Hildigunnur Sigrún Guðlaugsdóttir fæddist í Reykjavík 22. júlí 1972. Hún lést á heimili sínu 7. maí 2022. Foreldrar hennar voru Guðlaugur Björgvinsson fv. forstjóri, f. 16.6. 1946, d. 4.5. 2021, og Þórunn Eyjólfsdóttir Hafstein kennari, f. 13.12. 1946, d. 12.4. 2012.

Systur Hildigunnar eru Ásta Margrét, f. 8.9. 1965, Þórunn Björk, f. 3.8. 1974, og Erna, f. 19.5. 1980.

Hildigunnur var í sambúð með Hermanni Rafni Guðmundssyni en þau slitu samvistum.

Synir Hildigunnar og Hermanns eru Rafn Atli rafvirki, f. 5.8. 1998, og Ernir Atli, nemi í Menntaskólanum í Reykjavík, f. 8.2. 2005.

Maki Rafns Atla er Halldóra Dröfn Arnviðardóttir, f. 18.11. 2000.

Hildigunnur ólst upp í Breiðholti og bjó þar alla tíð.

Hún gekk í Hólabrekkuskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, þar sem hún útskrifaðist sem stúdent árið 1994. Hildigunnur útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2006.

Á árunum 2016-2018 stundaði hún nám í heilsunuddi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.

Hildigunnur starfaði lengst af sem hjúkrunarfræðingur á Borgarspítalanum í Reykjavík.

Hún var mikil íþróttakona og hafði mikinn áhuga á hreyfingu og líkamsrækt.

Einnig var hún efnileg sundkona og æfði sund með sundfélaginu Ægi til margra ára.

Hún hafði yndi af því að ferðast með strákunum sínum til sólarlanda og njóta samverustunda með þeim.

Útför Hildigunnar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 25. maí 2022, klukkan 13.

Við systur vorum óaðskiljanlegar sem börn. Þú tveimur árum eldri, framfærin, frjáls, leiðtoginn. Ég leit upp til þín. Þú varst ófeimin, frökk og uppátækjasöm. Drifkrafturinn í hverfinu. Þegar þú fórst um hverfið eins og stormsveipur vissu allir krakkarnir að enginn kæmist undan því að koma út að leika.

Mamma sagði að læsa hefði þurft herberginu þar sem ég svaf í vöggu, svo mikinn áhuga hafðirðu á mér, ungbarninu sem þar svaf, að vöggunni hefði hvolft ef þér hefði ekki verið haldið í burtu. Í einni utanlandsferðinni tókst þú upp á því að taka mig í sundtíma, syntir með mig út í djúpu laugina, en hvort sem þér var farið að leiðast eða ekki þá skildirðu mig þar eftir. Mér til happs fylgdist Ásta systir vökul með og hoppaði út í og bjargaði mér. Önnur eftirminnileg saga sem mig rámar í og hefur skemmt fjölskyldunni er þegar við vorum á Lignano, þú dróst mig að lyftunni á hótelinu, leiddir mig inn, ýttir á takkann og sagðir bæbæ!

Við æfðum báðar sund um tíma, þú varst mjög efnileg. Man hversu fallega og tignarlega þú syntir flugsund. Ég hafði ekki tærnar þar sem þú varst með hælana.

Takk fyrir öll uppátækin. Takk fyrir að vera við hliðina á mér í uppvextinum. Takk fyrir samfylgdina elsku systir. Þetta hefði ekki verið eins skemmtilegt án þín. Hvíl í friði!

Þórunn Björk.

