegar fjölskyldan lagði af stað upp á Uxahryggi til að veiða. Þarna kenndi hann manni bæði að meta náttúruna, söguna og hafa gaman af lífinu og lifa því lifandi. Svo kom „allir út að ýta“ þegar Skódinn dreif ekki upp Prestabrekkuna. Allir þustu út nema ein sem sagði „ég fer ekki fet“. Pabbi hló og við sem sátum í aftursætinu, fjórir strákpollar 4-11 ára, ýttum Skódanum upp brekkuna. Svona voru okkar ferðalög sífelld ævintýri. Seinna, þegar tengdadæturnar og barnabörnin komu til sögunnar, urðu enn fleiri svo heppnir að kynnast þér. Ég held að aðalvinningurinn í happdrættinu hafi ekki verið að vinna „Vestmannaeyjar eða Akureyri“ heldur að fá að hafa haft þig við hlið sér í sextíu ár.

Nú höfum við farið í okkar síðasta ferðalag saman og allar þær frábæru minningar sem við eigum um einstakan pabba, afa, tengdaföður, húmorista, kvæðamann, sögumann, sálfræðing, hestamann,veiðimann en umfram allt dreng góðan, lifa.

Viðar og fjölskylda, Hellissandi.

Elsku afi minn. Ljúfasti, fyndnasti, rólegasti og elsti vinur minn.

Þó að það sé erfitt að kveðja þá er það óhjákvæmilegt. Og þó svo að táradalurinn sé langur og erfiður þá situr eftir þakklæti og ógrynni af yndislegum og ógleymanlegum minningum um allar stundirnar okkar saman. Ég var svo óendanlega heppinn að fá að vera afastrákurinn þinn, því betri og ljúfari afa er hreinlega ekki hægt að hugsa sér. Sundferðir í hundraðatali, að fá að sitja með þér í vörubílnum, árin okkar í sambúðinni á Laugarnesveginum, öll ferðalögin, jólin fyrir vestan, veiðiferðirnar og samtölin yfir bakkelsi sem alltaf léttu lund og síðustu árin allar heimsóknirnar með Arnaldi, sem auðvitað, eins og allir aðrir, tók sérstöku ástfóstri við þig; hjartahlýjasta og æðrulausasta ljúfmenni landsins og þótt víðar væri leitað. „Afi langi gefa ís“ var fyrsta setningin sem sá litli lærði að setja saman og þegar ég spurði hann hvert við værum að fara þá var fyrsta svarið „afi langi“.

Þú kenndir mér svo margt elsku afi. Án þess þó að hafa endilega ætlað þér það. Því þú varst ekki þannig týpa að þú værir að predika eða dæma. Þú kenndir mér, með þinni lífssýn, mikilvægi þess að taka hlutina ekki of alvarlega og mikilvægi þess að halda ró sinni. Að vera rólegur. Þessir hlutir eru mér ofarlega í huga þessa dagana og ég ætla að tileinka mér þá í ríkara mæli og þar er ég viss um að þú munt hjálpa mér, eins og þú gerðir í öllu öðru. Það er við hæfi að ég láti fylgja hér brot úr lagi sem ég samdi um þig á áttræðisafmælinu þínu, vísan er ekki jafn dýrt kveðin og margar þeirra sem þú gast snarað upp við hvert tækifæri en hún er um þig og ég veit að þér þótti vænt um hana.

Ég þekki mann

þið kannist við hann

hann gerir að gann-

i sínu við mig

kaupir happdrættismiða

stillir til friðar

Þegar þú ferð á fund

þá ferðu í sund

aldrei með hund

alltaf léttur í lund

Fari ég pottinn í

gefur þú mér ís,

eða kleinuhring,

ég fyrir þig syng

Þegar ég gekk til prests

gafstu mér hest

ég sló því á frest

að læra á hest

En það á þér sést

að þú kannt allflest

svo veistu langmest

enda ertu langbestur

Elsku afi, það hryggir mig að geta ekki verið viðstaddur jarðarförina nema í gegnum síma. Við vorum búnir að ræða það að ég væri að fara í ævintýraleit til Evrópu og þetta samþykktir þú, enda ævintýramaður sjálfur. Ég meina, þú varst fyrsti Íslendingurinn til að fá þér tattú, varst með þeim fyrstu á landinu til að fá dómarapróf í öllum boltaíþróttum og smalaðir einsamall allt Reykjanesið, níu ára gamall, með einn hund þér til aðstoðar, berfættur og veiddir þér til matar... Það var heiðskírt þegar ég flaug út í gær. Útsýnið yfir borgina ótrúlegt og ég get staðfest það sem maðurinn sem fauk yfir pulsuvagninn sagði þér eftir að sjokkið lak af honum. Þakið á pulsuvagninum ER grátt!

Ég mun sakna þín alla tíð en þvílík gleði að vita af þér í hjarta okkar allra sem minnumst þín. Þín nærvera, sú allra besta og alltaf til bóta.

Þangað til við sjáumst næst.

Þinn afastrákur,

Kári.

Við Gylfi mágur minn höfum átt nána samleið í 70 ár. Ég minnist þess enn þegar Venna systir kynnti hann fyrir fjölskyldunni. Hann var hæglátur en fljótlega kom í ljós að hann var allra manna skemmtilegastur, hafði óborganlega frásagnargáfu og smitandi hlátur.

Við Lúðvík áttum margar góðar stundir með Vennu og Gylfa heima og heiman. Þau heimsóttu okkur til Kanada meðan við vorum þar við framhaldsnám, komu oft með okkur í sumarbústaðinn, þar sem Gylfi lagði drjúga hönd á plóg við smíðar, gróðursetningu og útvegun efniviðar. Um árabil fórum við saman í veiðiferðir þó svo að við systur snertum aldrei stöng. Naut hann þessara ferða út í ystu æsar og lét ekkert á sig fá þótt hann fengi ekki fisk, sem var ekki oft. Börnin okkar komu oftast með og minnast þau ánægjustunda með Gylfa.

Líf Gylfa var ekki áfallalaust. Unna Maja, yngri dóttir þeirra Vennu, lést úr krabbameini tæplega sex ára haustið 1964. Engin orð fá lýst þeirri sorg og söknuði sem fylgdi veikindum hennar og andláti. Vennu missti hann eftir skammvinn veikindi fyrir tæpum 30 árum. Var hún Gylfa, börnum þeirra og okkur öllum harmdauði. Enn kvaddi sorgin dyra þegar Guðbjörg eldri dóttir þeirra varð bráðkvödd 2015.

Síðustu árin höfum við Gylfi hist reglulega og enn oftar eftir að ég flutti í nágrenni við hann í fyrrasumar. Alltaf var notalegt að koma til hans, þiggja veitingar og ræða um menn og málefni enda var hann ótrúlega klár og minnugur.

Fyrir um þremur mánuðum greindist Gylfi með krabbamein í lunga og dró smám saman úr þreki hans. Sjúkrahúslegan var stutt. Synir hans reyndust honum alla tíð fádæma vel enda var hann þeim frábær fyrirmynd, æðrulaus, skapgóður og skemmtilegur.

Við Lúðvík kveðjum góðan vin og þökkum sameiginlega vegferð.

Einlægar samúðarkveðjur til allra þeirra sem eiga um sárt að binda.

Hildur Viðarsdóttir.