Elvar Orri Hreinsson var þekktur greinandi efnahagsmála þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri Verkfæra.
Elvar Orri Hreinsson var þekktur greinandi efnahagsmála þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri Verkfæra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verkfæri ehf. í Kópavogi juku veltuna úr 630 milljónum í 1,1 milljarð milli ára 2020 og 2021. Elvar Orri Hreinsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir m.a. ný umboð hafa aukið sölu.

Elvar Orri Hreinsson var ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins í fyrrasumar en hann starfaði lengi sem greinandi hjá Íslandsbanka. Starfaði undir lokin við hlið Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings bankans en söðlaði um í ársbyrjun 2020 og gerðist greinandi hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Sumarið 2021 bauðst honum að verða framkvæmdastjóri Verkfæra.

En hver er saga Verkfæra?

„Ólafur Baldursson stofnaði fyrirtækið árið 2009 í kringum útflutning á vélum. Þá var ládeyða á markaði fyrir vinnuvélar og margar vélar lágu ónotaðar og umtalsverðir fjármunir bundnir í slíkum vélum. Því var rökrétt að flytja vélarnar úr landi enda ekki margir kaupendur innanlands eins og ástandið var. Ólafur einhendir sér því í þetta verkefni, selur vélar úr landi og myndar þannig víðtækt tengslanet úti í heimi,“ segir Elvar Orri.

Þegar markaðurinn á Íslandi tók við sér hafi Ólafur því verið kominn með gott tengslanet til að hefja innflutning. Erlendir birgjar hafi verið ánægðir með þau viðskipti enda hafi Ólafur haft mikla þekkingu á íslenska markaðinum og gott tengslanet heima fyrir. Úr varð innflutningur á vélum og tækjum.

Mikill sölumaður

„Ólafur er frábær sölumaður, með háleit markmið og einbeitir sér nú að mestu að því að efla tekjugrunn fyrirtækisins, ýmist með því að efla núverandi viðskiptatengsl, sækja ný umboð eða nýja viðskiptavini,“ segir Elvar Orri. Félagið starfi nú í sölu og innflutningi á vélum, tækjum og búnaði fyrir byggingar- og jarðvinnuverktaka, framleiðslufyrirtæki, bæjarfélög og fleiri aðila. Þá selji fyrirtækið einnig vara- og fylgihluti og ýmiskonar þjónustu.

Þessi umskipti á rekstrinum, úr útflutningi í innflutning, urðu fyrir um áratug. Fyrirtækið var fyrst með aðsetur í Smáranum í Kópavogi en haustið 2019 flutti það sig um set í bæjarfélaginu og fjárfesti í nýju húsnæði í Tónahvarfi 3. Húsnæðið er nú samtals um þúsund fermetrar og þar nær fyrirtækið að samþætta skrifstofuhúsnæði, sýningarsal, verkstæðisrými, fundaraðstöðu, varahluta- og vörulager o.fl.

Viðskiptahópurinn breyst

„Viðskiptahópurinn hefur tekið töluverðum breytingum síðustu 12-18 mánuði. Það kemur ekki síst til af því að seint á árinu 2019 tekur fyrirtækið við umboðinu fyrir Merlo, sem eru skotbómulyftarar, grænir á lit, af Íslyft sem var með umboðið áður en við tókum við því.

Með því að taka við Merlo-umboðinu erum við að víkka út kúnnahópinn og ná í auknum mæli m.a. til vöruhúsa-, sjávarútvegs- og flutningsfyrirtækja. Jarðvinnugeirinn getur verið sveiflukenndur og ófyrirsjáanlegur og þurfa aðilar í geiranum oft vélar og tæki með skömmum fyrirvara. Við núverandi aðstæður getur því verið krefjandi að ná sölunni. Þá er auðvitað æskilegt að vera með fjölbreyttan viðskiptamannahóp sem dregur úr áhættu og sveiflum í starfseminni.“

Hefur starfsmönnum fjölgað?