Í dag kveð ég elsku æskuvinkonu mína Hildigunni Sigrúnu Guðlaugsdóttur. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar við fjölskyldan fluttum í Vesturberg í Breiðholti fyrir um það bil 45 árum. Við fjölskyldan bjuggum í Vesturbergi 131 og Hildigunnur og fjölskylda í Vesturbergi 121. Þær voru fjórar systurnar, auk Hildigunnar þær Ásta, Þórunn og Erna. Við Ingunn systir lékum endalaust með þeim og var ýmislegt brallað. Hildigunnur var falleg ljóshærð stelpa, orkumikil og uppátækjasöm. Hún elskaði að leika og var litla gatan okkar alltaf full af lífi með vinum okkar úr hverfinu. Við lékum okkur í öllum helstu barnaleikjum þess tíma, jörðuðum litla fugla í móanum, og skoðuðum heiminn með forvitnum augum. Hildigunnur var dugleg í skóla, mikill námsmaður og mikil keppnismanneskja og elskaði að spila hvers kyns spil. Hún var meistari í alls kyns spurningaspilum og spilaleikjum.

Hildigunnur var mikil íþróttakona og æfði m.a. sund með sundfélaginu Ægi í Breiðholti. Hreyfing var stór þáttur í lífi hennar og á seinni árum var hún fastagestur í World Class og sótti þar alls kyns tíma. Það var alltaf líf og fjör í kringum Hildigunni, svo ótrúlega gaman að eiga hana sem vinkonu, hún smitaði orkunni sinni og gleðinni til svo margra. Hún var fjörmikil og vildi alltaf hafa nóg fyrir stafni.

Árið 2006 útskrifaðist Hildigunnur sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands. Starfið átti vel við hana því hún var umhyggjusöm og nærgætin og þótti vænt um fólk. Hún var hlý og góð manneskja.

Hildigunnur og Hermann fyrrverandi sambýlismaður hennar eignuðust tvo yndislega stráka, Rafn Atla og Erni Atla.

Síðustu ár glímdi Hildigunnur við erfiðan sjúkdóm, sjúkdóm sem erfitt er að skilja. Hún gekk oft í gegnum dimman dal og fallega góða Hildigunnur kvaddi að lokum hinn 7. maí sl.

Ég mun alltaf minnast elsku vinkonu minnar með hlýju og væntumþykju. Ég þakka henni fyrir allar stundirnar sem við áttum saman þegar við vorum litlar í einni krónu, á bruni í Bláfjöllum, á rúntinum að kaupa ís, sumarbústaðaferðir í Vaðnesið, með strákana okkar á Tenerife og yfir góðu spjalli um daginn og tilveruna. Yndislegu strákunum hennar Rafni og Erni, systrunum Ástu, Þórunni og Ernu, fjölskyldu hennar og vinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi góður guð og englarnir umvefja þig.

Hvíl í friði og góða ferð inn í ljósið.

Ég elska þig.

Þín vinkona að eilífu,

Linda Ásgeirsdóttir.

Mínar fyrstu æskuminningar eru frá okkur vinkonunum saman; þið systurnar og við systurnar. Ég yngst og þú þremur árum eldri. Saman gengum við í gegnum lífið. Stelpur að leika í Vesturberginu, skólagangan í Hólabrekkuskóla, unglingsárin í Breiðholtinu og síðan menntaskólaárin í FB. Við kláruðum svo stúdentinn, eignuðumst kærasta og fæddum eldri strákana okkar á sama árinu.

Seinna lá leiðin í háskólanám. Þegar stutt var í útskrift hjá okkur fæddust yngri strákarnir okkar með einungis nokkurra mánaða millibili. Ári síðar útskrifuðumst við. Þá hófst nýtt skeið; vinna, fjölskylda og þegar tími gafst ferðir saman til útlanda. Að nokkrum árum liðnum fór að bera á því að við gengum ekki lengur sömu leið. Hljóðlega tók líf þitt aðra stefnu. Þú þráðir að komast á rétta braut og reyndir allt til að ganga með strákunum þínum gegnum lífið.

Við sem vorum í kringum þig reyndum að hjálpa þér. Við reyndum allt en gátum að lokum ekkert gert. Hildigunnur, elsku æskuvinkona mín. Ég vildi óska að við hefðum getað gengið áfram saman, það var svo margt sem við áttum eftir að upplifa í sameiningu.

Elsku Rafn Atli og Ernir Atli, ég bið algóðan Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Ég veit að mamma ykkar mun fylgja og standa næst ykkur í gegnum allt lífið. Nú hefur hún fengið frið og er komin á bjartan stað. Elsku Ásta, Þórunn og Erna, ég votta ykkur, fjölskyldu ykkar og öðrum ástvinum mína innilegustu samúð.

