Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Í vorblíðunni“: Gullin sindra sólarblik sveipa tindinn háa gróa rindar, kát og kvik kliðar lindin bláa.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Í vorblíðunni“:

Gullin sindra sólarblik

sveipa tindinn háa

gróa rindar, kát og kvik

kliðar lindin bláa.

Þar sem áin ljúflings lög

leikur á bláa strengi

og við sjávar ölduslög

una má ég lengi.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætir við:

Veitir yndi vorsól blíð

vermir tind og hjalla.

Gróa rindar grænkar hlíð

glitra lindir fjalla.

Anna Dóra Gunnarsdóttir segist aldrei hafa ort áður undir þessum bragarhætti, hringhendu, og sé rígmontin með árangurinn, – og má líka vera það!

Röðull sindrar, rýkur barð,

reikar kind um túnin.

Lítill dindill, lambasparð,

léttist rinda brúnin.

Vorkoman eftir Sigurlínu Hermannsdóttur:

Geysist fram með gusti

grænkar allt og vænkast.

Smá upp stingast stráin

strax þó úr sér vaxin.

Laufrík garða gerðin

gjarnan klippi þarna.

Frá búðunum í beðin

blómin vel sér sóma.

Sigrún Haraldsdóttir yrkir:

Ég þarf ekki að keppa í mælgi og masi,

um metorðastiga að skunda,

það nægir mér ilmur af nýslegnu grasi

svo njóti ég hamingjustunda.

Dagbjartur Dagbjartsson skrifar: „Þessar vísur eftir Valda Jós. Þorvald Jósepsson sem bjó í Sveinatungu og Hafþórsstöðum og víðar mættu alveg vera þekktari“:

Gamla Rauð ég muna má,

mér hann skemmti að vonum.

Skyldi ég aldrei aftur fá

annan líkan honum?

Er hann rennur gróna grund

geislar streyma hlýju

þá ég löngu liðna stund

lifi upp að nýju.

Kristján H. Theodórsson skrifaði á sunnudag: „Skógarböðin í Eyjafjarðarsveit voru opnuð í dag“:

Í Eyjafjarðar yndissveit,

öllum létt er kvöðin:

Þar sólríkum í sælureit,

að sækja Skógarböðin.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is