Áburður Endurskoða þarf samning um viðskipti með landbúnaðarvörur.
Áburður Endurskoða þarf samning um viðskipti með landbúnaðarvörur. — Morgunblaðið/Hari
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Samningaviðræður EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við ESB um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES hefjast 16. júní næstkomandi. Þetta var ákveðið fyrr í vikunni.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við ESB um nýtt starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES hefjast 16. júní næstkomandi. Þetta var ákveðið fyrr í vikunni.

Á fundi EES-ráðsins í Brussel á mánudag lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi EES-samningsins og að áfram þyrfti að standa vörð um góða framkvæmd hans, að því er fram kemur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Þórdís tók einnig upp undirbúning fyrirhugaðra viðræðna um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Hún áréttaði þar hve mikilvægt það væri fyrir Íslendinga að auka aðgengi þeirra að markaði ESB fyrir sjávarafurðir og að landbúnaðarsamningur Íslands og ESB yrði endurskoðaður. Hvort tveggja hefur utanríkisráðherra tekið upp á fundum sínum með framkvæmdastjórum ESB í Brussel að undanförnu, segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Í norskum fjölmiðlum kemur fram að EES-löndin, Noregur, Ísland og Lichtenstein, hafi greitt um það bil 378 milljarða íslenskra króna í Uppbyggingarsjóð EES á árunum 2014-2021. Þar af greiðir Noregur mest. Fénu er skipt milli 15 landa í Evrópusambandinu og stór hluti þess rennur til Pólverja. Ekki fengust upplýsingar um það frá utanríkisráðuneytinu í gær hversu mikið Íslendingar hafa greitt til sjóðsins á liðnum árum.

Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Ernu Bjarnadóttur á Alþingi kemur fram að samhliða slíkum viðræðum hafi hingað til verið samið um tímabundna tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir tilteknar íslenskar sjávarafurðir til ESB. Einnig er gert ráð fyrir að framþróun viðræðna um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir fylgi þeim viðræðum.

Ráðherra upplýsir að frá því í byrjun árs 2021 hafi ráðuneytið átt í viðræðum við ESB um endurskoðun á tvíhliða samningi Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Óskað var eftir endurskoðun samningsins í desember 2020 og hafa fulltrúar viðkomandi ráðuneyta hitt fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB á fjórum formlegum fundum frá því að óskað var eftir endurskoðun samningsins. „Að fengnu samþykki ríkisstjórnar óskuðu stjórnvöld eftir endurskoðun landbúnaðarsamningsins á grundvelli þess að langtímabreytingar hefðu orðið á forsendum samningsins. Snúa þær forsendubreytingar bæði að útgöngu Bretlands úr ESB sem og því að framtíðarspár um möguleika íslensks landbúnaðar til útflutnings hafa ekki gengið eftir. Það hefur því skapast ójafnvægi á milli samningsaðila varðandi nýtingu á þeim möguleikum sem samningurinn felur í sér. Aðalmarkmið viðræðnanna af Íslands hálfu er að auka jafnvægi í samningnum. Markmið stjórnvalda er að vinna að langtímalausn með endurskoðun samningsins en möguleiki á uppsögn samningsins hefur ekki verið ræddur við fulltrúa ESB, segir í svarinu.