Ingunn Ásgeirsdóttir.

Elsku fallega yndislega Hildigunnur mín verður borin til grafar í dag.

Það sem okkar vinskapur var mér góður og dýrmætur. Við kynntumst í hjúkrun í HÍ 2001 og náðum fljótlega vel saman ásamt hinum gömlunum og var stofnaður saumaklúbbur sem við höfum haldið reglulega. Ég fór á Hjartadeildina eftir útskrift en þú á Gigtardeildina en eftir 1 ár ákvað ég að færa mig yfir til þín. Við bara urðum að vinna saman, bestu vinkonurnar. Við unnum saman, fórum saman í ræktina og alltaf einn kaffibolli og spjall eftir pallatímana sem við elskuðum.

Svo kom tíminn sem var ekki góður og mjög sorglegur. Við fjarlægðumst, þú varst í þinni baráttu og ég reyndi eins og ég gat að hjálpa þér en sjúkdómurinn stjórnaði. Þegar þér leið betur og varst í góðum málum hafðir þú samband og mættir í saumaklúbbana. Það var svo gaman að sjá þig þegar allt gekk vel, þú hafðir yndi af því að tala um elsku strákana þína sem þú elskaðir út af lífinu og þú varst svo stolt af og þú bara blómstraðir. Þá vorum við svo ánægðar og vongóðar um að þú værir búin að sigra sjúkdóminn en því miður tókst þér það ekki, elsku kerlingin mín.

Þó að okkar samband hafi verið stopult síðustu árin, sem ég skrifa eingöngu á sjúkdóminn, var alltaf eins og við hefðum heyrst í gær þegar þú hafðir samband.

Elsku vinkona mín með stóra hjartað sem vildir allt fyrir alla gera, ég gleymi þér aldrei.

Mínar dýpstu samúðarkveðjur, elsku Rafn Atli, Ernir Atli og fjölskylda. Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Hvíldu í friði, elsku besta mín, við sjáumst síðar.

Þín vinkona,

Guðný.

Ég hitti Hildigunni í fyrsta sinn á göngum Bráðamóttökunnar i Fossvogi. Við vorum á svipuðum aldri, ég var á kandídatsárinu sem kallað er, Hildigunnur í starfsnámi sem verðandi hjúkrunarfræðingur. Þetta var í marsmánuði, í kringum vorstólstöður þegar dagatalið gefur fyrirheit um lengri og bjartari daga, það er þessi birta sem ég kýs að minnast í tengslum við fyrsta spjall okkar Hildigunnar. Ég man ekki hvernig samtalið æxlaðist, hún tjáði mér að hún hefði unnið á leikskóla áður en hún fór að nema hjúkrun og að hún hefði annast tvo drengi sem voru frændur mínir í föðurætt. Síðan sagði hún mér sögu, stutta sögu af afa mínum sem stundum sótti afadrengina á leikskólann. Þar talaði hún fallega um afa minn, hljómar kannski ekki merkilegt þegar maður rifjar þetta upp mörgum árum seinna, en litla sagan gladdi mig mikið, svona gat Hildigunnur verið gefandi í samskiptum. Hún var góð við sjúklingana sem hún sinnti, hún var ósérhlífin og gekk fumlaus til verka. Ég minnist þess að hún var sérstaklega góð við þá sem áttu erfitt og höfðu borið skarðan hlut frá borði. Þar skynjaði maður að hún lagði skilning í vogarskálina í stað þess að beita einhliða áfellisdómi eins og einfaldara hefði verið. Það er með þessum orðum sem ég kýs að minnast Hildigunnar. Ég sendi Rafni og Erni, öðrum fjölskyldumeðlimum og vinum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Gott er sjúkum að sofna,

meðan sólin er aftanrjóð,

og mjallhvítir svanir syngja

sorgblíð vögguljóð.

Gott er sjúkum að sofa,

meðan sólin í djúpinu er,

og ef til vill dreymir þá eitthvað,

sem enginn í vöku sér.

