Oddur Helgi Bragason fæddist í Reykjavík 16. desember 1963. Hann lést á heimili sínu, Hlíðarhjalla 52, Kópavogi, 26. apríl 2022.

Foreldrar hans voru séra Bragi Reynir Friðriksson, prófastur og sóknarprestur í Garðabæ, f. 15. mars 1927 á Ísafirði, d. 27. maí 2010, og Katrín Eyjólfsdóttir, bankastarfsmaður og prófastsfrú, f. 6. ágúst 1928 á Eskifirði, d. 4. júní 2021. Systkin Odds: Ingibjörg, f. 8. apríl 1954, d. 5. febrúar 2017; Eyjólfur Reynir, f. 19. júní 1955; Auður Soffía, f. 18. júlí 1958.

Oddur átti eina dóttur, Gunnhildi Rós, f. 21. júlí 1989. Móðir hennar er Soffía Dagmar Þorleifsdóttir, f. 14. maí 1968.

Oddur ólst upp í Garðahreppi og gekk í barna- og gagnfræðaskóla þar. Hann dvaldi sumarlangt með foreldrum sínum í Íslendingabyggðum í Mikley, Kanada, árið 1977 og í Minnesota um haustið á meðan faðir hans var þar í framhaldsnámi í guðfræði.

Oddur varði stórum hluta ævinnar í þágu þeirra sem minna mega sín. Hann var lengi meðferðarfulltrúi hjá SÁÁ og BUGL, og vann m.a. sem hópstjóri á meðferðarheimilinu Stuðlum. Þá starfaði hann einnig sem lögregluþjónn um tíma. Síðar vann hann um nokkurra ára skeið sem útfararstjóri hjá Útfararstofu Íslands áður en hann breytti um stefnu og tók meirapróf og leiðsögumannapróf. Undi hann sér vel í starfi leiðsögumanns enda naut hann þess að ferðast um landið með hóp ferðamanna og kynna þeim sögu lands og þjóðar. Oddur var félagslyndur og naut hestamennsku um árabil. Hann var frændrækinn og hafði mikinn áhuga á ættfræði og sögu.

Útför Odds Helga fer fram frá Garðakirkju í dag, 25. maí 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

„Sæll frændi!“ Þessi orð óma í höfði mér þegar ég hugsa til Odds frænda. Svona heilsaði hann manni alltaf og orðunum fylgdi glaðhýr svipur og breitt bros. Hann var ljúfur maður hann Oddur.

Oddur Helgi Bragason fæddist í Reykjavík 16. desember 1963. Hann var skírður í höfuðið á ömmu sinni, Oddnýju Jóhönnu Eyjólfsdóttur, en seinna nafnið, Helgi, var fengið frá afa hans, Friðriki Helga Guðjónssyni.

Oddur ólst upp í Garðahreppi og var sannarlega orkumikill og uppátækjasamur strákur. Prakkarastrik hans og vina hans rötuðu meira að segja í vinsælar barnabækur. Pabbi hans hét séra Bragi Friðriksson og var sóknarpresturinn í hreppnum. Oddur og félagar nýttu sér oft skrifstofu prestsins í „erindrekstur“ en sögur segja að þeir hafi falsað skilnaðar- og dánarvottorð í gríð og erg. Blessunarlega sá presturinn alltaf við þeim áður en þau fóru í umferð.

Þegar Oddur komst til manns kviknaði í brjósti hans mikill áhugi á landi og þjóð. Hann hafði verið í sveit á Ástjörn í Þingeyjarsýslu sem barn og þar átti hann góðar stundir. Á fullorðinsárum ferðaðist hann víða, starfaði sem leiðsögumaður og var mikill hestaunnandi.

Ég á fallegar minningar af frænda mínum. Hún er t.d. sterk minningin þegar hann teymdi mig áfram á skjóttum hesti í íslenskum sumarblóma. Ég var ekki hár í lofti, en leið eins og keisara sem reið um lönd sín, hnarreistur og mikill.

Frændi minn var glæsimenni í sjón, hávaxinn og herðabreiður, ljós og fagur. Hann var hlýr og skemmtilegur og hafði einkennandi hlátur, ekkert ósvipuðum þeim sem systir hans Ingibjörg hafði, sem kvaddi líka allt of snemma. Barnið í manni skynjaði hlýleikann sem bjó um góðlegt hjarta hans. Góðhugur einkenndi þennan yndislega mann og lék um bjartan svip hans og viðmót allt. Hann vildi öllum vel. Hann var hjartahreinn.

Oddur var frændrækinn. Hann rækti kynnin við frændfólk sitt og vini alla tíð. Þannig fór hann margar ferðir norður á æskuslóðir föður síns í Miðfjörðinn og á heimaslóð móður sinnar á Eskifirði. Hann fékk ættfræðiáhugann í arf frá föður sínum og rannsakaði ættina í þaula. Ég naut góðs af því á margvíslegan hátt.

Oddur var áhugasamur um ævisögu föður síns sem ég hef unnið að undanfarin misseri. Hann fór í margar ferðir norður til að nálgast sögur, ljósmyndir og heimildir. Ein ferðin bar ríkulegan ávöxt, þegar 97 bréf sem séra Bragi hafði skrifað frá 10 ára aldri til 50 ára aldurs fundust á ævintýralegan hátt í rykföllnum trékistli í Miðfirði sem læstur hafði verið um áratugaskeið. Það var sem fólkinu þar hefði verið beint að kistlinum af himnum ofan – séra Bragi virtist leikstýra þessu öllu saman. Oddur kom með bréfin til mín og hann var auðsjáanlega spenntur, því þarna mátti greina kjarnann í sálu föður hans. Honum var annt um að sagt yrði frá manneskjunni Braga Reyni og hvað það var sem skóp þann mann.

