Varp Aðalsteinn Örn Snæþórsson við manngert fálkahreiður.
Varp Aðalsteinn Örn Snæþórsson við manngert fálkahreiður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Þrjú manngerð fálkahreiður voru sett upp í Suður-Þingeyjarsýslu síðasta haust og eitt þeirra er nú í notkun fálkapars. Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur og formaður stjórnar Fálkaseturs Íslands, segir að strax um haustið hafi fálkar farið að nota sylluna sem setstað og þar hafi verið varp í vor. Hinir staðirnir tveir hafi enn ekki vakið áhuga fálka.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Þrjú manngerð fálkahreiður voru sett upp í Suður-Þingeyjarsýslu síðasta haust og eitt þeirra er nú í notkun fálkapars. Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur og formaður stjórnar Fálkaseturs Íslands, segir að strax um haustið hafi fálkar farið að nota sylluna sem setstað og þar hafi verið varp í vor. Hinir staðirnir tveir hafi enn ekki vakið áhuga fálka.

Undirbúningur varps byrjar hjá fálkanum í lok mars á því að parið velur sér hreiðurstað. Ýmist grasi grónar syllur í klettum eða hrafnslaupa, en þeir endast alla jafna ekki mjög lengi. Í Þingeyjarsýslum hefur hröfnum farið fækkandi og þar með hefur dregið úr fjölda laupa sem standa fálkum til boða á vorin.

Í fróðleiksmolum um fálkann á heimasíðu Fálkaseturs segir m.a.: „Fálkar og hrafnar eru ekki miklir vinir en fálkinn rænir hrafninn hreiðri og rekur hann í burtu af mikilli grimmd. Fálkinn vandar lítt hreiðurgerðina og finnst gott að fá fullgert hreiður hrafnsins til afnota. Fuglarnir takast á um hreiðrið og hljótast af því miklir loftbardagar þar sem fálkinn hefur oftast betur.“

Vilja fjölga varpstöðum

Manngerðu hreiðrin eru staðsett þar sem hrafnslaupar höfðu áður verið. Byggðar voru syllur úr vatnsheldum viði og gróðurtorfur settar ofan á. Mótuð var laut í miðja torfuna sem var einangruð með grasi og ull. Við alla staðina voru myndavélar settar á sérstakar festingar, segir í áfangaskýrslu til Vegagerðarinnar, sem styrkti verkefnið.

Tilgangur þess er að fjölga varpstöðum innan fálkaóðala í Þingeyjarsýslum, sem skortir góða varpstaði. Eftirlit með hvernig til tekst gefur góðar upplýsingar um hvort og hve vel manngerð fálkahreiður nýtast fyrir fálkann. Þessar upplýsingar má svo nota til hliðsjónar ef farið verður í byggingu fálkahreiðra til að bæta fyrir hreiður sem skemmast eða verða óhentug vegna framkvæmda mannsins, segir í skýrslunni.

Fálkasetur Íslands var sett á laggirnar fyrir röskum tíu árum og voru stofnfélagar 36 talsins. Félagið er samstarfsvettvangur stofnana, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Meðal helstu markmiða er að vera einn helsti miðlari vísindalegrar þekkingar og vöktunar á fálka- og rjúpnastofninum. Jafnframt að auka þekkingu og virðingu almennings á fálkanum, lifnaðarháttum, vistfræði og tengslum hans við aðrar fuglategundir.

Á annan tug myndavéla

Aðalsteinn segir að gerð hafi verið heimasíða með ítarlegum upplýsingum um fálkann og rjúpuna, sem er aðalfæða fálkans árið um kring. Félagið vilji stuðla að vernd fálkans og síðustu ár hefur stór hluti starfseminnar beinst að því að koma í veg fyrir stuld á fálkaeggjum. Í því skyni er árlega settur upp á annan tug myndavéla í grennd við fálkahreiður; ekki til að mynda fálkana heldur umferð í nágrenni við fuglana.

Vélarnar eru búnar hreyfiskynjara og símkorti og þegar eitthvað rýfur geislann fær Aðalsteinn mynd í símann. Oft eru kindur eða fuglar á ferð en ef hann telur eitthvað grunsamlegt á seyði hringir hann á lögreglu. Sem betur fer segist hann ekki hafa þurft að grípa til þess.

Lengi hefur verið grunur um stuld á eggjum úr hreiðrum friðaðra fugla og á áttunda og níunda áratug síðustu aldar voru iðulega fluttar fréttir af stuldi á fálkaeggjum og ungum og tilraunum til að smygla úr landi, en fálkinn hefur verið alfriðaður frá 1940. Fyrir fimm árum var gerð tilraun til að smygla um 100 fuglseggjum úr landi með Norrænu. Um helmingur eggjanna var frá friðuðum tegundum.

Konungsgersemi

Samkvæmt válistaflokkun fugla, sem finna má á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar, er fálkinn metinn í nokkurri hættu. Aðalsteinn segir mikilvægt að tryggja vöxt og viðgang fálkans hér á landi. Þessi hánorræna tegund hafi mikið verndargildi á heimsvísu og ekki að ástæðulausu að hann hafi verið kallaður konungsgersemi. „Þetta er tignarlegur, skemmtilegur og fallegur fugl,“ segir Aðalsteinn.

Á heimasíðu Fálkaseturs segir m.a.:

„Fálkinn á sér sérstakan sess í sögu og menningu Íslendinga. Frá alda öðli voru fálkar veiddir á Íslandi og fluttir út til Evrópu þar sem þeir voru tamdir til veiðileikja. Fálkinn var áður í skjaldarmerki Íslendinga og fálkaorðan, eitt æðsta heiðursmerki Íslendinga, er við hann kennd.“