Helgi Andri Jónsson, stofnandi Sales Cloud, sér mikil tækifæri á erlendum mörkuðum.
Helgi Andri Jónsson, stofnandi Sales Cloud, sér mikil tækifæri á erlendum mörkuðum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Íslenska fjártæknifyrirtækið Sales Cloud hyggur á markaðssókn í Evrópu á næstu misserum. Helgi Andri Jónsson, stofnandi Sales Cloud, áætlar að veltan muni tvöfaldast árlega næstu ár.

Baldur Arnarson baldura@mbl.is Íslenska fjártæknifyrirtækið Sales Cloud hyggur á markaðssókn í Evrópu á næstu misserum. Helgi Andri Jónsson, stofnandi Sales Cloud, áætlar að veltan muni tvöfaldast árlega næstu ár. Fyrirtækið var nýlega metið á 1,6 milljarða þegar hlutafé var aukið um 500 milljónir með nýjum fjárfestum. Helgi Andri sagði ViðskiptaMogganum frá hugljómun í London, leiðum til að einfalda viðskipti og þjónustu og hvernig hann byggði fyrirtækið upp úr engu og forritaði jafnvel í tvo sólarhringa samfleytt þegar mikið lá við.

Við öryggisleit á Keflavíkurflugvelli heilsar mér ungur maður og það tekur mig stundarkorn að rifja upp að fyrir fimm árum var ég kynntur fyrir frumkvöðli í Borgartúni. Þar færi maður sem hugsaði eftir öðrum brautum en flestir.

Hann heitir Helgi Andri Jónsson og deildi þá lítilli skrifstofu með öðrum hjá Iceland Review . Helgi Andri lagði allt í reksturinn og kom fyrir að hann varð bensínlaus í umferðinni.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og reynist frumkvöðullinn vera á leið á viðskiptafund í Stokkhólmi. Hann fer nú fyrir nýju fyrirtæki, Sales Cloud, og horfir út fyrir landsteinana í leit að nýjum mörkuðum.

Heillaðist af forritun

Helgi Andri afsakar töfina þegar hann tekur á móti blaðamanni á skrifstofu Sales Cloud á 6. hæð í Borgartúni 25 en fundur hafði dregist á langinn. Samtalið hefst á að ræða lífshlaup Helga Andra og hvernig leiðin lá í forstjórastólinn. Reynist sú leið óvenjuleg og þyrnum stráð.

„Amma og afi ráku flugskóla [Kristmundar] Helga Jónssonar sem var fjölskyldufyrirtæki en ég heiti eftir afa. Það var farið að halla undan rekstrinum og í lokin var faðir minn [Jón Kristmundsson] að fljúga launalaust fyrir fyrirtækið. Þetta voru erfiðir tímar og bjó móðir mín [Hulda G. Valsdóttir] í félagslegri íbúð sem einstæð móðir, jafnvel þótt faðir minn byggi þar líka. Við fluttum svo til Lúxemborgar þegar ég var að verða 5 ára en faðir minn fékk vinnu hjá Cargolux og hætti að vinna hjá ömmu og afa. Ég kunni varla íslensku en var settur strax í fyrsta bekk. Ég man eftir fyrsta skóladeginum eins og það hafi gerst í gær. Ég skildi ekki neitt. Námið fór fram á lúxemborgísku en allir töluðu saman á þýsku.

Fyrstu tvö árin í skólanum horfði ég út um gluggann. Hugur minn var annars staðar. Ég notaði ímyndunaraflið, pældi í hlutum. Vegna tungumálaörðugleika gat ég ekki talað við neinn. Ég skildi ekkert, átti enga vini og gekk hræðilega á prófunum. Það varð mér eðlilegt að fá lága einkunn. Einu sinni fékk ég 10 af 10 og það var í stærðfræði, af því að ég þurfti ekki að skilja tungumálið.

Var lagður í einelti í skóla

Ég lenti í miklu einelti. Lenti í slagsmálum í frímínútum og lærði að verja mig og svara fyrir mig en ég átti enga vini. Þegar ég kom heim úr grunnskólanum í 1. og 2. bekk varð au pair að kenna mér allt efnið upp á nýtt á íslensku. Ég komst að því síðar að grunnskólakennarinn var að skrifa meistararitgerð um innflytjendur og ég var einn af þeim í ritgerðinni. Hún hafði því hagsmuni af því að ég myndi ekki taka eitt ár í leikskóla heldur fara beint í fyrsta bekk. Þegar ég var í þriðja bekk beitti einn kennarinn mig ofbeldi. Það var út af því að það var óregla á mér og ég vann ekki heimaverkefni mín. Mamma réð ekki við mig og hún hafði nóg að gera með systkini mín. Ég faldi líka heimaverkefnin.

