Þessari mynd var smellt af rétt í þann mund sem borgarinn tók á sig mynd á flugvélarbakkanum. Þessi réttur sló rækilega í gegn. Ekkert gat toppað hann.
Þessari mynd var smellt af rétt í þann mund sem borgarinn tók á sig mynd á flugvélarbakkanum. Þessi réttur sló rækilega í gegn. Ekkert gat toppað hann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið er gaman að geta aftur skellt í matarboð að loknum samkomutakmörkunum. Enn skemmtilegra þegar manni er boðið í slíkt.

Mikið er gaman að geta aftur skellt í matarboð að loknum samkomutakmörkunum. Enn skemmtilegra þegar manni er boðið í slíkt. Í flestum boðum af þessu tagi er eitthvað óvænt að finna, annaðhvort í matar- eða drykkjavali, og þess vegna getur verið svo gaman að vera gestur í stað þess sem stýrir dagskránni.

Um daginn lenti ég hins vegar í frábæru boði sem rennur mér seint úr minni.

Talsverðar leiðbeiningar eða fyrirmæli fylgdu í boðinu en þangað stefndi gestgjafinn þrennum hjónum sem öll hafa gaman af matargerð og góðum drykkjum.

Hvert og eitt okkar átti að mæta til leiks með einn rétt og drykk sem gæti parast skemmtilega (og helst vel) við hann. Ekki skipti máli hvort um væri að ræða for-, aðal- eða eftirrétt. Tilviljun myndi ráða hvort hefðbundin dreifing yrði milli rétta eða hvort við stæðum uppi með 5-6 eftirrétti eða forrétti.

Lykilatriði í undirbúningnum var sú staðreynd að boðið barst með góðum fyrirvara. Þá var mögulegt að leggja höfuðið í bleyti og huga að smáatriðunum.

Óhætt er að segja að þetta fyrirkomulag hafi heppnast vel og setti mikla spennu í leikinn. Var ekki laust við að veislugestir pukruðust með helstu vopnin í baráttunni, því þetta var jú keppni. Hver og einn réttur var veginn og metinn af miklu vægðarleysi og einkunn gefin eftir kúnstarinnar reglum. Verðlaun í boði í formi konfekts og kampavíns!

Ekki gefst kostur á því að rekja keppnina frá a-ö í pistli sem þessum en fjórir réttir ættu að vekja hugmyndir um það hversu fjölbreytt þetta ferðalag reyndist.

Franska hríðskotabyssan

Einn réttanna (og sá sem kom frá mér) var of einfaldur og lýsti metnaðarleysi hvað matinn varðar, ekki vegna þess að maturinn sem slíkur hafi ekki verið frábær (því það var hann sannarlega) heldur vegna þess að ég leitaði í smiðju vina minna á Fiskmarkaðnum. Sótti til þeirra brakandi ferskt sushi og paraði það við hinn fræga kampavínskokteil, French 75 (kenndur við frægt vopn frá 19. öld). Þar er á ferðinni kampavín sem blandað er saman við gin, sítrónusafa og slurk af sykursírópi. (Pörunin skilaði mér öðru sætinu eftir allt saman).

Annar milli- eða forréttur var cheddar- og mozzarella-fylltur jalapeño, djúpsteikur í í panko-raspi. Þessi dásamlega sterki og bragðmikli réttur var svo paraður við mangó- og jarðarberjamargarítu sem var ótrúlega fersk og vel saltaðir barmar kokteilglassins ýttu enn undir upplifunina.

Einn eftirréttur barst í keppnina miklu. Það var Lavina-ostakaka, basknesk, og var hún pöruð við hinn óvenjulega PX Manhattan-kokteil sem hefur að geyma bourbon-viskí, Petro Ximénez-sérrí, þurran Vermouth og Angostura-bitter! Var þetta ein forvitnilegasta pörun kvöldsins en náði þó ekki á verðlaunapall. Kakan var mun dásamlegri en kokteillinn.

Rétturinn sem sló í gegn var sérhannaður til sigurs, rétt eins og liðssöfnuðurinn hjá City í Manchester-borg. Þar kom margt til, m.a. sú staðreynd að hann samanstóð ekki af rétti og kokteil, heldur tveimur drykkjum sem hvor um sig gerði mikla lukku.

Ótrúleg framsetning

Samsetningin var hugsuð sem framreiðsla á fyrsta farrými í flugi til Mið-Ameríku á áttunda áratug síðustu aldar. Þar var borinn fram sveittur en afar ljúffengur hamborgari með rauðri sósu og steiktum lauk með borgaranum, sem borinn var fram á flugvélarbakka, var boðið upp á tvo kokteila. Annars vegar Cuba Libre, sem hefur að geyma Coca-Cola (úr gleri) ásamt limesafa og Bacardi. Hins vegar var það Strawberry Daiquiri sem skapaði góð hugrenningatengsl við strendurnar sem bíða við lok ferðalags til Kúbu eða annarra ríkja á þeim slóðum. Það sem toppaði þessa ótrúlega skemmtilegu pörun var án nokkurs vafa sú staðeynd að síðarnefndi kokteillinn var borinn fram í glösum merktum Loftleiðum. Toppið það!

ses@mbl.is