Dómur Hæstaréttar sýnir þýðingu þess að málsvarnir í dómsmáli komi fram svo fljótt sem verða má og að brugðist sé tímanlega og af heilindum við kröfu skiptastjóra um upplýsingar um eignir.

Við opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða sambúðaraðila skipar héraðsdómur skiptastjóra hvers hlutverk er að afla upplýsinga um allar eignir og skuldbindingar aðila á viðmiðunardegi skipta og taka ákvörðun um ráðstöfun þeirra í samræmi við skilyrði laga. Skiptastjóri hefur fortakslausa skyldu til að tryggja að upplýst sé um allar eignir aðila við opinber skipti. Í 1. mgr. 52. gr. er því mælt fyrir um að þeim sem hafi eignir bús í umráðum sínum sé skylt að veita skiptastjóra upplýsingar um þær. Hér á landi er upplýsingaöflun skiptastjóra um eignir almennt auðfengin en erfðara kann að vera um vik varðandi eignir erlendis, einkum í þeim tilvikum þegar sá sem upplýsingarnar hefur sýnir ekki viðleitni til veitingar þeirra. Skiptastjóri kann við slíkar aðstæður að þurfa að áætla í frumvarpi sínu um verðmæti viðkomandi eignar en gæta þarf að því að slík áætlun styðjist við forsvaranleg gögn og röksemdir.

Komi upp ágreiningur við opinber skipti er unnt að vísa ágreiningi til úrlausnar héraðsdóms en um málsmeðferðina gilda reglur XVII. kafla laga nr. 20/1991. Í 2. mgr. 131. gr. sbr. 3. mgr. 133. gr. laganna er mælt fyrir um að þar sem ákvæðum laga nr. 20/1991 sleppi verði beitt ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglum einkamálaréttarfars, þ.m.t. reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni.

Í nýlegum dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/2021 greindi A og B á um inneign B á erlendum bankareikningi á viðmiðunardegi skipta. B hafði áður játað að eiga reikninga í erlenda bankanum F og að innistæða hafi verið á reikningum á viðmiðunardegi skipta, sem hann vissi þó ekki hversu há væri. Skiptastjóri hafði á skiptafundum ítrekað óskað eftir að B upplýsti um fjárhæð innistæðna á erlendum bankareikningum sem B gerði ekki. Í frumvarpi til úthlutunar var því miðað við að engin eign væri þar fyrir hendi. A mótmælti því og krafðist þess fyrir dómi að frumvarpinu yrði breytt m.a. með þeim hætti að lagt yrði til grundvallar að B ætti 500 m.kr. á erlendum bankareikningum. Kröfunni var hafnað af héraðsdómi með vísan til þess að hún fengi ekki stoð í gögnum málsins eða skattframtali.

Úrskurður héraðsdóms var kærður til Landsréttar sem sneri við niðurstöðunni. Í ljósi vanrækslu við að verða við áskorunum skiptastjóra og þess að A ætti ekki kost á að afla yfirlita yfir reikningana taldi Landsréttur að skýra bæri afstöðu B á þann hátt sem væri A hagfelldust og féllst Landsréttur á að miða bæri við að eign B á erlendum bankareikningum næmi kr. 500 m.kr. á viðmiðunardegi. Eftir niðurstöðu Landsréttar aflaði B loks yfirlits um innistæður hjá F sem sýndi innistæðu í svissneskum frönkum að jafnvirði kr. 5.717.589 á viðmiðunardegi.

Hæstiréttur taldi hins vegar að A hefði engin gögn eða tölulega útlistun lagt fram til stuðnings staðhæfingu um að fjárhæð innistæðna B næmi 500. m.kr. Taldi Hæstiréttur að með þessu hefði A ekki lagt fullnægjandi grundvöll að kröfu sinni svo unnt væri að snúa sönnunarbyrði yfir á B um að hann hafi ekki átt 500. m.kr. innistæðu á viðmiðunardegi skipta. Hæstiréttur taldi þó líkur á að innistæðan hafi ekki numið kr. 5.717.589 og lagði af þeim sökum ekki efnisdóm á kröfuna heldur vísaði henni frá dómi.

Varðandi hinar nýju upplýsingar um bankainnistæðu B hjá F vísaði rétturinn til þess að samkvæmt útilokunarreglu einkamálaréttarfars skyldu aðilar hafa uppi kröfur sínar og röksemdir jafnharðan og tilefni væri til ella kæmust þær ekki að í dómsmáli. Með vísan til tilrauna skiptastjóra til öflunar upplýsinganna og sinnuleysis B við að verða við þeim var ekki talið afsakanlegt að krafa B um að innistæða næmi aðeins kr. 5.717.589 kæmi fyrst fram fyrir Hæstarétti. Krafan kæmist því ekki að nema að því leyti sem í henni fælist viðurkenning á henni A til hagsbóta og henni vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar felur í sér að taka þarf upp frumvarp milli aðilanna og skiptastjóri að staðreyna með upplýsingaöflun að hvaða marki innistæða á erlendum bankareikningi hafi verið hærri en hin viðurkennda fjárhæð kr. 5.717.589. Verði þær upplýsingar ekki veittar ber skiptastjóra að áætla fjárhæðina með vísan til gagna málsins og þeirra fjárhagslegu umsvifa B sem gögnin endurspegla.

Dómur Hæstaréttar sýnir þýðingu þess að málsvarnir í dómsmáli komi fram svo fljótt sem verða má og að brugðist sé tímanlega og af heilindum við kröfu skiptastjóra um upplýsingar um eignir. Ella er hætta á hvoru tveggja, útilokun og áætlun.