Ég lofaði honum að gera það og ég mun standa við það í þakkargjörð við elsku frænda minn sem var mér svo góður. Ég bið að Guð varðveiti hann og blessi. Minningin um góðan og glaðan frænda lifir.

Hrannar Bragi Eyjólfsson.

Oddur Helgi Bragason er látinn, fallinn frá langt um aldur fram. Þessi harmafregn barst okkur fyrrverandi starfsfélögum Odds á geðdeild Landspítalans á Kleppi óvænt í liðinni viku. Við unnum þar saman á árunum 1991 til 1995. Ungir menn sem allir áttu sínar væntingar og drauma um framtíðina.

Við þessi ferðalok viljum við minnast Odds, okkar góða félaga, með nokkrum orðum. Oddur var glæsilegur maður, hávaxinn, bjartur yfirlitum og bar sig ávalt vel, stoltur af uppruna sínum og fjölskyldu.

Þær eru margar minningarnar þar sem Oddur kemur við sögu sem allar eiga það sameiginlegt að bera vott um mannkosti hans á borð við góðmennsku, einlægni, hlýju og húmor sem eins og gefur að skilja voru gulls ígildi í viðkvæmu starfsumhverfi þar sem þessara eiginleika er mest þörf. Oddur var líka vinur og félagi okkar utan vinnutíma og bar þar aldrei skugga á, en mikið grínast og hlegið við mörg eftirminnileg tækifæri sem lifa í minningunni um þann góða félaga sem við kveðjum nú. Upp úr árinu 1995 fórum við allir hver í sína áttina, við fylgdumst samt ætíð hver með öðrum úr fjarska.

Um leið og við þökkum Oddi fyrir samfylgdina vottum við Gunnhildi dóttur hans og skyldmennum hans okkar dýpstu samúð í sorginni.

Daníel Guðjónsson,

Eyþór Brynjólfsson,

Jónatan Karlsson og

Ægir Haraldsson.

Ég trúi því ekki enn að hann Oddur minn sé farinn. Mikið mun ég sakna símtalanna sem byrjuðu yfirleitt sæl kæra vinkona, en oftar var það sæl gamla og svo skellti hann upp úr, þegar ég minnti hann á að ég væri yngri.

Við kynntumst árið 2000 þegar við vorum að vinna saman á Stuðlum, meðferðarstöð fyrir unglinga, og urðum strax góðir félagar. Oddur bjó í næstu götu við mig í Kópavoginum og datt honum þá í hug að við færum í gönguferðir á kvöldin. Þessir göngutúrar urðu margir og mikið sem við möluðum um allt milli himins og jarðar. Margir töldu að ég væri komin með mann upp á arminn og þóttu þessar gönguferðir okkar dularfullar, því sumar voru ansi seint á kvöldin eftir kvöldvaktir hjá Oddi, en okkar á milli var alltaf bara góður vinskapur. Þá var það bara fínt að fólk héldi það, enda Oddur frábær. Svo hár og myndarlegur.

Oddur elskaði Íslandið sitt og þekkti það vel, enda mikill útivistarmaður og hestamaður. Hann kynnti mér síðan líka fjöllin í kringum Reykjavík og gönguleiðir allt í kringum höfuðborgarsvæðið og þá var oft stráksi minn líka með í för. Eitt sinn datt honum í hug að við stelpurnar í saumaklúbbnum myndum skella okkur í stóðhestaréttir í Húnavatnssýslunni, sem var auðvitað best, og við drifum okkur, þvílíka ævintýrahelgin sem það var.

Ég flutti síðan til Englands og alltaf hélst gott samband okkar á milli, en þó hittingarnir yrðu færri urðu símtölin fleiri. Hann kom nokkrum sinnum að heimsækja okkur, enda þótti honum gott að skreppa frá Íslandi. Við kynntumst síðan enn betur þegar ég fór að vinna í ferðaþjónustunni í Englandi 2010. Oddur var fljótur að bjóða fram krafta sína, þá sjálfur búinn að vera að vinna í ferðaþjónustunni heima. Hann tók að sér allskonar verkefni fyrir mig svo sem eins og móttöku ferðamanna, áramótaferðir, einkaferðir og norðurljósaferðir og svo stóð hann vaktina með mér eitt sinn á bás í London og mikið var nú gaman hjá okkur þá og mikið hlegið.

Lífið hjá Oddi var oft erfitt, veikindi hans stoppuðu drauma hans um allavega hluti sem hann langaði að gera. Hann sagði mér að sig langaði svo að búa í Englandi, spurði mig líka hvort mig vantaði ekki starfsmann á skrifstofuna, en ekkert varð af því.

Oddur var með þeim fyrstu að heiman til að hafa samband og athuga með mig í Covid, þar sem hann vissi hvernig mér liði þegar ferðaþjónustan lá niðri. Þá sjálfur veikur, en mundi samt eftir vinkonu sinni í Englandi.

Í síðustu samtölum okkar sagði hann mér að hann væri mest að vinna því að verða besta útgáfan af sér.

Innilegar samúðarkveðjur til dóttur, fjölskyldu og vina.

Takk, elsku vinur, fyrir samveruna, ég mun alltaf sakna þín.

Þín vinkona,

Jórunn.