[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kópavogi Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Valur er með sex stiga forskot á Breiðablik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir afar mikilvægan 1:0-sigur Íslandsmeistaranna í stórleik 6. umferðar deildarinnar á Kópavogsvelli í Kópavogi í gær.

Í Kópavogi

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur er með sex stiga forskot á Breiðablik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir afar mikilvægan 1:0-sigur Íslandsmeistaranna í stórleik 6. umferðar deildarinnar á Kópavogsvelli í Kópavogi í gær.

Arna Sif Ásgrímsdóttir reyndist hetja Vals en hún skoraði sigurmark Vals á 55. mínútu með frábærum skalla eftir hornspyrnu Ásdísar Karenar Halldórsdóttur.

Blikar voru sterkari aðilinn í leiknum en líkt og svo oft áður í sumar tókst liðinu ekki að koma boltanum í netið, þrátt fyir prýðisgóð marktækifæri.

Besta færi leiksins fengu Blikar á 82. mínútu þegar Vilhjámur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu á Val eftir mikinn atgang í vítateig Valskvenna.

Ástralinn Melina Ayers steig á punktinn en Sandra Sigurðardóttir kórónaði frábæran leik sinn með því að verja spyrnuna, og einnig frákastið sem féll fyrir Karitas Tómasdóttur.

Kjarninn sá sami á Hlíðarenda

Þrátt fyrir að hafa verið lakari aðilinn í leiknum verður að hrósa Valsliðinu fyrir að vinna hann. Þær nýttu sér styrkleika sína vel og þvinguðu Blika í fyrirgjafir úr þröngum stöðum sem varnarmenn Vals réðu mjög vel við.

Breiðablik er með mikið breytt lið frá síðustu leiktíð og liðið virðist ennþá vera að finna taktinn. Þá vantar liðið sárlega framherja sem getur haldið boltanum almennilega og maður efast um það að þeir leikmenn sem voru sóttir fyrir mót til þess að leysa þá stöðu séu nægilega góðir til þess að spila fyrir lið sem á að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Á sama tíma eru Valskonur einnig með breytt lið frá síðustu leiktíð en kjarninn í liðinu er nánast sá sami. Valskonur héldu sínum kjarna á meðan Blikar gerðu það ekki og það gæti riðið baggamuninn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Breiðablik tapaði aðeins fjórum leikjum í deildinni á síðustu leiktíð en endaði engu að síður níu stigum á eftir Val sem tapaði aðeins einum leik.

Að sjálfsögðu er spurt að leikslokum í fótbolta en það er ýmislegt sem bendir til þess að Breiðablik sé að missa af lestinni og að titillinn sé Valskvenna að tapa, þrátt fyrir að einungis sex umferðir séu búnar af mótinu.

*Miðvörðurinn Arna Sif skoraði sitt þriðja mark í deildinni í sumar í sex leikjum og er markahæsti leikmaður Vals ásamt Elínu Mettu Jensen.

*Breiðablik hefur fengið þrjár vítaspyrnur í deildinni til þessa en liðinu hefur aðeins tekist að skora úr einni þeirra.

BREIÐABLIK– VALUR 0:1

0:1 Arna Sif Ásgrímsdóttir 55.

MM

Arna Sif Ásgrímsdóttir (Val)

Sandra Sigurðardóttir (Val)

M

Telma Ívarsdóttir (Breiðabliki)

Taylor Ziemer (Breiðabliki)

Karitas Tómasdóttir (Breiðabliki)

Áslaug M. Gunnlaugsdóttir (Breiðabliki)

Hildur Antonsdóttir (Breiðabliki)

Elísa Viðarsdóttir (Val)

Mist Edvardsdóttir (Val)

Lára Kristín Pedersen (Val)

Ásdís Karen Halldórsdóttir (Val)

Dómari : Vilhjálmur Alvar Þórarinsson. – 8.

Áhorfendur : 586.

*

Liðsuppstillingar, gul spjöld, viðtöl og greinar um leikina – sjá mbl.is/sport/fotbolti.