Tíst Færslan hjá Páli Hilmarssyni um fylgið, sem var síðan eytt.
Tíst Færslan hjá Páli Hilmarssyni um fylgið, sem var síðan eytt.
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Talning á atkvæðum í sveitarstjórnarkosningum fór fram með mismunandi hætti á höfuðborgarsvæðinu.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Talning á atkvæðum í sveitarstjórnarkosningum fór fram með mismunandi hætti á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði og Kópavogi var utankjörfundaratkvæðum og atkvæðum greiddum á kjörfundi blandað saman en í Reykjavík voru atkvæðin talin hvor í sínu lagi sem og að atkvæði utan kjörfundar hafi verið sérstaklega sundurgreind þannig að fylgi hvers framboðs væri greinanlegt.

Í nýrri reglugerð um talningu atkvæða, sem tók gildi 14. apríl sl., er kveðið á um blöndun atkvæðaseðla sem gildir einnig um utankjörfundaratkvæði. Eftir blöndun eru atkvæði flokkuð og í framhaldi þess hefst talning.

Eva Bryndís Helgadóttir, formaður yfirskjörstjórnar Reykjavíkur, sagði við Morgunblaðið að hvergi væri ákvæði í lögunum sem segði að það mætti ekki telja utankjörfundaratkvæði sér og að ekki væri hægt að blanda þessum atkvæðum saman.

„Nei, það er ekki hægt. Utankjörfundaratkvæðunum er öllum blandað saman en þau fara í alveg sér meðferð. Það þarf að yfirfara þau alveg sérstaklega. Þannig að þau blandast aldrei saman við venjulegu atkvæðin,“ sagði hún.

Birti og eyddi færslu

Í fundargerð yfirkjörstjórnar Reykjavíkur frá 11. maí virðist grunnurinn hafa verið lagður að umræddri framkvæmd, sem fólst í því að halda atkvæðum greiddum utan kjörfundar aðgreindum frá atkvæðum greiddum á kjördag, sem og að utankjörfundaratkvæðin voru talin sér.

Páll Hilmarsson, starfsmaður Gagnaþjónustu Reykjavíkur, birti auk þess í færslu á Twitter um mismunandi fylgi framboða eftir því hvort um utankjörfundaratkvæði væri að ræða eða atkvæði greidd á kjörfundi. Færslunni var síðar eytt. Ekki náðist í Pál við vinnslu þessarar fréttar.

Annar háttur í Hafnarfirði

„Hún er bara eins og lög kveða á um. Við lok kjörfundar fer hver kjördeild yfir það hvort viðkomandi hafi greitt atkvæði á kjördag. Ef hann hefur ekki greitt atkvæði á kjördag og öll fylgiskjölin eru rétt þá blandast atkvæðið sem er inni í þessu umslagi bara ofan í kjörkassann,“ sagði Þórdís Bjarnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Hafnarfirði, við Morgunblaðið þegar hún var spurð hvernig framkvæmdin í sambandi við utankjörfundaratkvæðin hefði verið viðhöfð í Hafnarfirði.

Snorri Tómasson, formaður yfirkjörstjórnar í Kópavogi, kvað við svipaðan tón og sagði við Morgunblaðið að það ætti að blanda atkvæðunum saman. Hann bendir á að ítarleg reglugerð sé til um þetta sem var ekki til áður. Spurður hvort það eigi að vera hægt að greina fylgi framboða samkvæmt atkvæðum greiddum á utankjörfundi og kjörfundi sagði hann:

„Nei, það á ekki að vera hægt. Það er reynt að passa upp á allt svona, að það sé ekki hægt að lesa neitt út úr þessu.“

Bætti Snorri við að ekki ætti að vera hægt að greina fylgi samkvæmt utankjörfundaratkvæðum.