(Davíð Stefánsson)

Guðmundur Gunnarsson.

Elsku frænka mín. Ég á svo ótrúlega margar góðar minningar um þig enda var Vesturbergið á tímabili mitt annað heimili þegar ég var yngri. Ég tók aldrei strætó nema heim til þín og það var eina leiðin sem ég kunni.

Ég man hvað þú treystir mér vel og það hafði svo ótrúlega mikil áhrif á sjálfstraust mitt svona ung. Þú kenndir mér að vera ábyrgðarfull og passa dýrmætu strákana þína, fyrst með hjálp annarra og svo seinna alveg ein. Takk fyrir þessa reynslu og þetta traust, það gerði meira fyrir mig en þig hefur grunað og hefur gert mig að þeim karakter sem ég er í dag – þannig munt þú alltaf eiga hlut í mér.

Ég man að þú hrósaðir mér svo mikið ef ég tók smá til heima hjá þér á meðan ég var að passa, sem gerði mig svo glaða að ég tók alltaf meira og meira til og fékk fleiri og fleiri hrós og jafnvel stundum launahækkun! Ég lít til baka núna og sé hvað þetta var skemmtilega gert hjá þér til þess að fá mig til að vilja taka til fyrir þig án þess að þú bæðir um það.

Ég man hvað þú hlustaðir á mig af fullri athygli og einlægni. Ég man svo eftir því þegar við lágum uppi í rúminu þínu og ég var að útskýra fyrir þér landakort af Íslandi sem ég hafði lært í skólanum. Þú sýndir svo mikinn áhuga og spurðir spurninga sem leiddu til þess að ég fylltist eldmóði að lýsa meira og meira fyrir þér. Ég endaði svo á að fá 10 á prófinu daginn eftir, alveg pottþétt þér að þakka.

Ég man líka eftir prakkaranum í þér og ég gleymi því ekki hvað þið mamma hlóguð mikið að mér eftir óhapp sem ég lenti í í vatnsrennibrautagarðinum á Tenerife. Ég hafði ekki mikinn húmor fyrir því á þeirri stundu en vá hvað við hlógum mikið saman seinna um kvöldið.

Þú fórst allt of snemma úr þessum heimi en ég trúi því að núna sértu komin á stað þar sem þú finnur fyrir frið, ró og hamingju. Takk fyrir traustið, takk fyrir hrósin, takk fyrir ábyrgðina, takk fyrir ástina og allt annað sem þú gafst mér – ég mun aldrei taka því sem gefnu. Hvíldu í friði elsku frænka mín.

Rebekka Rún

Jóhannesdóttir.

Í dag er borin til grafar Hildigunnur Sigrún Guðlaugsdóttir, nágranni okkar og æskuvinkona úr Efra-Breiðholti. Sterkur þráður var ávallt á milli okkar og minningar um barnæsku í raðhúsa/einbýlishúsabotnlanganum við Vesturberg okkur sameiginlegar, þar sem Hildigunnur ólst upp í húsi nr. 121, Ingibjörg í nr. 125, Arnar í nr. 133 og Davíð í nr. 151.

Breiðholtið var að slíta barnsskónum eins og við og „botnlanginn“ okkar var frábært leiksvæði fyrir tápmikla krakka en það var Hildigunnur einmitt, full af orku og lífi. Brekkan milli efra og neðra Breiðholts var á þessum árum gróðurlaus og enn verið að byggja bílskúra í miðju botnlangans okkar. Þegar þeir höfðu risið var tilvalið að nota þá við leik; í „yfir“ og svo mátti fara í „brennó“ á gangstéttinni eða „eina krónu“ þar sem ljósastaurinn beint fyrir neðan húsið hennar Hildigunnar lék gjarnan lykilhlutverk. Hún var ávallt vinsæl og vildu allir hafa hana í sínu liði enda var hún hreystin uppmáluð og keppti m.a. í sundi sem styrkti „skot“-höndina enn frekar í „brennó“.