Ég fékk að dúsa í tvær til þrjár vikur fyrir utan kennslustofuna í þriðja bekk. Stjúpdóttir mín er níu ára og um daginn gekk ég með henni í skólann og hugsaði með mér hvað ég myndi gera ef ég myndi frétta af því að hún þyrfti að bíða í þrjár vikur fyrir utan kennslustofuna. Þetta var hræðilegt og það versta var að mæta á morgnana og standa fyrir framan hurðina á kennslustofunni. Ég þurfti að taka þennan bekk aftur en eftir þetta leit ég aldrei á menntun eða skóla sem fyrirbæri sem byggir mann upp,“ segir Helgi Andri sem verður faðir í sumar.

Tók tölvuna í sundur og setti saman

Þegar Helgi Andri var tólf ára sá hann auglýst námskeið í forritun í skólanum.

„Þar var meðal annars verið að kenna á Microsoft FrontPage en ég var búinn að taka tölvuna heima í sundur og setja hana saman. Mamma skammaði mig fyrir að verja of miklum tíma í tölvunni en ég fékk að fara á þetta námskeið og það sat í mér. Þegar ég var 17 ára flutti ég til Íslands til að hefja IB-nám við MH en allt námsefnið var kennt á ensku. Ég lauk ekki námi, þótt ég gjarnan vildi. Eftir lokaprófin sótti ég um nám í háskólanum en svo kom í ljós að ég hafði ekki náð prófunum. Það var virkilega erfitt því allir félagar mínir fóru í háskóla. Ég fór því að vinna sem öryggisvörður hjá Securitas. Vann á nóttinni í 10-11 búðunum og entist hálft ár í því, enda erfitt að vinna viku og viku til skiptis. Ég var týndur og vissi ekki hvað ég ætti að gera við líf mitt. Ég varð að finna húsnæði fyrir okkur móður mína og finna leiðir til að borga leiguna. Þá datt verkefni í hendurnar við að forrita vefsíðu fyrir fyrirtæki. Ég spurði leigusalann hvort ég mætti borga mánuði eftir að við fluttum inn. Ég hélt honum vel upplýstum og hann treysti mér og þegar ég borgaði voru þrjár vikur í mánaðamót. Þannig að ábyrgðarkenndin skall á. Og ég fór að fá fleiri verkefni og leigusalinn hjálpaði mér meira að segja að fá verkefni – ég á honum mikið að þakka – en við bjuggum í húsi með myglu í Hafnarfirði.“

Notuðu séreignarsparnað í skrifstofuna

– Hvernig nýttirðu þessa kunnáttu þína?

„Ég fékk að forrita fleiri vefi og þá var maður að búa til vörur fyrir aðra en það er slítandi að vera í verkefnavinnu; senda reikning daginn fyrir mánaðamót og krossa fingur um að fá greitt sem fyrst. Þannig að ég fékk smá hjálp frá föður mínum sem átti séreignarsparnað sem hann hafði lagt til hliðar og átti að fara í fyrstu íbúðakaup. Ég fékk að innleysa hann en þetta var um milljón eða nóg til að leigja skrifstofu í staðinn fyrir að vera í húsinu í Hafnarfirði. Þá byrjaði ég að mæta eitthvað til að vinna og fór að vinna verkefni fyrir aðra. Þannig kynntist ég Iceland Review en fólk var tilbúið að gefa mér tækifæri og það treysti mér og það var lykilatriði,“ segir Helgi Andri sem stofnaði félagið Proton árið 2012 til að halda utan um verktöku og vefsíðugerð. „Nafnið var komið frá áhuga mínum á vísindum en róteindin er ögnin í öllu. Ég endurskírði svo félagið sem heitir nú Sales Cloud og er með sömu kennitölu.“

Sá tækifæri í tækninni

– Hvað kom til að þú fórst að forrita hugbúnað sem síðar varð grunnur Sales Cloud?

