[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússneski herinn herti í gær á sóknaraðgerðum sínum í Lúhansk-héraði, í von um að hægt yrði að umkringja eða hertaka síðustu vígi Úkraínumanna í héraðinu.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússneski herinn herti í gær á sóknaraðgerðum sínum í Lúhansk-héraði, í von um að hægt yrði að umkringja eða hertaka síðustu vígi Úkraínumanna í héraðinu.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi sínu til þjóðarinnar í fyrrinótt, að næstu vikur stríðsins yrðu erfiðar og að rétt væri að búa sig undir það. Nefndi Selenskí sérstaklega bæina Bakhmút, Popasna og Severodonetsk, sem hafa orðið illa úti í stórskotahríð Rússa að undanförnu.

Sergí Gaídaí, héraðsstjóri Lúhansk-héraðs, sagði á samskiptamiðlinum Telegram að enn væru um 15.000 óbreyttir borgarar í Severodonetsk, austustu borginni sem enn er á valdi Úkraínumanna. Varaði Gaídaí við því að nú væri um seinan að reyna að yfirgefa borgina og ráðlagði hann því að leita sér skjóls fyrir stórskotahríðinni, sem væri nú nær stanslaus.

Bardagar á litlu svæði

Helstu markmið Rússa í orrustunni um Donbas eru borgirnar Severodonetsk, Kramatorsk og Slóvíansk, en með því að hertaka þær gætu Rússar mögulega umkringt tugþúsundir hermanna Úkraínuhers. Fara nú helstu bardagarnir fram á svæðinu í kringum þessar borgir, sem er einungis um 120 km langt frá einum enda til annars.

Þrátt fyrir að Rússar hafi til þessa haft yfirburði í fjölda skriðdreka, þyrlna og annarra þungavopna, hafa þeir hins vegar ekki haft nægan mannafla til þess að tryggja að sóknarlotur þeirra nái í gegnum þéttar varnir Úkraínumanna.

Þannig hefur sókn Rússa frá borginni Isíum strandað skammt norðan við Slóvíansk, og tilraunir til þess að skera á birgðalínur borgarinnar við Barvenkove hafa heldur ekki borið árangur. Á móti hafa Rússar náð að umkringja bæi á borð við Líman, sem og Bakhmút sem áður var getið.

Náttúruöflin hafa verið með Úkraínumönnum í liði framan af innrás Rússa og eitt af því sem hefur aðstoðað þá í orrustunni um Donbas er Severskí Donets-áin, sem liggur þvert um Donbas-héruðin og á milli borganna þriggja sem Rússar vilja ná. Rússar gerðu fyrr í mánuðinum tilraun til þess að byggja brýr yfir ána, en Úkraínumenn náðu að eyðileggja þær og fella í leiðinni rúmlega 400 rússneska hermenn.

Hin misheppnaða tilraun til að komast yfir Severskí Donets-ána, þýðir að ólíklegt er að Rússar muni ná að hertaka Slóvíansk og Kramatorsk. Þess í stað má eiga von á að þeir muni nú sitja um Severodonetsk, og gera Úkraínumenn ráð fyrir að það umsátur muni vera á svipuðum nótum og umsátrið um Maríupol, sem lagði borgina nánast í rústir.

Dýrkeyptur árangur

Þegar og ef Severodonetsk fellur í skaut Rússa, munu þeir hafa náð öllu Lúhansk-héraði á sitt vald. Engu að síður er enn of snemmt að tala um að sigur Rússa í orrustunni um Donbas sé í nánd. Báðir heraflar greiða nú hinum þung högg en Úkraínumenn eiga auðveldara með að kalla fram mannafla til þess að hlaupa í skörð þeirra sem falla.

Þá þykir tíminn vinna frekar með Úkraínumönnum, þar sem þungavopn og annar vígbúnaður streymir nú til landsins frá vesturveldunum, sem munu gera þeim kleift að svara betur árásum Rússa.

Harðlínumenn í Rússlandi eru nú þegar farnir að ókyrrast vegna stöðunnar, og í vikunni mátti sjá ákall þeirra til Pútíns um að lýsa yfir almennri herkvaðningu, svo Rússar gætu mætt mannaflaskorti sínum. Hann hefur hins vegar verið tregur til slíkra ráða, enda eru þegar teikn um að hátt mannfall í stríðinu til þessa sé farið að hafa áhrif á almenningsálitið heima fyrir.

