[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Róbert Rafn Óðinsson fæddist í Reykjavík 14. maí 1991. Hann lést 10. maí 2022. Foreldrar Róberts eru Óðinn Már Jónsson, f. 25. desember 1946, og Edna Sigríður Njálsdóttir, f. 15. nóvember 1952, d. 11. mars 2022. Systir Róberts er Svava Rut Óðinsdóttir, f. 29. janúar 1973. Sonur hennar er Óttar Kolbeinsson Proppé, f. 12. ágúst 1998.

Eftirlifandi sambýliskona Róberts er Ólöf Arna Gunnlaugsdóttir, f. 30. maí 1995. Dóttir hennar er Anna Sif Hjaltadóttir, f. 20. febrúar 2017.

Dóttir Róberts er Amilía Ýr, f. 22. desember 2017.

Róbert stundaði nám í Álftamýrarskóla og útskrifaðist úr framreiðslu frá Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskólanum í Kópavogi vorið 2013. Hann starfaði víða við framreiðslu, m.a. á Hilton og Vox, þar sem hann lærði. Róbert kom að stofnun Mathúss Garðabæjar árið 2016. Síðustu árin bjó Róbert á Selfossi og starfaði m.a. í Tryggvaskála.

Útför Róberts fer fram í dag, 25. maí 2022, frá Háteigskirkju og hefst athöfnin klukkan 13.

Þegar kemur að því að minnast í orðum manneskju sem var eins einstök og Robbi flækjast málin. Þau orð eru nefnilega held ég ekki til í okkar máli sem ná almennilega utan um þá manngerð sem hér var á ferð.

Robbi var einhver líflegasti, glettnasti og óútreiknanlegasti maður sem ég hef hitt og snerti fólk á þann hátt sem ég held að sé ómögulegt að lýsa fyrir þeim sem ekki voru eins heppnir og ég að kynnast honum.

Ég leit á Robba sem einn minn nánasta vin og ættingja. Undanfarið hef ég þurft að reyna eftir bestu getu að útskýra samband okkar betur fyrir fólki; hann var jú móðurbróðir minn en við höfðum svo oft ákveðið með okkur að réttara orð yfir okkar tengsl væri bræður. Enda aldir upp saman á svipuðum aldri.

Og það var hans ákvörðun, að ég held um leið og ég fæddist og hann sjö ára gamall, að mig myndi hann hugsa um eins og litla bróður sinn.

Þannig á ég ótal minningar af honum í gegn um árin þar sem hann kenndi mér á lífið.

Sitt sýnist kannski hverjum um uppeldisaðferðirnar; á æskuheimili okkar hjá afa, þar sem við bjuggum saman um hríð, hafði hann þann háttinn á að bregða mér oft á dag, svo ég þorði varla að ganga inn og út úr herbergjum hússins af ótta við að hann stykki fram með látum og gæfi mér hjartaáfall. Þá skulum við ekki eyða of mörgum orðum í loftbyssuskotin sem hann lék sér að að skjóta nærri mér til að gera mér bilt við eða flugeldana sem hann lét mig halda á og skaut úr hendi mér af svölunum í Álftamýri – ég í kringum tíu ára gamall en hann sautján ára.

Mörgum árum síðar, þegar hann hafði ráðið mig í vinnu sem þjón, sátum við eitthvert kvöldið eftir erfiða vakt og rifjuðum þessa tíma upp. Ekki var ég par sáttur með meðferðina sem ég fékk á heimilinu.

En hann sagði þá við mig orð sem hafa setið í mér síðan og á hans einstaka hátt hitti hann naglann á höfuðið því þau voru sönn: „Ég braut þig niður, Óttar minn, svo ég gæti byggt þig upp aftur.“

Og um leið áttaði ég mig á því að uppbyggingu seinni áranna gæti ég seint launað honum.

Maðurinn tók mig í raun að sér þegar ég var unglingur. Kenndi mér að vinna langar og erfiðar vaktir; vinnuaðferðir sem ég hef alltaf haldið í síðan. Hjá honum voru engin vandamál – bara lausnir.