„Ég var að skoða önnur kerfi og hvað þau áttu sameiginlegt. Kerfi sem selja miða, bókanir og ferðir eru öll að meðhöndla greiðslur. Það er sami gagnastrúktúrinn. Hér kom ímyndunaraflið til sögunnar. Mér fannst ég geta búið til heildstæðari vöru til að gera alla þessa hluti og var sannfærður um að það yrðu næg verkefni til framtíðar,“ segir Helgi Andri.

Tímamót urðu hjá honum árið 2015 þegar Proton seldi fyrsta áskriftarkerfið til Iceland Review . Sama ár kynnti fyrirtækið sölukerfi fyrir skólaböll og viðburði. Boltinn var farinn að rúlla og árið 2017 hóf Proton samstarf við Hlemm mathöll um leigu á afgreiðslukerfi fyrir veitingastaði í mathöllinni. Hafði hann séð tækifæri í því að slíkur búnaður var jafnan dýr.

„Almennt greiða verslanir of mikið fyrir sölutækni. Það er algengt að verslanir séu með einn aðila sem sér um kassakerfi og annan sem sér um netverslunina og notar erlent kerfi. Ég sé mikil tækifæri í að hjálpa þessum verslunum.“

Tók tímann við hverja pöntun

– Þegar Mathöllin á Hlemmi var opnuð voru snertilaus viðskipti að ryðja sér til rúms. Snerist þetta um að eyða milliskrefum?

„Málið er ekki alveg svona einfalt. Árin 2016 og 2017 voru allir með hugann við sjálfsafgreiðslu. Ég var að skoða kaup á skjá eins og McDonald's-hamborgarakeðjan var með og var búinn að finna framleiðanda í Kína. Ég þurfti aðeins að ýta á einn takka en fannst þetta svo dýrt. Domino's Pizza á Íslandi innleiddi sjálfsafgreiðsluskjái í þessu æði en þeir voru úti í horni og fáir notuðu þá. Það fékk mig til að hugsa. Þetta var ekki skalanlegt og fjárfestingin var of dýr og fyrirhöfnin of mikil við að setja upp svona þjónustu og gæta þess að hún myndi virka. Ég bauð kærustunni minni til London og hún sagði já og spurði hvað við værum að fara að gera. Ég sagði að við værum að fara að skoða alla McDonald's, Burger King og KFC-staði sem yrðu á vegi okkar og hvað þeir væru að gera í sjálfsafgreiðslu. Henni fannst það ekkert spennandi en kom með mér og fór að versla og sagðist myndu segja mér frá ef hún rækist á efitthvað sniðugt.

Ég man augnablikið þegar ég sat á McDonald's með glósubók og penna og símann minn. Ég var með skeiðklukku og kaffi og fylgdist með því hvað tvítugur maður var lengi að afgreiða sig. Svo hvað fertug kona væri lengi og svo næstu þrjátíu manns. Þá kom ég auga á að McDonald's var með tvískipta sjálfsafgreiðsluskjái en það myndi ekki ganga upp að vera með einfaldan skjá, ef hver afgreiðsla tæki að meðaltali tvær mínútur. Ef skjárinn er tvöfaldur er að jafnaði einn á undan þér í röðinni og það gengur upp. Staðirnir heima voru ekki þannig. Þeir voru ekki að setja upp 5-8 tæki heldur voru allir að biðja um eitt tæki upp á vegg, einfaldan skjá. Þannig að ég hugsaði með mér að það þyrftu að vera eins margir afgreiðslufletir og kostur er þannig að allir gætu afgreitt sig samtímis án þess að standa í röð. Það má heldur ekki kosta krónu,“ segir Helgi Andri.

Starfsfólkið nýtist betur

Úr varð að fyrirtæki hans þróaði lausn sem fól í sér að viðskiptavinir gátu sest við borð á veitingastað, skannað merki, fengið matseðilinn og pantað og greitt fyrir veitingarnar. Tíma tók að þróa lausnina sem Helgi Andri leggur áherslu á að eigi ekki að leysa þjóna af hólmi. Þvert á móti spari tæknin þjónum mikla vinnu og fyrirhöfn við að skrifa niður pantanir og koma þeim í eldhúsið.

