Efnahagsþvinganir 2014 voru prump sem ESB hannaði. Það verður að kosta Kreml að losa um þær síðari

Þeir, sem stríða í Úkraínu, vita í stórum dráttum hvert manntjónið er orðið. En algilt er að sannleikurinn fellur einna fyrstur í val stríðsins. Til þess eru gildar ástæður, en ekki endilega góðar. Tölur yfir fallna (og særða) segja mikið um þann „árangur“ sem stríðsþjóðir hafa náð hverju sinni. Yfirvöld í Kænugarði blása upp tölu fallinna Rússa eins og óhætt er fyrir trúverðugleikann. Sjálfsagt hafa þau einnig annan lista, sem algjört leyndarmál fyrir sig, um hversu marga af innrásarliðinu hefur tekist að fella. Þeir hafa séð líkin af hermönnum sem Rússar hafa neyðst til að skilja eftir.

Að auki má í ýmsum tilvikum reikna tölu fallinna af öryggi. Til eru myndir úr flaugum, af eyðilögðum rússneskum hertólum, bifreiðum, skriðdrekum og flugvélum. Af útliti þeirra má fá glögga mynd af því hversu margir hafa fallið. Skriðdreki sprengdur í loft upp með flaugum eða drónum er staðreyndabanki. Gerð hvers skriðdreka er þekkt og tala áhafnar sem fylgir hverjum og einum. Vel heppnuð árás á herskipið Moskvu var áfall og álitshnekkir og myndir af skipinu, strax á eftir, gerðu kleift að ætla manntjón þar. Þessi hernaðaraðgerð komst næst því að teljast gerð af Bandaríkjunum, enda töluðu menn í gleði sinni mjög óvarlega um það. Úkraínumenn hafa því nákvæmar tölur um fallna andstæðinga.

Rússar hafa þó auðvitað nákvæmari tölur. Þeir vita hverjir skila sér ekki til baka af vígvellinum. Báðir aðilar draga úr sínu manntjóni. Rússar geta illa leynt sínu tjóni sem orðið er mun meira en þeir gáfu sér fyrir fram.

Úkraínumenn fengu nánast engin vopn frá „stuðningsþjóðum“ áður en stríðið skall á. Ekki mátti styggja Rússa til stríðs. Fyrstu vikur á eftir voru það Bretar og svo í auknum mæli Bandaríkjamenn sem munaði um. Þjóðverjar og Frakka seldu Rússum vopn fram undir miðjan síðasta mánuð! Þjóðverjar settu opinberlega ofan í við þær þjóðir sem fóru yfir þeirra lofthelgi til að styðja þjóðina sem varð fyrir innrás. Þetta mæltist illa fyrir, heima og heiman, þegar það spurðist og kanslarinn og flokkur hans töpuðu hratt fylgi. Það eru rök sem stjórnmálamenn skilja.

Það var svo fyrst í þessari viku að forseti Úkraínu viðurkenndi að mannfall í varnarliði hans næmi 50-100 mönnum á dag. „Þetta er gríðarleg blóðtaka,“ sagði hann og ítrekaði að þessum illu ógöngum verður ekki lokið nema með friðarsamningum. Forsetinn varð fyrir öðru áfalli þegar Rússum tókst loks að finna og sprengja geymslur og helstu aðkomu fyrir vopn frá bandamönnum Úkraínu.

Úkraínustjórn hefur áætlað að Rússar hafi misst 30 þúsund manns til þessa. Rússar staðfesta að allt að því 1.500 menn hafi fallið í aðgerðum þeirra. Breska leyniþjónustan telur að líklega hafi Rússar á þrem mánuðum misst jafn marga og Sovétherinn missti í 9 ára herför í Afganistan, eða 15 þúsund menn.

Þá er þess að minnast að vígvöllurinn er allur innan landamæra varnaraðilans. Ömurleg mynd eyðileggingar blasir við á hverjum degi á skjánum. Ekki þó í Rússlandi. Úkraína hefur sannarlega haldið fána sínum hátt á lofti og lengur en nokkur bjóst við. Nú er hætt við að draga taki úr vopnaflutningi til landsins þegar torveldara verður að koma þeim í réttar hendur. Selenskí orðaði á ný að endapunktur átakanna yrði einungis fundinn við samningaborðið. Í hugum margra verður hann og þjóð hans ætíð hinn ótrúlegi sigurvegari í vonlítilli stöðu. Hann hlaut að segja að særðir og sárþjáðir hermenn í stálsmiðjunni í Mariupol myndu aldrei gefast upp. Og það gerðu þeir í rauninni ekki. Þeir voru vopnlausir, matarlausir, vatnslausir og særðir og engin minnsta von var um liðsauka. Selenskí hafði sagt að þeir myndu berjast til síðasta manns. Það gerðu þeir í raun og veru.

Henry Kissinger talaði nú síðast við kjaftaskjóðurnar í Davos. Hann er 98 ára gamall og enn er hlustað á hann umfram marga. Þar gætti lítillar óskhyggju. „Hver er veruleikinn og hvaða kostir bjóðast?“ Úkraína verður að gefa eftir, segir Kissinger. Án þess verður ekki bundinn endi á átökin við Rússa. Hann bendir á að tal þeirra sem ætla að Rússland verði sigrað í þessum áfanga gangi ekki upp. „Sé það forsendan verður ekki komist hjá nýju stríði við Rússland,“ segir Kissinger og bætir við að samningaviðræðum þurfi að koma á innan tveggja mánaða. Auðvitað væri göfugast markmið þeirra „status quo ante“, að allt verði fært að upphafspunkti átakanna (nú í febrúar) og hann yrði einnig lokapunktur samninganna. Ljóst er að Kissinger telur að slegið verði strik undir það sem Rússar „helguðu“ sér 2014 og keppikeflið ætti að vera að tryggja að ekki þurfi að gefa mjög mikið eftir til viðbótar, vegna átakanna nú. Verði bandamenn Úkraínu staðfastir má knýja Rússa til að kaupa losun efnahagsþvingana dýru verði.