Þyrlan í dag Spaðalaus á Reykjavíkurflugvelli og bíður þess að verða flutt.
Þyrlan í dag Spaðalaus á Reykjavíkurflugvelli og bíður þess að verða flutt. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, stendur nú spaðalaus við flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, stendur nú spaðalaus við flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þessi farsæla þyrla til áratuga hefur lokið hlutverki sínu sem björgunartæki Íslendinga og verður brátt sett á sölu.

Leiguþyrlurnar, sem komu til landsins á árunum 2019-2021 af gerðinni Airbus Super Puma H225, tóku við af eldri gerð þyrlna Landhelgisgæslunnar, upplýsir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi.

TF-LIF hefur ekki verið í rekstri Gæslunnar frá árinu 2020.

Þyrlan var smíðuð árið 1986 og var keypt til landsins árið 1995. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að gera þyrluna tilbúna fyrir sölu. Á næstu dögum er gert ráð fyrir að TF-LIF verði flutt með flutningabíl frá Reykjavíkurflugvelli í geymslu í flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Þar verður þyrlan geymd þar til hún verður seld. Ríkiskaup koma til með að annast söluferlið, segir Ásgeir.

Að sögn Ásgeirs er engin tölfræði til um það hve mörgum mannslífum TF-LIF hefur bjargað. „Ég held að af mörgu mögnuðu sem TF-LIF kom að þá verði nokkrir dagar í mars árið 1997 aldrei toppaðir,“ segir Ásgeir. Á sex dögum var 39 mönnum í sjávarháska bjargað um borð í TF-LIF. Fyrst var 19 mönnum bjargað af flutningaskipinu Víkartindi, þegar skipið strandaði austur af Þjórsárósi. Næst bjargaði áhöfn þyrlunnar 10 skipverjum af flutningaskipinu Dísarfelli eftir að skipið fórst 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði. Þeir höfðu verið í sjónum í tvo klukkutíma þegar þeim var bjargað. Er þetta einhver frækilegasta björgun Íslandssögunnar. Loks var 10 mönnum bjargað af fiskiskipinu Þorsteini GK, sem rak vélarvana upp í Krísuvíkurberg. Að bjarga 39 sjómönnum á sex dögum var einstakt afrek.

Við björgun úr Víkartindi og Dísarfelli var Benóný Ásgrímsson flugstjóri og Auðunn Kristinsson sigmaður. Við björgun úr Þorsteini GK var Páll Halldórsson flugstjóri og Hjálmar Jónsson sigmaður.