Mannþekkjarinn sem hann var, lestur í aðstæður og fólk, söluhæfileikar og einstakt lag á að ná til allra og skilja eitthvað eftir hjá hverjum sem hann hitti. Ef ég hef náð að temja mér þó ekki væri nema örlítinn hluta af þessum hæfileikum hans þá er ég í góðum málum út lífið.

Orðheppnari mann hef ég þá aldrei á ævinni hitt og mun ólíklega kynnast öðrum eins húmorista og lífskúnstner á ævinni.

Ég vona að sem mest af stóra bróður mínum lifi áfram í mér nú eftir hans daga.

Minningin sem lifir verður af þeim lífsglaða, fyndna, orðheppna og klára prakkara sem allt of lítill forréttindahópur fékk að kynnast.

„Hinn vitri tranar sér ekki fram en er samt fremstur.“

Þetta sagði einn af hinum fornasísku spekingum menningarheims sem Robbi var af einhverjum ástæðum heltekinn af. Þau hefðu allt eins getað verið skrifuð um hann.

Óttar Kolbeinsson Proppé.

Elsku drengurinn. Það er svo skrýtið hvað festist í minni manns. Þannig man ég glöggt stoltið sem geislaði af Róberti þegar hann, átta, níu ára gamall, rak mig á gat í Bítlafræðum í fyrsta sinn. Alls ekki það síðasta þó, því fáum hef ég kynnst sem sökktu sér af jafn mikilli ákefð ofan í Bítlana og Róbert. Það var sama stolt og mátti alltaf sjá í augum hans gagnvart Óttari, syni mínum. Róbert var móðurbróðir Óttars, en í raun voru þeir eins og bræður, sérstaklega eftir því sem Óttar eltist. Og alltaf var Robbi jafn stoltur af Óttari, skipti þá engu hvort það var þegar sá litli tók sín fyrstu skref eða þegar hann útskrifaðist úr háskóla eða sýndi afrek sín í starfi. Því stolti deildum við Róbert og ræddum reglulega.

Lífið er stundum skrýtin skrúfa. Örlögin höguðu því þannig að síðustu ár vorum við Róbert í töluvert miklu sambandi. Við ræddum saman í síma og hittumst yfir kaffibolla, stundum ört en svo teygðist á milli. Alltaf var þó sama glettnin í rödd hans þegar við heyrðumst, svo mikil reyndar að hún skein af skrifunum líka þegar samskiptin voru í því formi. „Herra“ var hans ávarp til mín og ég brosti alltaf út í annað þegar ég heyrði það eða las.

Samtöl okkar Robba færðu okkur nær hvor öðrum en við höfðum áður verið. Hann var oft og tíðum á heimili okkar Svövu sem barn, en þegar við fórum að ræða um lífið og tilveruna vorum við báðir fullorðnir menn sem höfðum reynt ýmislegt. Við reyndum að tala okkur niður á hvað það væri sem skipti máli í lífinu, tókumst á við, tja ekki endilega lífsgátuna, enda sosum sammála um að hún væri nú ekki endilega til, heldur það ævilanga verkefni að ná sátt við lífið og tilveruna. Ég lærði ótal margt af Róberti í þeim samtölum, því hann rak mig ekki síður á gat þar en í Bítlafræðunum forðum daga. Aðallega sönnuðum við þá fornu speki að samtöl dýpka lífsskilning.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja Róbert, kornungan manninn. Að sjá aldrei aftur stoltið geisla úr augum hans yfir afrekum Óttars, að fylgjast ekki með honum hrista veislur fram úr erminni – eins og hann gerði við útskrift Óttars – að fá ekki að ræða við hann. Síðasta samtal okkar var kvöldið áður en hann lést og ég mun ætíð muna það sambland glettni og alvöru sem einkenndi það, líkt og reyndar flest önnur.

