Gunnar Bjarni Ragnarsson
Gunnar Bjarni Ragnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Bjarna Ragnarsson, Þorvarð Ragnar Hálfdánarson og Kristínu Huld Haraldsdóttur: "Fleiri læknast af og lifa lengur eftir greiningu briskrabbameins. Greinarhöfundar rekja stuttlega hvað liggur að baki þeirri framþróun."

Í nýlegri grein Birgis Guðjónssonar í tímaritinu Cancer Medicine Journal og í viðtali, sem birtist í Morgunblaðinu í kjölfarið, lýsti hann yfir að skurðaðgerðir við briskrabbameini væru óréttlætanlegar. Við höfnum þessari fullyrðingu. Að okkar mati er ekki tekið tillit til þeirra framfara sem hafa orðið í meðhöndlun briskrabbameina. Að auki teljum við að hún valdi ótta hjá einstaklingum sem hafa greinist með briskrabbamein og eru í mjög viðkvæmri stöðu. Því er nauðsynlegt að upplýsa um þær framfarir, sem hafa orðið í meðferð briskrabbameina, og þá sannreyndu þekkingu sem liggur að baki meðhöndlun þessa sjúkdóms.

Á Íslandi greinast árlega rúmlega 40 manns með briskrabbamein og í árslok 2020 voru tæplega 70 manns á lífi með sjúkdóminn. Einkennin eru oft óljós og því greinist meirihluti þeirra þegar krabbameinið er það dreift að ekki er hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð. Ef sjúkdómurinn hefur dreift sér til annarra líffæra er beitt krabbameinslyfjameðferð sem miðar að því að draga úr einkennum krabbameinsins og lengja líf sjúklinga. Hjá hluta sjúklinga er sjúkdómurinn þó afmarkaður og er þá metið á þverfaglegum samráðsfundi sérfræðinga hvort skurðaðgerð sé möguleg. Aðgerðin er umfangsmikil og mikilvægt að leggja ekki á einstaklinga sem hún gagnast ekki.

Ef litið er til baka á síðustu áratugi, þá voru horfur sjúklinga með skurðtækt briskrabbamein ekki góðar. Einungis um 4% allra sjúklinga, sem gengust undir aðgerð, voru lifandi 10 árum eftir hana. Það hlutfall var þó allt að 18% hjá einstaklingum með smæstu æxlin sem höfðu ekki dreift sér til eitla. Engir þessara sjúklinga hefðu lifað svo lengi án aðgerðar. Á síðari árum hafa horfur sjúklinga með staðbundið briskrabbamein batnað talsvert. Aðgerðir á brisi eru öruggari og sjúklingar jafna sig fyrr. Langflestir þeirra fá nú krabbameinslyfjameðferð í kjölfar skurðaðgerðar. Krabbameinslyfjunum er ætlað að eyða meinvörpum krabbameins sem eru ekki sýnileg á myndgreiningarrannsóknum. Rannsóknir hafa sýnt að slík viðbótarmeðferð fjölgar þeim sem lifa lengur og hún þolist líka mun betur en áður var. Þó að aðgerð sé einungis framkvæmanleg í 20-30% sjúklinga þá hafa þessar framfarir leitt til þess að langtímahorfur þeirra eru mun betri nú en þær voru á árum áður. Í dag eru 25-30% sjúklinga með skurðtækt briskrabbamein taldir læknaðir fimm árum eftir aðgerð en 10-15% í viðbót eru á lífi, þó með endurkomu sjúkdóms. Sjúklingar með æxli, sem áður fyrr voru talin óskurðtæk, m.a. vegna vaxtar í nærlægar æðar, eru í auknum mæli meðhöndlaðir með lyfja- og geislameðferð og síðan með aðgerð ef hægt er og nokkur hluti þeirra læknast. Þessi þróun heldur áfram og mun vonandi leiða til enn betri árangurs.

Það er augljóslega enn langt í land er kemur að meðhöndlun sjúklinga með briskrabbamein. Fullyrðingar um gagnsleysi skurðaðgerða eiga sér ekki lengur stoð í raunveruleikanum. Miklar framfarir hafa orðið í krabbameinslækningum og árangur meðferðar heldur áfram að batna. Við teljum að betri skilningur á tilurð briskrabbameina muni leiða til þess að þau greinist fyrr en nú er. Það er okkar von að þessi þekking skili sér líka í þróun nýrra og betri lyfja og leiði þannig til aukinna lífsgæða einstaklinga, sem greinast með briskrabbamein, og til fjölgunar í hópi þeirra sem læknast eða lifa lengur með sjúkdómi.

Gunnar Bjarni er krabbameinslæknir á Landspítala. Þorvarður Ragnar er prófessor í krabbameinslækningum og yfirlæknir krabbameinslyflækninga meltingarfæra við Mayo Clinic í Rochester í Minnesota. Kristín Huld er skurðlæknir á Landspítala og sérfræðingur í aðgerðum á briskrabbameinum.