„Það sem veitingahúsið þarf að gera betur er að koma fyrir fleiri bókunum og stytta tímann sem viðskiptavinurinn situr við borðið. Til dæmis með því að leyfa honum að bóka borð á netinu og velja fordrykkinn. Segjum að þú eigir bókað borð klukkan sex og mætir sex og tíminn sem líður frá því þjónninn tekur pöntun fyrir fordrykkinn er kannski 20 mínútur. Spurningin er hvort hægt sé að forvinna þessar 20 mínútur en það myndi hjálpa verulega.“

Hélt að kerfið væri bilað

Helgi Andri segir það hafa tekið sinn tíma að innleiða þessa tækni. Hún hafi í fyrstu verið fólki framandi en eftir eins og hálfs árs þróunarvinnu hafi þetta farið að ganga betur.

„Við settum þetta upp á Bryggjunni hjá Barion. Ég fylgdist með tölunum fyrsta kvöldið þegar þeir voru að opna Minigarðinn og ætluðu að veðja á þetta, Simmi Vill og félagar, en vildu prófa þetta fyrst á Bryggjunni. Þegar ég skoðaði söluna fyrsta kvöldið hélt ég að kerfið væri bilað. Ég hélt að skýrslurnar væru bilaðar og að það væri galli í kerfinu. Það fór hálf milljón króna í gegnum þetta en það var óþægilegt að sjá hvað fólk var lengi að setja inn kortaupplýsingar. Þannig að ég vissi, jafnvel þótt þetta gengi vel fyrsta kvöldið, að ef ég bætti ekki við Apple Pay myndi þetta deyja. Fólk yrði spennt fyrst um sinn en myndi missa áhugann. Við vörðum þremur vikum í að finna hvernig við ættum að tengjast Apple Pay og okkur tókst það með Valitor. Og þá byrjaði þetta að smella saman. Viðskiptavinurinn gat skannað bjór og greitt með Apple Pay. Þetta er svo hraðvirkt.“

Forritaði í 48 klukkustundir samfleytt

Sumarið 2019 kynnti fyrirtækið vefsíður fyrir netsölu. Fólu þær í sér staðlaða lausn í stað þess að fyrirtækin þyrftu að láta vinna vefsíður frá grunni, hvert í sínu lagi. Sumarið 2020 setti Proton á markað alhliða bókunarkerfi og var Minigarðurinn fyrsti viðskiptavinurinn.

„Við erum með alhliða bókunarkerfi – ég forritaði það þannig – og það skiptir ekki máli hvort verið er að bóka minigolf í Minigarðinum, borð á veitingstað eða miða á skólaball. Fyrir mér er spennandi að knýjar allar þarfir. Það má til dæmis nefna Perluna. Við erum að knýja alla Perluna. Draumurinn er að einn daginn getum við knúið Disney í París en það væri toppurinn.

Ég vann óheyrilega mikið. Mér er minnisstætt að sumarið 2020 fór ég með unnustu minni og stjúpdóttur til Færeyja. Ég byrjaði þá að forrita í bílnum þegar við lögðum af stað frá Mývatni til Seyðisfjarðar, í biðröðinni eftir því að komast um borð í Norrænu og svo sat ég við gluggann í ferjunni og forritaði alla leiðina þar til við komum til Þórshafnar klukkan sex um morguninn og til tíu um kvöldið, alls í 48 klukkustundir samfleytt,“ segir Helgi Andri sem vill taka fram að hann eigi unnustu sinni, Kolbrúnu Ýr Oddgeirsdóttur, mikið að þakka. Hún hafi veitt honum mikinn stuðning og fært fórnir til að gera þetta kleift. Sömuleiðis standi hann í mikilli þakkarskuld við starfsfólk Sales Cloud.

„Kórónuveirufaraldurinn var mjög erfiður tími. Við unnum rosalega mikið, það var allt að loka og ég var stressaður. Tekjur okkar hrundu. Við fórum að hjálpa fyrirtækjum að selja á netinu. Þetta gekk svo langt að við leigðum þrjá bíla og fórum að sendast með mat fyrir veitingastaði,“ segir Helgi og hlær við. „Ég var að keyra út matarpantanir og það var mjög fyndið þegar einhver félaga manns pantaði mat og ég var allt í einu kominn að dyrum,“ segir Helgi.

