Handboltasystur Systurnar Berglind og Hildur Björnsdóttir spila báðar handbolta, Berglind með Fjölni/Fylki og Hildur með Val. Hildur og börnin hennar tvö voru kveikjan að ritgerð Berglindar um mömmusamviskubit.
Handboltasystur Systurnar Berglind og Hildur Björnsdóttir spila báðar handbolta, Berglind með Fjölni/Fylki og Hildur með Val. Hildur og börnin hennar tvö voru kveikjan að ritgerð Berglindar um mömmusamviskubit. — Morgunblaðið/Eggert
Karlotta Líf Sumarliðadóttir karlottalif@mbl.is Mömmusamviskubit er algengt meðal handknattleikskvenna þegar þær hefja æfingar á ný eftir barnsburð. Þetta er niðurstaða bakkalárritgerðar Berglindar Björnsdóttur sem ber heitið: „Shit er ég ömurleg mamma?“

Karlotta Líf Sumarliðadóttir

karlottalif@mbl.is

Mömmusamviskubit er algengt meðal handknattleikskvenna þegar þær hefja æfingar á ný eftir barnsburð. Þetta er niðurstaða bakkalárritgerðar Berglindar Björnsdóttur sem ber heitið: „Shit er ég ömurleg mamma?“

Meðal orsaka samviskubitsins eru væntingar og kröfur móðurhlutverksins, fjarvera frá barni og togstreita milli hlutverka. Berglind tók viðtöl við sex íslenskar handknattleikskonur sem eiga það sameiginlegt að hafa eignast barn eða börn á ferlinum. Þær hafa allar ýmist verið í íslenska landsliðinu, eru þar enn eða hafa verið í landsliðsæfingahóp. Fjórar af þeim eru enn að spila handbolta en tvær eru nýlega hættar.

„Ég var að reyna að komast að því hversu algengt mömmusamviskubit er hjá handboltakonum og hvað er hægt að bæta varðandi umgjörðina og stuðning við þær,“ segir Berglind í viðtali við Morgunblaðið.

Samviskubit yfir því að þurfa að finna pössun

Í ljós kom að konurnar höfðu allar upplifað mömmusamviskubit eftir að hafa byrjað aftur að æfa eftir barnsburð. Segir Berglind að ástæðurnar hafi verið ólíkar, svo sem samviskubit yfir því að þurfa að finna pössun og samviskubit vegna fjarveru frá barninu. Þá nefndu þær allar atriði sem hægt væri að bæta. „Félagið gæti reddað pössun, það var mjög vinsælt svar að yngri iðkendur myndu passa börnin einu sinni í viku á meðan þær væru á æfingu, það myndi minnka samviskubitið.“ Þá gætu íþróttafélög greitt fyrir sérfræðiaðstoð þegar konurnar byrjuðu aftur að æfa, svo sem sjúkra- eða einkaþjálfara sem hefði þekkingu á hvernig best væri að koma til baka eftir barnsburð. „Þær vissu í rauninni ekki hvernig þær ættu að byrja aftur. Þá kom í ljós að konurnar þurftu allar að reiða sig á stuðningsnet sitt, svo sem maka, foreldra, systkina og tengdaforeldra. „Þær töluðu um að ef þær væru ekki með svona gott stuðningsnet hefðu þær ekki getað haldið áfram í handbolta.“

Mismikill skilningur

Einum þátttakanda fannst vanta að hún væri spurð af þjálfurum hvernig henni liði og hvernig gengi. „Henni fannst vanta hluttekningu frá þjálfurum, þeir voru byrjaðir að pressa á hana að mæta aftur á æfingar án þess að spyrja fyrst hvernig gengi,“ segir Berglind og bætir við að þjálfarar hafi sýnt mismikinn skilning.

„Það var bara ein sem ég talaði við sem var með kvenkyns þjálfara og hún fékk hundrað prósent skilning frá henni en þjálfarinn hafði sjálf eignast barn á ferlinum,“ segir hún. „Svo var ein sem var að spila erlendis og hafði eignast barn þar en eignast sitt annað barn hér á Íslandi og hún talaði um mjög mikinn mun á milli landa. Úti var engin pressa, hún fékk aðstoð frá sjúkraþjálfara og átti að fara hægt af stað en á Íslandi upplifði hún lúmska pressu. Hún var mikið spurð af liðsfélögum hvenær hún myndi byrja aftur, þjálfarinn væri að spyrja um hana.“ Segir Berglind að fleiri þátttakendur hafi verið sammála. Þær hafi fengið spurningar um hvenær þær ætluðu eiginlega að mæta, hvort það væri nokkuð langt í þær og hvort þær kæmu ekki bara í næsta leik. „Það voru tvær sem veltu því fyrir sér hvort það væri minni skilningur hjá karlkyns þjálfurum af því að þeir væru karlar og vissu í rauninni ekki alveg hvað þær voru að ganga í gegnum,“ segir Berglind en bætir við að ekki sé hægt að alhæfa út frá því.

Systirin kveikjan að ritgerðinni

Sjálf spilar Berglind handbolta með Fjölni/Fylki. Systir hennar, Hildur Björnsdóttir, spilar í efstu deild í handbolta hér á landi, með Val, og hefur eignast tvö börn á ferlinum. „Það má segja að systir mín hafi verið kveikjan að ritgerðinni, við fjölskyldan vorum alltaf að passa fyrir hana en það var aldrei neinn að spá í hvernig henni liði.“

Bætir Berglind við að þrátt fyrir samviskubit komust allir þátttakendur að þeirri niðurstöðu að þær væru betri mæður fyrir vikið.