Rússar hafa því takmarkaðan tíma til að ná fram markmiðum sínum í orrustunni um Donbas, og er líklegt að sóknarþungi þeirra muni fjara út, ef ekki kemur til almennrar herkvaðningar fljótlega. Jafnvel þá er vert að hafa í huga, að það tekur tíma að þjálfa upp herlið og gera það bardagahæft.

Bjartsýnn á olíubann

Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði í gær að orrustan um Donbas væri „grimmilegur bardagi“, og hin stærsta sem háð hefði verið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Það væri því brýnt fyrir bandamenn Úkraínu að greiða fyrir vopnasendingum sínum til landsins eins mikið og unnt væri.

Endurómaði hann þar orð Selenskís á ráðstefnunni í Davos, en hann sagði í ávarpi sínu á mánudaginn að Úkraínumenn væru að gjalda sjálfstæði sitt og frelsi dýru verði. Kallaði Selenskí jafnframt eftir því að algjört útflutningsbann yrði sett á rússneska olíu.

Robert Habeck, varakanslari og efnahagsráðherra Þýskalands, sagðist í fyrrakvöld vera bjartsýnn á að samkomulag um slíkt bann myndi nást á vettvangi Evrópusambandsins á næstu dögum, en Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur sett sig á móti slíku banni, nema Ungverjar fái langa undanþágu og háa styrki úr sjóðum Evrópusambandsins til þess að mæta afleiðingum olíubannsins.

Ólíklegt virtist hins vegar þrátt fyrir bjartsýni Habecks að Orbán myndi láta af afstöðu sinni, en hann ritaði Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB, bréf í vikunni, þar sem hann lagði til að olíubannið yrði ekki rætt á fundi ráðsins í næstu viku þar sem ekki væri líklegt að sameiginleg niðurstaða myndi fást.

Ummæli Kissingers fordæmd

Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ávarpaði einnig Davos-ráðstefnuna á mánudaginn. Lagði hann þar til að Úkraínumenn myndu gefa eftir landsvæði til þess að binda endi á innrás Rússa. Þá hvatti Kissinger einnig til þess að vesturveldin ættu að hætta að reyna að stuðla að ósigri Rússlands, og sagði hann það geta haft skelfilegar afleiðingar fyrir stöðugleikann í Evrópu.

Sagði hinn 99 ára gamli Kissinger, sem lengi hefur verið talinn einn af merkisberum svonefndrar „raunsæishyggju“ í alþjóðastjórnmálum, jafnframt að best væri ef markalína vopnahlés væri miðuð við stöðuna eins og hún var fyrir upphaf innrásarinnar.

Tillögum Kissingers var tekið fálega í Úkraínu og sagði Mikhaíl Podalíak, ráðgjafi Selenskís, að Úkraínumenn væru of uppteknir á vígvellinum að verja frelsi sitt og lýðræði til þess að hlusta á hrædda menn í Davos. Þá sagði Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af andstæðingum Pútíns, að afstaða Kissingers væri ekki bara siðlaus, heldur röng, þar sem sagan sýndi að einræðisherrar á borð við Pútín og Xi Jinping þyrftu alltaf á endanum átök til að viðhalda völdum sínum. „Þetta er ekki kalda stríðið,“ sagði Kasparov.

Stela korni og selja í Sýrlandi

Kúleba sakaði í gær Rússa um að stela korni frá Úkraínu og selja það annars staðar, en gervihnattamyndir frá Maxar-fyrirtækinu sem birtust í gær virtust renna stoðum undir þær ásakanir. Sýndu myndirnar rússnesk flutningaskip á Krímskaga, sem verið var að hlaða með korni, áður en þau héldu til Sýrlands.

David Beasley, framkvæmdastjóri matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, varaði í gær við því að ef ekki tækist að opna fyrir kornsendingar frá Úkraínu blasti hungursneyð við víða um veröld, þar sem landið framleiddi venjulega mat sem dygði fyrir 400 milljónir manna. Voru Evrópusambandið og Bretar sagðir leita leiða í gær til þess að koma um 20 milljón tonnum af korni landleiðina frá Úkraínu.