Sigríður Hjördís Indriðadóttir fæddist í Reykjavík 7. júní 1939. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 16. maí 2022.

Foreldar hennar voru hjónin Jóhanna Ólafsdóttir, f. 1.7. 1918, d. 14.5. 2007, og Indriði Bogason, f. 13.12. 1911, d. 6.9. 1992. Systkini Sigríðar eru: Bogi, f. 16.4. 1941, Ólafur, f. 27.6. 1945, d. 19.10. 2018, og Magnús, f. 20.12. 1952.

Hinn 4.1. 1963 giftist Sigríður Þóri Hallgrímssyni, f. 7.8. 1936. Þórir starfaði við Kársnesskóla í Kópavogi, fyrst sem kennari, en síðar sem yfirkennari og skólastjóri.

Sigríður og Þórir eignuðust tvö börn: Indriða Jóhann, f. 4.5. 1963, og Elísabetu Þóreyju, f. 15.7. 1973.

Indriði er kvæntur Önnu Jónu Geirsdóttur, f. 11.2. 1962. Börn þeirra eru: a) Hafdís, f. 23.1. 1979, maki Þorvaldur Ingi Guðjónsson, f. 31.5. 1976, barn þeirra er Elís Kári, f. 25.5. 2020, börn Hafdísar eru Anna Lilja, f. 14.5. 1999, Mikael Aron, f. 5.8. 2003, og Írena Rut, 19.3. 2009. b) Þórarinn Elís, f. 24.11. 1990. c) Sigríður Hjördís, f. 7.1. 1992, maki Hannes Björn Guðlaugsson, f. 15.1. 1990, börn þeirra eru Jóhanna Þórdís, f. 1.1. 2019, og Ólöf Anna, f. 20.5. 2021. d) Brynhildur Ósk, f. 10.12. 2001.

Elísabet er gift Flóka Halldórssyni, f. 29.12. 1973. Dætur þeirra eru Una Sólveig, f. 7.10. 2005, Ása Gunnþórunn, f. 4.3. 2007, og Saga Sigríður, f. 19.10. 2010.

Sigríður ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík, lengst af á Öldugötu 9 en síðar á Melhaga 12. Hún gekk í Melaskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og Menntaskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist sem stúdent árið 1959. Hún útskrifaðist sem kennari úr Kennaraskóla Íslands árið 1960.

Sigríður hóf starfsferil sinn sem kennari í Kársnesskóla í Kópavogi árið 1960 þar sem hún kynntist samkennara sínum og síðar eiginmanni Þóri Hallgrímssyni. Þau trúlofuðu sig 1. janúar 1962 og gengu í hjónaband 4. janúar 1963. Sigríður kenndi alla sína starfsævi við Kársnesskóla.

Sigríður og Þórir fluttu í Holtagerði 49, Kópavogi, árið 1963, þar sem þau byggðu sér hús og bjó Sigríður þar frá þeim tíma eða þar til um miðjan febrúar sl. þegar hún fékk dvöl á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 25. maí 2022, klukkan 13.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hripa niður fátækleg orð um móður mína. Við áttum alla tíð náið og gott samband sem ég er afar þakklát fyrir. Til hennar var ætíð gott að leita og hún var alltaf til taks fyrir mig og fjölskyldu mína. Við vorum miklar og góðar vinkonur.

Mamma var góður námsmaður og þótti gaman að læra, hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og síðar í Kennaraskólann. Þó að ekki sé lengra síðan var á þeim tíma ekki sjálfgefið að konur fengju að mennta sig og var hún þakklát foreldrum sínum að styðja hana i því að fá að njóta menntunar.

Að loknu kennaranámi hóf mamma að kenna við Kársnesskóla í Kópavogi, sem reyndist örlagaríkt þar sem hún kynntist föður mínum. Á þeim tíma var húsnæðisskortur í Reykjavík og brugðu þau á það ráð að festa kaup á lóð við Holtagerði í Kópavogi, steinsnar frá Kársnesskóla, þar sem þau byggðu hús. Mamma bjó þar í 59 ár með föður mínum eða þar til í febrúar sl. þegar hún var orðin alvarlega veik og flutti á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.

Hjónaband mömmu og pabba einkenndist af mikilli samheldni og hlýju, þau störfuðu á sama vinnustað alla sína starfsævi, og heima fyrir voru þau ekki síður samheldin og samtaka og gengu í öll störf saman. Eftir því sem mömmu hrakaði undanfarin ár tók pabbi yfir öll verk og sinnti mömmu af einstakri alúð og umhyggjusemi svo eftir var tekið. Mamma tók þessu ekki sem sjálfsögðum hlut og var óspar á að tala um hvað pabbi minn væri góður karl og hvað hún væri heppin að eiga hann að.