„Ég var tólfti starfsmaðurinn og nú erum við tuttugu og tvö. Þannig að við höfum ráðið að jafnaði einn starfsmann í hverjum mánuði. Flestir fóru í þjónustudeildina en við leggjum ríka áherslu á að efla hana.“

Hvar liggur vöxturinn?

„Það er meðal annars Merlo-umboðið sem við tökum inn seint á árinu 2019 en með því koma aukin viðskipti og umfang og við seljum 25 til 35 tæki á ári. Meðalkostnaður á tæki er um 15 milljónir,“ segir Elvar Orri. Þá liggi vöxturinn einnig að miklu leyti í Leica-vörunum en fyrirtækið hafi tekið við því umboði á vormánuðum í fyrra. Það hafi reynst gæfuspor fyrir fyrirtækið enda séu Leica-vörur gæðavörur sem margir þekki af góðri raun.

Elvar Orri segir aðspurður að veltan sé komin yfir milljarð og er þá miðað við óendurskoðaðar tölur. Þ.e. um 1,1 milljarður króna í fyrra.

„Til samanburðar var hún 630 milljónir árið áður. Þannig að við erum að tæplega tvöfalda veltuna. Það er m.a. út af Merlo og Leica og síðan hefur gengið ágætlega í sölu á notuðum vélum en flæðið hefur legið þangað m.a. vegna þess að nú hefur bið eftir nýjum tækjum lengst. Þá höfum við einnig lagt mikla áherslu á þjónustuna og þjónustutekjur hjá okkur fara vaxandi.“

Gagnkvæmt traust mikilvægt

Elvar Orri segir vélasöluna mikið snúast um persónuleg tengsl. Það sé enda gjarnan um háar fjárhæðir að ræða og mikið í húfi og því þurfi að ríkja gagnkvæmt traust.

Verkfæri selji ýmiss konar þungavinnuvélar, tæki og tól. Til að mynda beltagröfur frá japanska framleiðandanum Kobelco.

„Við erum með fjölbreyttara búðarborð en áður, sem kemur sér vel, sérstaklega þegar ákveðnir birgjar lenda í vandræðum með afhendingar en þá getum við aukið umsvifin hjá þeim birgjum sem geta afhent og dreifum þannig áhættunni í rekstrinum,“ segir Elvar Orri.

Fái allt á einum stað

Markmiðið sé að fyrirtækin geti komið til Verkfæra og fengið allt sem þau vantar, vörur eða þjónustu.

„Við erum með umboð, tengslanet og starfskrafta til að útvega vinnuvélina, aukahluti sem henni þurfa að fylgja, tæknibúnað frá Leica, varahluti og verkstæðisþjónustu og viljum þannig geta þjónustað okkar viðskiptavini hvar svo sem þarfir þeirra liggja,“ segir Elvar Orri.

Opnuðu nýverið á Akureyri

Hann segir aðspurður að viðhald sé hluti af tekjugrunninum.

„Já. Það er gríðarlega mikilvægt í þessum bransa að geta státað af góðri þjónustu. Við opnuðum nýverið verkstæðisþjónustu á Akureyri og þá fyrst treysta menn sér í stærri viðskiptin við okkur vitandi það að þjónustan er fyrir hendi. Við getum þá gripið okkar viðskiptavini með fljótum og öruggum hætti ef eitthvað kemur upp á. Þessi markaður er þjónustudrifinn. Ef þú státar ekki af góðri þjónustu munu menn líklega leita eitthvað annað. Við höfum líka til skoðunar að opna útibú á Austurlandi en þar er öflugur sjávarútvegur og iðnaður,“ segir Elvar Orri.

Eykur samkeppnina

Margt sé spennandi fram undan. „Það eru spennandi hlutir að gerast með Leica. Við tókum við því umboði á vormánuðum í fyrra en þetta er þekkt vörumerki og leiðandi á Norðurlöndum. Þarna erum við að hefja alvörusamkeppni á markaði sem var kannski of lítil samkeppni á. Við heyrum það frá viðskiptavinum okkar að þeir fagna samkeppninni þar sem hún leiðir auðvitað af sér betri þjónustu og verð en ella.“