Gleðisveitin Ljótu hálfvitarnir heldur tvenna tónleika í Bæjarbíói, í kvöld og annað kvöld, og er uppselt á seinni tónleikana. Bera þeir yfirskriftina Betra líf fyrir Beggu.

Gleðisveitin Ljótu hálfvitarnir heldur tvenna tónleika í Bæjarbíói, í kvöld og annað kvöld, og er uppselt á seinni tónleikana. Bera þeir yfirskriftina Betra líf fyrir Beggu. Auk þess að flytja tónlist mun hljómsveitin safna fé fyrir Bergþóru Birnudóttur, stórvinkonu sína og eiginkonu eins meðlimanna sem glímir við alvarleg eftirköst fæðingar; örorku og stöðugar kvalir en eygir nú von um að fá einhverja bót meina sinna. Saga Bergþóru var rakin í fréttaskýringaþættinum Kveik en hún stefnir nú á að gangast undir aðgerð hjá svissneskum sérfræðingi sem vonandi mun bæta líðan hennar að einhverju leyti og færa henni aukin lífsgæði. Söfnun til að standa straum af kostnaðinum við aðgerðina er í fullum gangi og munu Hálfvitarnir leggja sitt af mörkum. Allur ágóði af miðasölu rennur í söfnunina.

Tónleikarnir hefjast kl. 20 en húsið verður opið frá kl. 19. Miðasala er á tix.is.