Við vorum jafnaldrar, öll fædd 1972 og deildum því umfram alla hina krakkana í hverfinu að lenda í sama bekk í Hólabrekkuskóla. Hildigunnur var öflugur nemandi og lagði metnað sinn í námið og uppskar ríkulega. Einkunnaspjöldin hennar skörtuðu eintómum A-um og mætingin var fullkomin. Minningarnar eru margar frá þessum tíma, sem má ylja sér við á þessari kveðjustund.

Hildigunnur var glæsileg stúlka, hjartahlý og skemmtileg. Umhyggja í garð annarra var henni eðlislæg og fylgdist hún vel með sínum gömlu vinum, af ákefð og einlægni.

Þegar fram liðu stundir fórum við hvert sína leiðina í lífinu. Hittumst ekki oft en þráðurinn hélt. Árin liðu. Við fengum af því fréttir að Hildigunnur hefði ratað ofan í dimma dali. Hugsuðum til hennar og gerum nú, að leiðarlokum, kveðjum yndislega manneskju sem var okkur samferða á mótunarárunum. Sonum hennar, öðrum ættingjum og nánum vinum vottum við okkar dýpstu samúð.

Arnar Barðdal,

Davíð Logi Sigurðsson,

Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Elsku fallega brosmilda og hjartahlýja Hildigunnur er farin og okkur langar að minnast hennar í nokkrum orðum.

Árið 2001 voru nýinnritaðir hjúkrunarnemar við HÍ smám saman að kynnast. Tíu í þeim hópi mynduðu fljótlega skemmtilega fjölbreyttan hóp sem allar götur síðan hefur haldið góðu sambandi. Hildigunnur var ein af okkur í þeim hópi. Geislandi falleg og glæsileg með sitt stóra fallega bros sem alla bræddi, smitandi hlátur, nærvera hennar alltaf svo þægileg. Glöð og kát, hvers manns hugljúfi og mátti ekkert aumt sjá.

Næstu árin voru samverustundirnar margar, bæði í skóla og samlestri fyrir próf og alltaf var mikið hlegið. Það var svo skemmtileg tilviljun að hún og Guðrún Svava voru samtímis á fæðingardeildinni á lokaönninni. Ekki í verknámi, heldur fæddu þær báðar drengi sama dag, þá Erni Atla og Pál Steinar.

Það voru síðan glaðir hjúkrunarfræðingar sem útskrifuðust sumarið 2005 og upp frá því hefur verið „hittingur“ hjá okkur hjúkkusystrum nokkuð reglulega og náinn vinskapur myndast.

Líf Hildigunnar var ekki auðvelt síðustu árin og við vitum að henni leið oft ekki vel. Hún mætti samt alltaf í hitting þegar hún gat. Við verðum eilíflega þakklátar fyrir að hafa átt gott spjall við hana þegar við hittumst síðast, fyrir nokkrum vikum. Hún var full tilhlökkunar til sumarsins og fyrirhugaðrar utanlandsferðar, stolt af strákunum sínum og reyndi að vera bjartsýn þrátt fyrir að glíma við mikla erfiðleika. Þegar við kvöddumst föðmuðum við hana allar, það er gott að eiga það faðmlag í minningunni um þessa yndislegu vinkonu okkar.

Skarð er fyrir skildi, við erum slegnar og sorgmæddar yfir skyndilegu og ótímabæru fráfalli hennar.

Megi Guð geyma þig, elsku Hildigunnur.

Við sendum Erni Atla, Rafni Atla, systrum og fjölskyldum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Patrycja, Ragnheiður,

Lilja Karitas, Kolbrún,

Gunnhildur, Guðrún Svava,

Guðný, Drífa og Árdís.

HINSTA KVEÐJA Elsku systir. Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég get sagt. Mér finnst ég tóm að innan af söknuði. Ég á svo margar góðar minningar um þig að það myndi frekar passa í smásögubók en hér. Ég mun koma þessum minningum áfram til strákanna þinna svo að þeir kynnist þér eins og ég þekkti þig. Ég sakna góðu, uppátækjasömu og skemmtilegu systur minnar. Ég elska þig.
Þín
Erna.