Orð virðast stundum ósköp máttlaus en um leið fela þau í sér heiminn og allt sem í honum er. Eins virðast orð lítilvæg við þessar aðstæður, þegar aðstandendur reyna að skilja þessa snúninga sem tilveran hefur tekið. Stundum eru orð um það bil það eina sem maður á; orð, hlýja og snerting. Orð geta nefnilega líknað, veitt von, nýtt upphaf. Ef við hleypum þeim inn að hjarta okkar. Elsku Ólöf, Óðinn, Svava, Óttar minn og þið öll önnur sem að Róberti stóðu. Ég samhryggist innilega. Góður drengur er genginn.

Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Nú er komið að ferðalokum hjá Róberti mínum. Grafskriftin „þeir deyja ungir sem guðirnir elska“ er víst fásinna, út frá kristinni guðfræði. En, samt ... Ég held að guðirnir hafi elskað Robba. Og elski hann enn. Mikið. Hann var svo ótrúlega hæfileikaríkur og snjall, en samt gríðarlega hógvær og ljúfur.

Þegar ég hitti Robba fyrst vissi ég að ég væri búinn að eignast sálufélaga. Ein fyrsta vaktin okkar saman sem kokkur og þjónn gaf fyrirheit um blómlegt samstarf. Þannig var að ónefndur fyrrverandi úkraínskur einræðisherra hneigði sig fyrir okkur. Við höfðum fengið það verkefni að gefa þessum einræðisherra fimm rétta máltíð á meðan einkaflugvélin hans beið á Keflavíkurflugvelli. Róbert gleymdi blómaskreytingunni. Á meðan ég græjaði matinn fyrir Viktor, eins og við kölluðum téðan einræðisherra, gekk Robbi á milli bútík-verslana í Leifsstöð í leit að einhverju „drasli“ til að setja á borðið fyrir einræðisherrann okkar. Þetta reddaðist. Robbi náði að græja allt upp á tíu. Illmennið hneigði sig djúpt fyrir okkur. Samstarfið var hafið.

Ég elskaði að vera í kringum þennan gorm. Hann var ein áhugaverðasta, skemmtilegasta og sniðugasta manneskja sem ég hef kynnst. Snillingur.

Að vinna með Robba var eins og að fljóta niður læk í vel fóðruðum báti. Hann var „fenómen“ svokallað. Hann var svolítið eins og framlenging á mér og ég á honum. Við sátum oft saman eftir vaktir og svöruðum vinnupósti og pössuðum að öll svörin væru hárrétt. Hann spurði mig alltaf ef hann hélt að hann væri of hortugur í svörum. Held að sú hafi aldrei verið raunin.

Þegar ég gifti mig ákvað hann, upp á sitt eindæmi, að gera upplifunina fullkomna fyrir okkur hjónin. Hann sagði mér að hann yrði með mér í þessu fram í rauðan dauðann. Robbi var með mér í undirbúningnum fram undir morgun. Við gerðum blómaskreytingar klukkan fimm að morgni brúðkaupsdagsins, úr sjávargrjóti og blómstrandi illgresi. Hann var með slitið krossband á þessum tíma þannig að hann haltraði þegar hann spurði mig: „Get ég fært þér eitthvað, herra minn?“ löngu eftir miðnætti í brúðkaupsveislunni. Hann hugsaði svo vel um mig að hann hafði engan tíma til að pæla í krossbandi.

Við fórum í Kaupmannahafnarferð saman. Róbert fann ekki Snoopy-bol sem við ætluðum báðir að klæðast að morgni ferðadags. Hann var svo leiður yfir þessum mistökum að hann ákvað að húðflúra Snoopy á sig, svo þetta yrði ekki vandamál aftur. Ég gerði það líka.

Robba þótti afskaplega vænt um fjölskylduna sína. Síðasta samstarfsverkefnið okkar var fyrir stuttu. Hann skipulagði afmæli fyrr pabba sinn og fjölskyldunni var allri boðið. Hann var með puttana í öllu. Ég losnaði ekki við hann úr eldhúsinu þessa daga. Hann vildi að hans fólk fengi upplifun ævi sinnar. Honum tókst það. Eins og allt sem hann ætlaði sér þegar kom að því að gera vel við fólk.

Róbert féll frá allt of snöggt. Hans verður sárt saknað.

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda sem unnast

fær aldregi

eilífð að skilið.

(Jónas Hallgrímsson)

Ragnar.