Halldóra Aðalsteinsdóttir fæddist á Lindargötu 23 í Reykjavík 16. júní 1927. Hún lést á Vífilsstöðum 11. maí 2022.

Foreldrar hennar voru Vilborg Jónsdóttir, f. 24. febrúar 1908, d. 27. nóvember 1997, og Aðalsteinn Guðmundsson, f. 8. ágúst 1903, d. 13. júní 1994.

Systkini Halldóru voru Pálína, f. 29. ágúst 1925, d. 4. febrúar 2013, Agnes, f. 16. mars 1935, d. 25. september 2016, og Guðmundur, f. 30. mars 1942, d. 31. júlí 2021.

Árið 1949 giftist Halldóra Magnúsi Þorbjörnssyni prentara, f. 17. febrúar 1924, d. 12. ágúst 1996. Foreldrar hans voru Bjarnþrúður Magnúsdóttir, f. 12. október 1902, d. 2. október 1983 og Þorbjörn Sigurðsson, f. 20. maí 1900, d. 20. ágúst 1978.

Börn Halldóru og Magnúsar eru: 1) Magnús, f. 29. júlí 1954, maki: Kristín H. Valdimarsdóttir. Börn: Halldóra Margrét, Valdimar Þorbjörn og Magnús Finnur. Barnabörn: Davíð Máni og Tinna Katrín. 2) Vilborg, f. 13. júní 1956, maki (fráskilin): Árni Jón Hannesson. Börn: Árni Gísli, Dóra Guðlaug og Bjarni Þór. Barnabörn: Benedikt Bóas, Árdís Eva, Fanney Mjöll, Snædís Katla, Baldur Ari og Róbert Kári.

Halldóra bjó á Lindargötu til 10 ára aldurs og flutti þá á Hofsvallagötu þar til hún giftist Magnúsi og bjuggu þau á Fálkagötu til ársins 1995 er þau fluttu á Kleppsveg.

Halldóra gekk í Austurbæjarskóla og Miðbæjarskóla. Einnig fór hún í Húsmæðraskólann á Ísafirði veturinn 1946-1947. Halldóra var heimavinnandi á meðan börnin voru lítil en fór svo að vinna í bókbandi hjá prentsmiðjunni Hólum og síðar hjá Guðjóni Ó.

Útför Halldóru fer fram frá Áskirkju í dag, 25. maí 2022, klukkan 13.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Héðan skal halda

heimili sitt kveður

heimilisprýðin í hinsta sinn.

Síðasta sinni

sárt er að skilja,

en heimvon góð í himininn.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Elsku mamma, minning þín lifir í hjörtum okkar.

Magnús og Vilborg.

Minning um ömmu.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir. Tilveran hefur þotið áfram í eins konar þoku. Núna stendur maður frammi fyrir því að þurfa að segja bless við ömmu sem hefur fylgt manni í gegnum lífið frá því maður man eftir sér.

Þrátt fyrir háan aldur eru þessi skil alltaf erfið og þungbær, enn erfiðara ef maður er náinn þeim sem kveður. En það er einmitt það sem á við hjá mér.

Við amma vorum afar nánar. Við vorum svo miklu meira en bara amma og barnabarn.

Amma mín var mín besta vinkona, stærsti stuðningsmaður og frábærasta kona í heimi.

Það á eftir að vera erfitt að geta ekki hringt eða stoppað við hjá þér þegar ég þarf á þér að halda. Eða segja þér frá einhverju frábæru eða skemmtilegu.

Sumir hefðu sagt að amma og afi Magnús hafi dekrað við okkur barnabörnin sín. En er það ekki hlutverk þeirra að dekra við okkur og skila þegar dekrið er búið?

Við barnabörnin hennar vorum nefnilega afar heppin að eiga þau sem afa og ömmu. Þau lögðu sig fram við að skapa skemmtilegar minningar, sem er gott veganesti til framtíðar. Amma vildi vera stór partur af lífi okkar. Hún sýndi ávallt áhuga á hvað væri að gerast í okkar lífi og var stolt af sínu liði.

Jákvæð orka var það sem hún gaf frá sér og hlýja.

Ég gæti skrifað milljón samtöl og minningar um hana ömmu. En það myndi þýða heila bók og framhaldssögu.

Hér kemur lítil saga sem lýsir henni ömmu vel. Ég er tíu ára. Ég hringi í hana og spyr: Heyrðu amma, mig langar að gista og koma með þrjár vinkonur með mér, þær vilja líka gista. Svarið var já allt í lagi. Þó svo hún hafi kannski ekki verið ánægð með þetta þá var afi fljótur að segja já við alls konar vitleysu sem mér datt í hug og fannst sniðugt. Og já var það.

Þessi saga er bara ein af mörgum sem ég og bræður mínir getum sagt af ömmu og afa og verður hún að duga.

Við bræður mínir viljum þakka ömmu fyrir allar samverustundirnar sem verða ekki fleiri í bili. Við kveðjum þig og geymum í huga okkar.

Viljum við votta börnunum hennar, Magnúsi og Vilborgu, okkar dýpstu samúð.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afar góð

ég alltaf mun þín sakna

(Guðrún V. Gísladóttir)

Halldóra Margrét

Magnúsdóttir,

Valdimar Þ. Magnússon,

Magnús F. Magnússon.

Elsku Dóra amma. Það er erfitt að lýsa því með nokkrum orðum hversu góð og hlý þú varst. Þú gafst þér alltaf tíma fyrir okkur og sýndir hugðarefnum okkar einlægan áhuga. Þá hafðir þú einstakt lag á því að ná til barna okkar, gefa þig að leik þeirra og læra af þeim ef svo bar undir. Við erum þakklát fyrir tímann sem við áttum með þér og höldum minningu þinni á lofti um ókomin ár.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt, sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér,

því veit mér feta veginn þinn,

að verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson)

Hvíldu í friði elsku amma.

Árni Gísli, Dóra Guðlaug

og Bjarni Þór.

Komið er að kveðjustund.

Langamma okkar lést 11. maí síðastliðinn, einum mánuði áður en 95 ára aldri var náð.

Þrátt fyrir háan aldur var hún í fullu fjöri nánast fram á síðasta dag þó svo aldurinn hafi vissulega verið farinn að segja til sín og veikindi síðustu mánuði.

Hún langamma var einstök, skemmtileg, ljúf og góð.

Við systkinin erum elstu langömmubörnin hennar og eigum við fjölmargar skemmtilegar og góðar minningar um hana.

Hún passaði mig, Davíð Mána, þegar ég var nokkurra daga gamall því mamma var í skóla. Þá bauð hún öllum konunum í húsinu sem hún bjó í að koma, skoða mig og dást að mér og monta sig í leiðinni að hún væri orðin langamma.

Við fengum að gista nokkur skipti þó svo hún segði alltaf við okkur „ég er nú orðin svo gömul“ en eftir smá suð fengum við að gista á dýnu á gólfinu eins og í útilegu, sem var mikið sport.

Einnig áttum við okkar eigin dótakassa inni í skáp sem maður gat gengið í og oftar en ekki fundið eitthvað nýtt, spennandi og sniðugt að leika með.

Við áttum afar gott og skemmtilegt samband við langömmu og eigum eftir að sakna hennar mikið. Núna er ekki hægt að heimsækja hana, fá gott að borða og segja henni frá ævintýrum okkar en minning um góða langömmu lifir.

Við elskum þig.

Davíð Máni Viktorsson

og Tinna Katrín Owen.