[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Tuttugu ár eru nú liðin frá því að Andri Þór Guðmundsson réðst til Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Að öllu óbreyttu mun hann í næsta mánuði sjá gamlan draum rætast.

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Tuttugu ár eru nú liðin frá því að Andri Þór Guðmundsson réðst til Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Að öllu óbreyttu mun hann í næsta mánuði sjá gamlan draum rætast. Þá er stefnt á skráningu fyrirtækisins í Kauphöll Íslands. Hann segir við þau tímamót að sér hafi lengi fundist Íslendingar eiga það mikið í fyrirtækinu og vörum þess, að rétt væri að gefa almenningi kost á að eiga með beinum hætti hlut í fyrirtækinu. Andri Þór er gestur Dagmála í dag, þar sem hann ræðir skráningu fyrirtækisins á markað, tækifærin í framtíðinni og einnig vegferðina til dagsins í dag.

Á föstudag kemur í ljós hversu margar áskriftir hafa borist í tæplega 30% hlut í fyrirtækinu en fagfjárfestum og almenningi býðst út þessa viku að skrá sig fyrir hlutum sem núverandi eigendur hyggjast láta af hendi í jöfnum hlutföllum.

Andri Þór segist hafa mikla trú á framtíð fyrirtækisins og vill stýra því áfram eftir skráningu á markað. Athygli vekur að frá árinu 2002 hefur vörusala vaxið að jafnaði um 12% á ári og EBITDA hefur sömuleiðis vaxið um svipað hlutfall eða 13%. Bendir Andri Þór á að þetta hafi bæði gerst með innri vexti og kaupum á fyrirtækjum og umboðum.

Eigin vörur vaxið

Á síðustu árum hefur hlutdeild þeirra vara sem fyrirtækið framleiðir sjálft vaxið til muna og segir Andri Þór að það vitni um möguleika fyrirtækisins. Enn telur hann færi á markaði til sameininga eða uppkaupa en vöruþróunin muni sömuleiðis skipta sköpum.

Nýverið tók Ölgerðin í notkun nýja verksmiðju sem eykur framleiðslumöguleika fyrirtækisins til muna, ekki síst þegar kemur að 33 cl áldósum sem eru mjórri og hærri en hinar klassísku sem geymt hafa Appelsínið og Pepsi um langan aldur. Segir Andri Þór að markaðurinn kalli eftir þessum umbúðum og því kalli sé einfaldlega svarað. Upplýsir hann í viðtalinu í fyrsta sinn að hinn vinsæli koffein- og heilsudrykkur Collab verði boðinn í þessum umbúðum innan skamms og hætti þá að birtast neytendum í hinum klassíska búningi sem áður var minnst á.

Ekki óheppilegur tímapunktur

Miklar sviptingar hafa verið á eignamörkuðum að undanförnu. Ekki aðeins vegna stríðsátaka í Úkraínu, eftirleiks heimsfaraldurs og síhækkandi verðbólgu í flestum þróuðum ríkjum heims. Andri Þór segir að þessar aðstæður valdi sér ekki ugg, nú þegar til stendur að selja um 7,5 milljarða hlut í fyrirtækinu sem hann hefur verið við stjórnvölinn hjá í tvo áratugi, fyrst sem fjármálastjóri og svo forstjóri.

Hann bendir á að fyrirtækið sé reist á mörgum grunnstoðum sem tryggi stöðugleika þótt gefi á bátinn á ákveðnum sviðum. Einnig megi segja að velta fyrirtækisins sé svo að segja verðtryggð í sögulegu samhengi.