Lagði grunninn að vextinum

„Ég tapaði miklum peningum á þessum heimsendingum en við náðum að halda fyrirtækjunum gangandi. Og ég held við höfum ekki áttað okkur á því hvað þetta skipti miklu máli því þetta lagði grunninn að vextinum og velvildinni og við fengum meiri viðskipti. Ég reyndi mikið að viðhalda þessu hugarfari. Við vorum nýbúin að setja allar þessar síður í loftið fyrir veitingastaði en það vantaði lista yfir þær síður. Þegar nýr veitingastaður var opnaður með nýrri netsölu var lögð mikil ábyrgð á staðinn sjálfan við markaðssetningu. Það er að mínu áliti eitthvað rangt við að veitingastaður eyði fleiri hundruð þúsund krónum í að auglýsa sig á Facebook þannig að allir viti að hann sé til. Hugmyndin hjá mér með Yess er að viðskiptavinir okkar gætu farið inn á eina síðu, séð alla staðina þar og pantað,“ segir Helgi Andri og vísar til netmarkaðstorgsins Yess sem fyrirtækið opnaði í mars í fyrra en þar er hægt að panta mat, bóka borð, panta afþreyingu, kaupa vörur fyrir veislur, kaupa miða á viðburði og gjafabréf.

„Það er meira að segja hægt að panta frá mörgum veitingastöðum í einu. Þannig að í mathöll geturðu lagt eitthvað í körfuna frá mörgum stöðum og sótt allt klukkan sex, þannig að allir séu sáttir heima. Það var erfitt að útfæra það. Hvað ef kortið er straujað einu sinni á hverjum stað og viðskiptavinurinn á heimild fyrir fyrstu tveimur pöntunum en ekki þeirri þriðju? Getur kerfið þá ógilt hinar tvær? Þetta var flókið en okkur tókst að leysa þetta.“

Vantar miðlægan stað fyrir bókanir

– H vaða tækifæri sérðu þá í Yess? Hvernig mun það líta út eftir nokkur ár?

„Segjum að þig langi að gera eitthvað skemmtilegt næstu helgi. Það vantar miðlægan stað til að bóka viðburði. Margar bókanir fara í gegnum síður á borð við Booking og Guide to Iceland og þau fyrirtæki taka háar þóknanir.“

– Nafni fyrirtækisins var breytt í janúar sl. og Proton verður Sales Cloud. Hvað gerir fyrirtækið? Geturðu dregið það saman í stuttu máli?

„Fyrir mér er fyrirtækið vettvangur þar sem ég get komið á hverjum degi og unnið að hugmyndum. Ég get ímyndað mér eitthvað kvöldið áður, komið hingað og reynt að búa það til. Og raunverulega sett það í umferð. Þess vegna mæti ég hérna á hverjum degi og mér finnst gaman að hitta viðskiptavini og sýna þeim hugmyndirnar en ég myndi segja að við værum samstarfsaðili þeirra í sölutækni. Við erum ekki að selja tímavinnuna hér. Ólíkt ýmsum öðrum fyrirtækjum skráum við ekki niður símtalið og sendum viðskiptavinum reikning. Það eru tvenns konar tæknifyrirtæki á Íslandi. Þau sem nota erlendan hugbúnað og selja sérþekkingu sína á hann í tímavinnu. Tímagjöldin eru há og tæknin er í eigu erlendra fyrirtækja. Svo eru til tæknifyrirtæki eins og okkar sem selja aðgang að eigin kerfum sem viðskiptavinir eru í áskrift að og svo gefum við tímann okkar frían. Ég segi alltaf að við séum ekki að selja neitt heldur erum við að útskýra fyrir fólki hvað við getum gert fyrir það og hjálpað því að leysa betur. Allir eru að glíma við einhvers konar vandamál og það er hægt að betrumbæta hlutina. Við erum sem sagt að selja það. Við erum að selja samstarfið.“

Í sumum tilfellum veltutengd

– Og tekjugrunnurinn, hvernig er hann?

„Hann er í formi áskriftar að þjónustu okkar og í sumum tilvikum er netsalan veltutengd.“

– Hvað með fjölda starfsmanna? Mér skilst að þið hafið verið sex árið 2020. Fimmtán í fyrra og að markmiðið hafi verið að verða 50 innan tveggja ára, þ.e.a.s. fyrir lok næsta árs?

