Ólafur Ísleifsson
Ólafur Ísleifsson
Eftir Ólaf Ísleifsson: "Skattlagning séreignarsparnaðar stenst engar kröfur um sanngjarna og réttláta skattlagningu."

Tugþúsundir Íslendinga hafa brugðist við kalli stjórnvalda um að stofna til séreignarsparnaðar fyrir hvatningu í formi skattafsláttar. Slíkir skattafslættir eru þekktir og algengir. Sem dæmi má nefna skattafslátt til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum og skattafslætti til fyrirtækja sem vilja reka stóriðjuver hér á landi eða taka upp kvikmyndir eða sjónvarpsþáttaraðir í íslensku umhverfi.

Skattafslættir stofna í þessum tilfellum ekki til sérstakrar skattkröfu síðar. Hinn skattalegi hvati leiðir til athafna eða aðgerða sem ríkið sækist eftir. Með skattafslætti vegna séreignarsparnaðar er stefnt að mikilvægum þjóðfélagslegum markmiðum. Meðal þeirra má nefna að efla innlendan sparnað, auka eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum og lækka vexti.

Eldra fólk borgi – borgi mikið

Ein undantekning er frá þeirri reglu að skattafsláttur komi ekki síðar niður á þeim sem hans njóta. Undantekningin er fólkið 60 ára og eldra, sem öðlast hefur heimild til að taka út séreignarsparnað og nýta hann á þann veg sem það kýs. Gagnvart þessu fólki þykir hæfa að hafa uppi skattkröfu og hana ósmáa. Hún felst í að skattleggja séreignarsparnað eins og hann væri launatekjur. Hann er það ekki. Honum verður ekki jafnað saman við tekjur. Hann er eign.

Tekjur og eignir eru sitt hvað

Allir kunna skil á hugtökunum eignir og tekjur. Tekjur eru eins og streymandi vatn. Eignir eru eins og stöðuvatn. Eignir sæta annars konar skattlagningu en tekjur og standa skýr rök til þess. Séreignarsparnaður stendur saman af sparnaðargreiðslum og ávöxtun þeirra. Færa má rök fyrir því að drýgstur hluti eignarinnar eigi rót að rekja til ávöxtunar yfir langan tíma.

Séreignarsparnaður sker sig frá frjálsum séreignarsparnaði og er bundinn í kjarasamningum á vinnumarkaði. Ríkið viðurkennir séreignarsparnaðinn sem eign. Eignin er að lögum varin fyrir kröfuhöfum. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða réttindi samkvæmt samningi um séreignarsparnað á nokkurn hátt. Lög heimila að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á húsnæðislán. Þeir sem huga að íbúðarkaupum geta fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í fyrstu greiðslu.

Ofsköttun á séreignarsparnaði

Séreignarsparnaðurinn er skattlagður eins og eins og hann væri tekjur sem hann er ekki. Þrepin í tekjuskatti eru sem næst 31,5%, 38% og ríflega 46%. Skattur af fjármagnstekjum sem á við um eignir er 22%. Allir sjá muninn. Skattframkvæmd sem felur í sér að leggja skatt á eign eins og hún væri tekjur stenst ekki skoðun. Hér er ekki við Skattinn að sakast heldur stjórnvöld í ljósi ákvæða í lögum um tekjuskatt. Ótalið er að fólki er mismunað eftir tekjum við skattlagningu á séreign sinni. Þeir sem falla undir ákvæði um íbúðarkaup sleppa með öllu við skattinn. Á jafnræðisreglan ekki við nema stundum?

Fólk 60 ára og eldra má búa við óboðlega ofsköttun og mismunun við skattlagningu séreignarsparnaðar. Hversu lengi á þetta að standa?

Höfundur er hagfræðingur og fv. alþingismaður.