Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Skoðum möguleika á þrennum jarðgöngum vestan Dynjandisheiðar."

Sá sem hér stingur niður penna sendir öllum þingmönnum Norðausturkjördæmis skýr skilaboð. Í Héðinsfirði, sunnan Múlaganganna og út með Eyjafirði hafa fárviðri, aurskriður og snjóflóð eyðilagt allar tilraunir til að koma Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri inn á eitt samfellt atvinnusvæði. Fyrir ofan báða gangamunnana í Héðinsfirði, við Ólafsfjarðarflugvöll og norðan Dalvíkur eyðileggur þetta vandamál sameiningu Fjallabyggðar við allt Eyjafjarðarsvæðið.

Líkurnar fyrir því að meirihluti heimamanna á Akureyri vilji samþykkja þessa sameiningu við nýja sveitarfélagið nyrst á Tröllaskaga eru einn á móti milljarði. Sameining Dalvíkur- og Fjallabyggðar kemur aldrei til greina án þess að ráðist verði í tvíbreið veggöng sunnan einbreiðu Múlaganganna, sem eru alltof utarlega og hafa í för með sér of mikla slysahættu. Fyrr komast þessi tvö sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð aldrei inn á eitt samfellt atvinnusvæði en núverandi veggöng sunnan Ólafsfjarðar víkja endanlega fyrir tvíbreiðum göngum sem skulu vera 2 km, norðan Dalvíkur.

Snjóflóðin í þessum sveitarfélögum við Eyjafjörð sanna að steyptu vegskálarnir sunnan Múlaganga leysa engan vanda. Spurningin er hvenær þeir sópast ásamt núverandi vegi niður í fjörurnar þegar aurskriður sunnan einbreiðu slysagildrunnar eyðileggja alla vegtengingu Fjallabyggðar við allt Eyjafjarðarsvæðið. Vestan gömlu Strákaganganna hverfur þetta vandamál aldrei án þess að tvíbreið jarðgöng undir Siglufjarðarskarð verði að veruleika. Án þeirra breyta Héðinsfjarðargöng engu fyrir utanverðan Skagafjörð. Best væri fyrir alla þingmenn Norðaustur- og Norðvesturkjördæmis að svara því afdráttarlaust hvort heppilegra hefði verið að stöðva einangrun Fjallabyggðar við landsbyggðina í heild á undan framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng, sem vonlaust er að fjármagna með veggjaldi á hvern bíl.

Milli Dalvíkur og Múlaganga munaði engu þriðjudaginn 28. desember að dauðaslys yrði, sem lögreglan fékk enga tilkynningu um, þegar bifreið með bílstjóra og farþega rann til í mikilli hálku sunnan við gangamunnann í utanverðum Eyjafirði. Þar skall hurð nærri hælum þegar bifreiðin stöðvaðist í hálkunni í vegkantinum í svimandi hæð yfir sjávarmáli. Í stað þess að reka hornin í samgöngumál Húnvetninga og Skagfirðinga, og halda til streitu kröfunni um hálendisveginn milli Reykjavíkur og Akureyrar, skulu þingmenn Norðausturkjördæmis frekar flytja þingsályktunartillögu um tvíbreið veggöng, nær Dalvík og undir Siglufjarðarskarð, til að afstýra einangrun Fjallabyggðar við landsbyggðina í heild.

Óbreytt ástand réttlætir ekki að íbúar Fjallabyggðar verði næstu áratugina án flugvallar á Siglufirði, sem skal uppfylla hertar öryggiskröfur og tryggja þeim greiðan aðgang að innanlandsfluginu og sjúkrafluginu. Til þess hafa þeir sama rétt og aðrir landsmenn. Þingmaður Siglfirðinga, sem settist í stól samgönguráðherra vorið 2007, átti að kynna sér þetta vandamál í stað þess að gefa sveitarstjórn Djúpavogs fögur loforð um vel uppbyggðan og hindrunarlausan heilsársveg á illviðrasömu svæði í 530 m hæð, um Öxi.

Sjálfgefið var það ekki, að fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefði áhuga á því að standa við þessi loforð eftir harðar deilur við fyrirrennara sinn frá Siglufirði um tvíbreið Norðfjarðargöng, sem hafa rofið einangrun Fjarðabyggðar. Með þeim var stigið fyrsta skrefið til að rjúfa einangrun sjúkrahússins í Neskaupstað við allan fjórðunginn. Án Mjóafjarðarganga fær þetta deildaskipta sjúkrahús aldrei öruggar vegasamgöngur við Egilsstaðaflugvöll. Að þessu vandamáli áttu Þuríður Backman, Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þ. Herbertsson að snúa sér fyrir löngu í stað þess að taka hálendisveginn og Vaðlaheiðargöng fram yfir brýnustu verkefnin á Mið-Austurlandi og Vestfjörðum, sem þola enga bið.

Krafan sem þingmenn Norðausturkjördæmis setja fram, um að halda Blönduósi og Varmahlíð utan hringvegarins, er tilefnislaus árás á samgöngumál Húnvetninga og Skagfirðinga. Að loknum framkvæmdum við Dýrafjarðargöng mæla öll rök með því að stutt göng undir Reynisfjall verði efst á blaði þótt stuðningsmenn Vaðlaheiðarganga á Alþingi berjist gegn þessu hagsmunamáli Víkurbúa. Skoðum möguleika á þrennum jarðgöngum vestan Dynjandisheiðar.

Höfundur er farandverkamaður.