„Við höfum valið markaðssvæði þar sem launakostnaðurinn er lægri en það kostar álíka mikið að bæta við 30 starfsmönnum þar og að ráða 8 til 10 manns á Íslandi. Við erum að reyna að láta okkur duga að hafa 18 til 20 starfsmenn á Íslandi. Vöxturinn hefur verið gífurlegur og það er mikilvægt að hér sé gott skipulag og að verkefnin séu í góðum skorðum. Við höfum náð að halda tímaáætlunum en það er auðvitað eilífðardans. Hér er gott teymi sem nær að yfirstíga þessa erfiðleika og við erum að reyna að deila út verkefnum, ekki aðeins ég sem stofnandi, heldur líka þeir sem eru mér næstir, og komu á eftir mér. Þeir eru að læra að útdeila verkefnum.“

– En hvers vegna að gera þetta á Íslandi?

„Ég held ég hefði aldrei fengið að gera þetta í Lúxemborg. Hvar annars staðar í heiminum mætti einhver ólærður búa til kassakerfi? Hvar annars staðar gæti ég stofnað fyrirtæki og selt tímavinnu í forritun án þess að vera menntaður tölvunarfræðingur?“ spyr Helgi Andri Jónsson frumkvöðull.

Ætla að sækja fram í átta borgum

Hlutafé í Sales Cloud var aukið um hálfan milljarð króna í byrjun ársins. Fram hefur komið að Salt Pay var meðal þátttakenda í útboðinu. Helgi Andri upplýsir að Lýsi, Bygg, Ísfélagið og bandaríska félagið Sales Cloud partners LLC hafi einnig tekið þátt. Síðastnefndi fjárfestirinn hafi meðal annars stofnað færsluhirði í Pittsburg, Pineapple Payments, og selt til Pfizer.

Helgi Andri segir að fylgt sé tveggja ára áætlun um frekari vöxt fyrirtækisins. Hún sé auðvitað trúnaðarmál en almennt ætli fyrirtæki að hefja sókn í átta borgum í Evrópu og ráða fólk.

Spurður hvort fyrirtækið áformi skráningu á hlutabréfamarkað segir Helgi Andri að það sé „auðvitað draumurinn“. „Ég held að fyrirtæki eins og okkar geti átti sér mismunandi framtíð. Ein er að einhver stærri gleypi mann en sú mögulega framtíð myndi raungerast ef okkur tekst ekki að byggja upp öflugan vinnukúltúr og okkar eigin einkenni,“ segir Helgi Andri.

Fram hefur komið að Sales Cloud þjónustar nú fjölmörg lítil og meðalstór fyrirtæki og að með kerfum þess hafi verið afgreiddar fjórar milljónir færslna í fyrra og er þá um að ræða samanlagðar færslur í öllum kerfum. Þ.m.t. kassakerfi, áskriftarkerfi og bókanir. Þá var tekið við 160 þúsund bókunum á viðburði. Meðal viðskiptavina eru fréttamiðlar, veitingastaðir, lyfjafyrirtæki, jógastúdíó, viðburðafyrirtæki og afþreyingarfyrirtæki. Helgi Andri segir ekki vitað hversu margir einstaklingar eru að baki færslunum en um það ríki trúnaður.

Sales Cloud var metið á 1,6 milljarða þegar hlutafé var aukið um 500 milljónir í vor.

„Verðmatið er byggt á tólf- til þrettánfaldri veltu. Það var margfaldarinn. Við erum að loka síðasta bókhaldsári og veltan var eitthvað í kringum 120 milljónir. Það yrði um tvöföldun milli ára. Ég held að það verði erfitt að tvöfalda veltuna í ár en ég held að það muni hjálpa okkur að tvöfalda veltuna í þrjú ár í viðbót að opna á þremur nýjum markaðssvæðum; í Skandinavíu, á Spáni og í Portúgal,“ segir Helgi Andri. En verður þá veltan komin yfir milljarð eftir þrjú ár? „Vonandi,“ segir Helgi Andri. „Við erum með rekstraráætlanir sem ég er bundinn trúnaði um. Ég get þó upplýst að við erum að skoða aðrar lausnir, til dæmis til að fjármagna reikningsviðskipti,“ segir Helgi Andri. Ætlunin er að hugbúnaðarþróunin fari fram á skrifstofu Sales Cloud í Borgartúni en að starfsfólkið ytra muni sinna þjónustu og sölu. „Ég fór til Lissabon í september, tók með mér spjaldtölvu og labbaði inn á veitingastaði í miðbænum og spjallaði við eigendur. Þau sögðu: „Mér líkar við þig, varan lítur vel út og við erum til í að prófa hana.“ En sögðu að ef það kæmi upp vandamál vildu þau geta hringt í einhvern í Lissabon.