Mömmu leið best heima í litla rauða húsinu í Holtagerði með stóra garðinum, þar sem hún naut þess að vera úti á sumrin og á veturna gaf fuglunum daglega hafragraut bragðbættan með rúsínum. Hún hafði yndi af bókalestri og var dugleg að benda mér á og lána mér bækur. Hún var réttsýn og jarðbundin, tilfinningarík og kærleiksrík.

Mamma var mikil fjölskyldukona og vildi allt fyrir sitt fólk gera. Hún var létt í lund, skapgóð og ljúf. Eins og hún sagði sjálf kunni hún ekki að fara í fýlu. Hún var glaðsinna og hláturmild. Nöldur, neikvæðni og barlómur voru henni ekki að skapi heldur vildi hún einblína á björtu hliðarnar í lífinu. Hún var lífsglöð og það lýsir henni vel að þrátt fyrir að vera orðin mjög veik talaði hún iðulega um það við mig hvað henni þætti gaman að lifa og hvað það væri gaman að vera til. Þegar ég heimsótti hana í Sunnuhlíð og sjúkdómurinn hafði lagst af svo miklum þunga á hana að hún var orðin ósjálfbjarga svaraði hún því samt alltaf til að hún hefði það fínt þegar ég spurði hana um líðan hennar.

Það var erfitt fyrir okkur aðstandendur að sjá minnissjúkdóminn ömurlega ná yfirhöndinni á kláru, minnugu og skörpu konunni sem móðir mín var. En hún tók því eins og öðru með jafnaðargeði og æðruleysi. En sjúkdómurinn náði ekki að ræna hana mildinni og hlýjunni og það var alltaf stutt í brosið hjá henni, kossana og faðmlögin.

Það var sérstaklega fallegt veður þegar mamma kvaddi í dagrenningu, bjart, stillt og milt, líkt og hún. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga svona góða og ljúfa móður og mun ég minnast mömmu með gleði og hlýju.

Þín augu mild mér brosa

á myrkri stund

og minning þín rís hægt

úr tímans djúpi

sem hönd er strýkur mjúk

um föla kinn

þín minning björt

(Ingibjörg Haraldsdóttir)

Meira á www.mbl.is/andlat

Elísabet Þórey

Þórisdóttir

Tengdamóðir mín, Sigríður Hjördís, oftast kölluð Sirrí er nú fallin frá eftir erfið veikindi. Ég hitti Sirrí fyrst þegar ég var kynntur fyrir þeim hjónum fyrir ríflega þrjátíu árum. Sirrí tók mér strax vel og reyndist mér og okkur fjölskyldunni síðan alla tíð mikil stoð. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá samband Sirríar við dætur okkar þrjár þróast frá fæðingu þeirra og fram á unglingsaldurinn. Allar hafa þær notið góðs af því að vera í reglulegu, sterku og ástríku sambandi við ömmu Sirrí og söknuðurinn er því mikill við fráfall hennar. Minningarnar lifa engu að síður áfram og fylgja okkur um ókomin ár.

Sirrí fæddist rétt fyrir seinna stríð og bjó á æskuárum á Öldugötunni í gamla Vesturbænum. Hún var meðal fyrstu nemenda sem hófu skólagöngu í nýbyggðum Melaskóla. Margt hefur breyst á Íslandi á þessum ríflega átta áratugum sem ævi hennar spannaði. Stuttu eftir að þau Þórir hófu búskap reistu þau sér hús í Holtagerði í vesturbæ Kópavogs. Þau hjónin voru meðal frumbyggja í þessu nýja hverfi og áttu eftir að búa þar og starfa alla sína starfsævi og raunar allt til dagsins í dag. Bæði störfuðu þau við Kársnesskóla og áttu þannig þátt í að mennta fleiri kynslóðir ungra Kópavogsbúa. Það var auðheyrt að Sirrí var mjög annt um hverfið sem hún átti þátt í að móta og samræður við matarborðið leiddu oftar en ekki að tali um íbúa sem bjuggu í húsum í nærliggjandi götum. Það mátti greina í þessum frásögnum að hverfið var nokkurs konar þorp, með eigin verslanir og þjónustu og fólkið þekktist vel. Tíminn líður áfram og því fækkar í kynslóð þeirra sem byggðu Kársnesið.

