Tilraunir Vögel bauð upp á léttproggað þungarokk, sem brotið var upp með skældum gítarflekum.
Tilraunir Vögel bauð upp á léttproggað þungarokk, sem brotið var upp með skældum gítarflekum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ánægjan af tónlist er ánægjan af því að telja ómeðvitað og kemur hvergi eins vel fram og í þungarokki.

AF MÁLMI

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Nú veit ég ekki, lesandi góður, hvort þú hafir gaman af þungarokki, eða tónlist yfirleitt, en að þú sért að lesa þessi orð (eða einhver fyrir þig) bendir vonandi til þess.

Ómeðvituð talning

Það hefur áður komið fram á þessum stað að ánægjan af tónlist er ánægjan af því að telja ómeðvitað og kemur hvergi eins vel fram og í þungarokki. Það er þó ekki það eina sem gleður hjartað við að hlusta á þungarokk, því þangað má líka sækja laglínur, jafnvel hrífandi fagrar, og stundum næra textarnir andann (oft er þó gott að ekki sé hægt að greina orðaskil, því þær hendingar sem eru þó skiljanlegar eru skakkar eins og í skothendu kvæði).

Í útjaðri smábæjarins Wacken í Slésvík-Holtsetalandi er ár hvert haldin mikil þungarokkhátíð, svo mikil að aðrar hátíðir fölna í samanburðinum. Þangað er boðið einni íslenskri hljómsveit ár hvert og til að velja þá sveit er haldin rokkkeppni hér á landi þar sem víðfrægt kunnáttufólk í rokkfræðum frá ýmsum löndum velur þá sveit sem best stendur sig. Slík keppni var haldin í tíunda sinn sl. laugardag, á Húrra, og þá kepptu sjö sveitir: Devine Defilement, Forsmán, Holdris, Krownest, Merkúr, Múr og Vögel. Morpholith hitaði upp og Misþyrming sló botninn í rokkámuna.

Vögel var fyrst á svið keppnissveita og bauð upp á léttproggað þungarokk, sem brotið var upp með skældum gítarflekum og svo slegið í klárinn að nýju. Þegar þeir voru góðir voru þeir frábærir en svo slaknaði á klónni á milli. Fátt er eins skemmtilegt og smá tilraunamennska, ekki síst þegar allt gengur upp.

Slátrarasveit andskotans

Krownest-félagar stigu á stokk í hvítum samfestingum eins og slátrarasveit andskotans – nú átti að rokka og það var líka rokkað svikalaust. Gítarvandræði settu þá félaga ekki á hliðina – reyndar varð sveitin eiginlega betra tónleikaband með söngvara sem gat einbeitt sér að því að skapa stemmningu, laus við hryngígjuna.

Það vantaði ekki stuð í Merkúr-félaga, þeir byrjuðu með látum, miklum látum, þótt það hafi kannski verið óþarfi að spyrja Are you ready fjórum eða fimm sinnum, eða kannski oftar (ég meina ARE YOU READY!!!!). Ekkert vantaði upp á hamagang, það var nóg af honum – þeir félagar voru eins og graðfolar í girðingu.

Hold er mold, hverju sem það klæðist, sagði sálmaskáldið sem var líka mjög upptekið af upprisu holdsins, kannski ekki þó þeirri upprisu sem heiti hljómsveitarinnar Holdris vísar í. Þungarokk er líka rokk, sama hverju það klæðist og Holdris er með riffin og stundum líka lögin. Þriðja lagið, nýtt lag, var til að mynda frábær flétta sem fór rólega af stað en sótti svo í sig veðrið.

Dauðans umþeinking

„Líferni hins vísa ætti ekkert annað að vera en dauðans umþeinking,“ reit Gregóríanus frá Nazianzus fyrir sextán hundruð árum eða svo. Þeirri umþeinkingu bregður iðulega fyrir í þungarokkinu, til að mynda hjá hljómsveitinni Múr sem er næst á svið: nábleikir vangar og kolamolar í augntóftum. Slíkar bassaskruggur og býsn voru í fyrsta laginu að lá við heimsslitum; Húrra lék á reiðiskjálfi, hurðir hrukku af hjörum, glös brotnuðu og áheyrendur iðuðu eins og Hákon Hlaðajarl forðum.

Devine Defilement var eins og vel smurð maskína, byrjað með bensínið í botni. Gríðarlega þéttir og öruggir í sinni spilamennsku og framkomu allri, knúnir áfram af heift og brennandi reiði.

Síðasta sveit á svið var svartmálmssveitin Forsmán en liðsmenn hennar voru skreyttir eftir kúnstarinnar reglum. Þá það sást framan í sveitarmenn (ljósameistara voru heldur mislagðar hendur allt kvöldið) birtust ókræsilegar ófreskjur sem rímaði vel við músíkina. Stórefnilegt band.

Múr sigraði, dómnefnd var nánast einróma um það, Devine Defilement varð í öðru sæti og Merkúr því þriðja.