Apabóla Þessi mynd var tekin árið 1997 við rannsókn á faraldri sem kom upp í Austur-Kongó og sýnir útbrot sem talin eru dæmigerð fyrir veiruna.
Apabóla Þessi mynd var tekin árið 1997 við rannsókn á faraldri sem kom upp í Austur-Kongó og sýnir útbrot sem talin eru dæmigerð fyrir veiruna. — AFP/Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna/Brian W.J. Mahy
Stjórnvöld í Tékklandi, Austurríki og Slóveníu tilkynntu í gær um fyrstu tilfellin af apabólunni, sem hefur verið að dreifa sér um Evrópu og Norður-Ameríku síðustu vikur.

Stjórnvöld í Tékklandi, Austurríki og Slóveníu tilkynntu í gær um fyrstu tilfellin af apabólunni, sem hefur verið að dreifa sér um Evrópu og Norður-Ameríku síðustu vikur. Þá urðu Sameinuðu arabísku furstadæmin fyrsta ríkið við Persaflóa til að tilkynna um tilfelli.

Sögðu yfirvöld í Tékklandi að viðkomandi hefði sýnt einkenni eftir að hafa sótt tónlistarhátíð í Antwerpen í Belgíu fyrr í mánuðinum. Pavel Dlouhy, yfirmaður sóttvarnastofnunar Tékklands, sagði í samtali við AFP að Tékkar hefðu átt von á að veiran bærist þangað.

Austurrísk heilbrigðisyfirvöld sögðu að maður sem færður var á sjúkrahús á sunnudaginn hefði reynst smitaður, og í Slóveníu reyndist viðkomandi hafa smitast af veirunni á Kanaríeyjum.

Hægt að stöðva útbreiðsluna

Veiran sem veldur apabólunni er landlæg í Afríku, en talin sjaldgæf utan þeirrar heimsálfu. Hún er sögð skyld veirunni sem olli bólusótt, en veldur mun vægari einkennum.

Þau koma fram um einni til tveimur vikum eftir smit, og veldur veiran meðal annars háum hita, vöðvaverkjum, bólgnum eitlum, hrolli, þreytu og útbrotum sem minna á hlaupabóluna á höndum og í andliti. Veiran er talin dreifast með snertingu við útbrotin eða með úðasmiti frá sýktum einstaklingi.

Flestir sem smitast af apabólunni ná sér á örfáum vikum, en eitt afbrigði veirunnar er talið geta verið banvænt í 10% tilfella. Flest bendir þó til að veiran sem nú er að dreifa sér tilheyri mildara afbrigði hennar, sem kennt er við Vestur-Afríku, en því fylgir innan við 1% dánarhlutfall. Veiran getur þó lagst verr á börn og fólk með skert ónæmiskerfi.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sagði í fyrradag að hættan á að apabólan myndi dreifa sér víða meðal almennings í Evrópu og Norður-Ameríku væri ekki mikil og að hægt væri að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Heilbrigðisyfirvöld víða um heim fylgjast nú með útbreiðslu veirunnar, og hafa grunuð tilfelli hennar komið upp í ríkjum eins og Ástralíu, Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ísrael, Ítalíu, Hollandi, Portúgal, Spáni og Svíþjóð.

Bandaríkjastjórn lýsti því yfir í fyrradag að hún hygðist dreifa bóluefni gegn apabóluveirunni til fólks sem væri nákomið þeim sem hefðu smitast, en nú þegar hafa eitt staðfest og fjögur grunuð tilfelli komið upp vestanhafs. Eru öll tilfellin sögð hafa komið upp í karlmönnum sem hafi ferðasögu sem styðji við þá tilgátu að um apabólu sé að ræða.

Ekki talin meira smitandi

Útbreiðsla apabóluveirunnar nú hefur vakið grunsemdir um að hún hafi fundið leið til að vera meira smitandi, en fátt er þó sagt renna stoðum undir þá tilgátu. Í fréttaskýringu New York Times sagði til dæmis að ólíkt kórónuveirunni væri apabóluveiran stór og þung, og ætti hún því erfiðara um vik að berast langar vegalengdir í lofti.

Þá hefur til þessa verið sjaldgæft að veiran berist manna á milli, þar sem helsta smitleið hennar sé snerting á milli fólks. Þó geti hún einnig borist með rúmfötum og klæðnaði sem fólk deili með sér.

Ekki er hins vegar talið að veiran sé smitandi áður en einkenni hennar koma fram, ólíkt kórónuveirunni. Útbrotin sem fylgi apabólunni geti því hjálpað til við að halda útbreiðslu hennar í skefjum.