Fjöldi skjala og ljósmynda, sem lekið hefur verið frá Xinjiang-héraði í Kína, þykir varpa nýju ljósi á þær aðferðir sem kínversk stjórnvöld hafa beitt gegn Úígúrum í héraðinu.

Fjöldi skjala og ljósmynda, sem lekið hefur verið frá Xinjiang-héraði í Kína, þykir varpa nýju ljósi á þær aðferðir sem kínversk stjórnvöld hafa beitt gegn Úígúrum í héraðinu. Mannréttindasamtök hafa sakað kínversk stjórnvöld um að hafa sent rúmlega eina milljón Úígúra og aðra íslamska minnihlutahópa í landinu í fangabúðir í héraðinu en stjórnvöld þar segja búðirnar einungis ætlaðar til endurmenntunar og að fólk fari þangað sjálfviljugt.

Fræðimaðurinn Adrian Zenz fékk hins vegar send til sín skjöl, sem fengin voru með tölvuinnbroti í opinberan gagnabanka í Xinjiang-héraði, sem benda til þess að harkalegum aðferðum hafi verið beitt í búðunum, og að helstu leiðtogar Kína, þar á meðal Xi Jinping, forseti landsins, hafi kallað eftir því að beita hörðum meðölum til að kveða niður trúarlega mótspyrnu í héraðinu.

Skjölin eru t.d. sögð sýna að Zhao Kezhi, öryggismálaráðherra Kína, hafi sagt að rúmlega tvær milljónir manna í suðurhluta Xinjiang væru nú undir „alvarlegum áhrifum“ frá íslamskri öfgatrú.

Fjöldi ljósmynda af föngum

Þá eru rúmlega 5.000 ljósmyndir af fólki sem lögreglan í Xinjiang hefur handtekið, og benda gögnin til þess að hið minnsta 2.800 þeirra hafi verið færðir til búðanna. Sumir þeirra eru undir lögaldri, þar á meðal var hinn 17 ára gamli Zeytunigul Ablehet, sem var fangelsaður fyrir að hlusta á ólöglega ræðu, og hinn 16 ára gamli Bilal Qasim, en sök hans virðist hafa verið sú að vera skyldur öðrum sem höfðu verið hnepptir í varðhald.

„Hin vænisjúka skynjun á ógn birtist í þessum skjölum, og sýnir hina innri réttlætingu á því hvers vegna það þarf að ráðast gegn heilli þjóð,“ sagði Zenz í upptöku sem fylgdi skjölunum, en hann starfar fyrir bandaríska minningarstofnun um fórnarlömb kommúnismans.

Skjölin voru birt í gær í fjölda fjölmiðla víða um heim, þar á meðal breska ríkisútvarpinu BBC , Der Spiegel og Le Monde . Veita þau einnig innsýn í líf fólks sem býr í einangrunarbúðunum.

Þar á meðal voru ljósmyndir sem sýndu lögreglumenn beita kylfum til að halda aftur af föngum, sem voru með hettur fyrir andlitinu og handjárnaðir.

Gögnin sögð hneykslanleg

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að það sem kæmi fram í gögnunum væri hneykslanlegt. Hvatti hún kínversk stjórnvöld til þess að veita Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, óhindraðan aðgang að héraðinu, svo að hún gæti rannsakað staðreyndir málsins en hún er nú í umdeildri heimsókn til héraðsins.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær við Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, að gögnin kölluðu á óháða og gegnsæja rannsókn á meintum mannréttindabrotum gegn Úígúrum.

Kínverska utanríkisráðuneytið fordæmdi hins vegar gagnalekann í gær. Sagði Wang Wenbin, talsmaður ráðuneytisins, að gögnin væru „hraðsoðin saman“ af „and-kínverskum öflum“ sem vildu rægja Xinjiang-héraðið. Sakaði Wenbin jafnframt þá fjölmiðla sem birtu gögnin um að dreifa lygum og orðrómi.