Blaðamannafundur Framsókn hefur boðið þremur flokkum til formlegra viðræðna um myndun meirihluta.
Blaðamannafundur Framsókn hefur boðið þremur flokkum til formlegra viðræðna um myndun meirihluta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, bauð fyrir hádegi í gær til blaðamannafundar í Grósku, ásamt oddvitum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, bauð fyrir hádegi í gær til blaðamannafundar í Grósku, ásamt oddvitum Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. Áður hafði Framsókn boðið bandalagi hinna þriggja flokkanna til formlegra viðræðna um myndun meirihluta í borgarstjórn.

Varðist Einar spurningum um það hvort hann geri kröfu um borgarstjórastólinn í komandi viðræðum, of snemmt væri að ræða slíkt á þessu stigi. Hann benti þó á að í kosningabaráttunni hefði hann gefið það skýrt til kynna að breytinga væri þörf á hinni pólitísku forystu í borginni.

Of snemmt að ræða skipun embætta

Dagur B. Eggertsson, oddviti og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagðist telja að til staðar væri töluverður málefnalegur samhljómur milli þeirra flokka sem ákváðu að hefja formlegar meirihlutaviðræður í gær.

Aðspurður hvort hann geri kröfu um formann borgarráðs, verði hann ekki borgarstjóri, sagði hann það of snemmt að ræða skipun embætta, farsælla væri að byrja á því að ræða málefnin. Þá sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni, það klárt mál í samtali við mbl.is að það hlyti að skipta máli í viðræðum um myndun nýs meirihluta að flokkurinn væri sá eini úr gamla meirihlutanum sem vann ákveðinn kosningasigur og bætti við sig einum borgarfulltrúa. Bæði Samfylkingin og Viðreisn töpuðu borgarfulltrúum.

Þá kom fram á fundinum að fyrsti borgarstjórnarfundur nýkjörinna borgarfulltrúa yrði haldinn í síðasta lagi 7. júní en auk blaðamannafundarins í gær fór einnig fram síðasti borgarstjórnarfundur fráfarandi stjórnar.

Níu á sínum síðasta fundi

Níu borgarfulltrúar eru á útleið úr borgarstjórn og var fundurinn því tilfinningaþrunginn. Margir luku máli sínu á því að þakka samstarfsfélögum sínum í borginni fyrir samstarfið.