Efnileg Birkir Örn Hafsteinsson, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir og Ingibjörg Ragnheiður Linnet koma fram á tónleikunum Ungir einleikarar í kvöld.
Efnileg Birkir Örn Hafsteinsson, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir og Ingibjörg Ragnheiður Linnet koma fram á tónleikunum Ungir einleikarar í kvöld.
Ungir einleikarar er yfirskrift tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem fram fara í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Kornilios Michailidis.

Ungir einleikarar er yfirskrift tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem fram fara í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Kornilios Michailidis. Einleikarar og einsöngvarar á tónleikunum voru valdir í samkeppni sem haldin var í samstarfi við Listaháskóla Íslands í október 2021. Sigurvegarar í keppninni að þessu sinni voru klarinettuleikarinn Birkir Örn Hafsteinsson, trompetleikarinn Ingibjörg Ragnheiður Linnet og söngkonurnar Hanna Ágústa Olgeirsdóttir og Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir. Birkir, Ingibjörg og Hanna koma fram á tónleikum kvöldsins, en Þórgunnur mun koma fram á næsta ári.

Á efnisskránni eru Idomoneo, ballettsvíta eftir W.A. Mozart, Klarínettukonsert í f-moll eftir Carl Maria von Weber, Trompetkonsert eftir Henri Tomasi, Siboney eftir Ernesto Lecuona, Meine Lippen, sie küssen so heiß úr Giudittu eftir Franz Lehár, Cavatina úr Don Pasquale eftir Gaetano Donizetti og No word from Tom úr The Rake's Progress eftir Igor Stravinskí.

„Framtíð tónlistarlífs á Íslandi hvílir á herðum þeirra ungu hljóðfæraleikara og söngvara sem um þessar mundir taka sín fyrstu skref á stóra sviðinu. Það er sérstakt tilhlökkunarefni þegar framúrskarandi ungmenni stíga fram sem einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og njóta árangurs þrotlausrar vinnu. Í salnum sitja fjölskylda og vinir sem hafa fylgst með tónlistarnáminu um margra ára skeið og fagnaðarlætin í Eldborg eru aldrei einlægari en á þessum skemmtilegu og spennandi tónleikum,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni. Skólakortshafar fá miða á tónleikana á 1.900 kr. hvar sem er í salnum.