Að lokinni langri ævi og nokkurra áratuga kynnum er margs að minnast frá samskiptum okkar Sirríar. Sirrí var hláturmild og glaðlynd og ég held að ég hafi aldrei séð hana skipta skapi. Þegar veikindi tóku að herja á hana var hún áfram létt í lund og kát. Hún naut greinilega samverustunda með barnabörnum og nánustu fjölskyldu og oftar en ekki glitti í gamla kennarann þegar hún kenndi börnunum vísubút, handverk eða annað gagnlegt. Sirrí virtist alltaf una sér við að leysa þrautir hversdagsins. Á máli nútímans má líklega segja að hún hafi átt auðvelt með að tileinka sér núvitund. Hún naut þess að vera úti í garðinum heima á góðviðrisdögum, auk þess sem þau hjón fóru oft í göngutúra saman. Að leiðarlokum er gott að minnast með þakklæti allra góðu stundanna og þakka fyrir langa vináttu og ómetanlegan stuðning við fjölskyldu okkar.

Flóki Halldórsson.

Amma Sirrí var í alla staði einstök kona sem ávallt var í góðu skapi og ég minnist hennar þannig. Velflestar æskuminningar mínar eru af „ömmu í Kópó“ og af þeim ánægjulegu samverustundum okkar sem einkenndust af brosi og hlátri hennar. Alltaf var gaman að verja tímanum með ömmu og ég verð ævinlega þakklát fyrir að við vorum alla tíð afar nánar. Við áttum í gegnum árin mörg samtöl þar sem við hlógum oft og tíðum saman. Þegar hlátrinum lauk sagði amma alltaf: „Hláturinn lengir lífið“ og ef til vill leynist vottur af sannleika í þeim málshætti.

Heimsóknir í Holtagerðið voru vikulegar og einnig komu þau afi oftsinnis til okkar systra eða sáu um að sækja okkur úr þeim ýmsu tómstundum sem við iðkuðum. Þá skiptumst við á að verja tíma okkar saman á heimili okkar fjölskyldunnar eða hjá ömmu og afa og góðir veðurdagar voru nýttir utandyra sem verða mér ávallt minnisstæðir. Það eru þeir dagar þegar við sátum saman úti á pallinum í garði ömmu og afa og er hún tók þátt í uppátækjum okkar systra og leikjum utanhúss. Hún spilaði einnig gjarnan við mig á spil, las fyrir mig og sá um mig. Amma var líkt og mín besta vinkona og alltaf var hægt að leita til hennar ef þess gerðist þörf.

Á bernskuárum mínum sagði amma mér sögur af árum sínum áður fyrr. Frásagnir hennar fjölluðu mestmegnis um æskuárin hennar á Öldugötunni og sumrin sem hún varði í sveit. Ég man prýðisvel eftir ævintýrum hennar úr sveitinni. Hún sagði mér frá þeim tíma þegar hún og bróðir hennar fengu að fara flugleiðis í sveitina, frá grey músunum sem höfðu drukknað í salttunnunni og frá frændfólki sínu á sveitabænum. Eftirlætis sagan mín var af slímuga álnum sem hún bjargaði frá dauða en sú saga er mér ógleymanleg. Amma minntist alltaf þessara tíma með hlýhug og talaði fallega um fólkið sem hún dvaldi hjá þau sumur.

Amma sagði mér einnig frá uppeldi sínu og að hún hefði fengið sinn skerf af óréttlæti vegna þess eins að hún var stelpa. Eftir að hafa lokið skyldunámi vildi amma halda skólagöngu sinni áfram. Ekki voru þó allir hennar nánustu hlynntir því en hún fékk því þó framgengt og útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík og einnig Kennaraskólanum.

Amma mín var mín helsta fyrirmynd af svo ótal mörgum ástæðum. Hún var afburða námsmaður og með framúrstefnuleg viðhorf til réttinda kvenna. Það var gott að vera í návist hennar og aldrei var skortur á ást og umhyggju í minn garð. Hún var lífsglöð og skapgóð og hennar jákvæða sýn á lífið hefur mér alltaf þótt einstök. Hún kenndi mér ótalmargt. Hið nytsamlega líkt og að prjóna, búa til hafragraut og krulla á mér hárið. En einnig kenndi hún mér ýmsar lífslexíur. Það að ég eigi að vera þakklát fyrir það sem ég á og þá sem ég á að. Þakklát fyrir að eiga þær yngri systur sem ég á og að við eigum alltaf að vera góðar hver við aðra.

Ég vil þakka þér amma fyrir að hafa verið stoð mín og stytta í gegnum árin, fyrir alla væntumþykjuna og stundirnar sem við vörðum saman. Ég elska þig út af lífinu amma! Takk fyrir allt.

Una Sólveig.