Sigrún Smith (fædd Pálsdóttir) fæddist í Reykjavík 7. maí 1925. Hún andaðist á heimili dóttur sinnar í Longwood, Orlando í Flórída, Bandaríkjunum 25. febrúar 2022.

Foreldrar Sigrúnar voru hjónin Páll Jónsson vélstjóri, f. 1895, d. 1945, ættaður úr Reykjavík, og Gróa Ágústa Guðmundsdóttir, f. 1891, d. 1984, ættuð frá Kirkjubóli í Dýrafirði. Bróðir Sigrúnar var Björn, f. 1923, d. 2003, aðalbókari í Reykjavík.

Sigrún giftist Earle L. Smith 26. október 1945 í Reykjavík. Earle starfaði sem foringi í bandaríska hernum á Íslandi um nokkurra ára skeið. Árið 1947 fluttust Sigrún og Earle til Ohio í Bandaríkjunum og bjuggu þar í nokkur ár. Síðar fluttu þau til Connecticut í Norður-Karólínu en frá miðjum áttunda áratugnum voru þau búsett í Orlando í Flórída. Earle lést eftir stutt veikindi árið 2000. Börn þeirra hjóna eru: 1) Earle Paul, f. 1948. 2) Elizabeth Groa, lést skömmu eftir fæðingu. 3) Erik, f. 1952. 4) Betty, f. 1955. 5) John, f. 1958.

Sigrún ólst upp í Vonarstræti 12 í Reykjavík hjá fjölskyldu sinni en naut einnig umhyggju ömmu og afa sem bjuggu á Frakkastíg 4. Rúna, eins og Sigrún var oftast kölluð af fjölskyldu og vinum, gekk í Miðbæjarbarnaskólann. Síðar lærði hún hattasaum hjá Hattabúð Höddu á Hverfisgötu 35 og lauk meistaraprófi í þeirri iðngrein. Eftir að Sigrún og Earle fluttust til Flórída starfaði Sigrún um 16 ára skeið í Walt Disney World-skemmtigarðinum í Orlando.

Útför Sigrúnar fór fram 25. mars frá Ascension Lutheran Church í Orlando í Flórída.

Sigrún Smith lést 25. febrúar síðastliðinn á 97. aldursári. Í hugann kemur fyrst og fremst upp þakklæti til Rúnu frænku fyrir væntumþykju og hlýju í okkar garð. Það var ætíð mikil tilhlökkun hjá okkur sem börn í þau skipti sem Rúna frænka kom til Íslands. Ameríka var á þessum árum framandi heimur, sveipaður ævintýrablæ í huga okkar barnanna.

Rúna var glæsileg kona og alltaf vel tilhöfð. Hún hafði alla tíð mikil og náin samskipi við ættingja og vini á Íslandi og bar hag Íslands ætíð fyrir brjósti. Hugurinn leitaði oft til Dýrafjarðar en þar dvaldi Sigrún oft hjá ættingjum á sínum yngri árum. Gamli miðbærinn og Tjörnin í Reykjavík voru henni einnig afar kær. Í seinni tíð nutum við bræðrabörn Rúnu þess að heimsækja fjölskylduna til Flórída. Þar sýndi Rúna okkur einstaka velvild og ómælda gestrisni. Það var lærdómsríkt og nærandi að taka spjall við Rúnu. Hún var hreinskiptin, réttsýn og minningar frá liðnum tíma voru skýrar í huga hennar þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur. Það var Rúnu mikið áfall þegar Earl lést árið 2000. Þau voru samhent hjón og báru einstaka virðingu hvort fyrir öðru. Síðustu árin dvaldi Rúna á hjúkrunarheimili en naut jafnframt umhyggju og umsjá barna sinna og tengdabarna.

Hafðu þökk fyrir allt. Minning þín lifir.

Ágúst Kr. Björnsson,

Björn Vignir Björnsson,

Þórunn Gyða Björnsdóttir.