Margir vilja byggja vindmyllur.
Margir vilja byggja vindmyllur. — Morgunblaðið/RAX
Orka Portúgalska orkufyrirtækið Greenvolt Energias Rnovaveis SA hefur í gegnum pólskt dótturfélag sitt, V-Ridium, samið um kaup á vindorkuverkefni hérlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Orka Portúgalska orkufyrirtækið Greenvolt Energias Rnovaveis SA hefur í gegnum pólskt dótturfélag sitt, V-Ridium, samið um kaup á vindorkuverkefni hérlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Þar segir að um sé að ræða vindmyllugarð með 90 MW uppsetta orku en ekki er upplýst nánar hvaða verkefni um er að ræða.

34 verkefni í þróun

Eins og sjá má á heimasíðu rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða eru þrjátíu og fjögur vindorkuverkefni í þróun hér á landi. Ekki hefur enn verið lokið við umhverfismat fyrir neitt verkefnanna samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans. Eftir því sem blaðið kemst næst er 90MW garður algeng stærð hér á landi og samanstendur þá af um tuttugu vindmyllum.

Í tilkynningu Greenvolt segir að vonast sé til þess að vindorkugarðurinn sem um ræðir verði fyrsti garðurinn sem rís á Íslandi.

„Ísland er, nú þegar, leiðandi á sviði endurnýjanlegrar orku. Því erum við hjá GreenVolt stolt af því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þessari vegferð,“ segir João Manso Neto, forstjóri GreenVolt, í tilkynningunni. „Verkefnið markar einnig innreið GreenVolt á enn einn nýja markaðinn. Kaupin eru hluti af alþjóðlegri markaðssókn félagsins,“ bætir hann við.

Eins og fram kemur á heimasíðu GreenVolt er félagið með ýmis verkefni í vinnslu á sviði sjálfbærrar orku. Auk vindorku vinnur félagið með sólarorku og býr til orku úr lífmassa.