Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Í ljósi þess að Pepsi Max er stór útgjaldaliður á mínu heimili er kærkomið að fá að fjárfesta í Ölgerðinni í því hlutafjárútboði sem nú stendur yfir, og eiga þess kost að þiggja arðgreiðslur í framtíðinni fyrir þessa tryggð við drykkinn og félagið.

Það verður þó ekki hjá því komist að lýsa yfir vonbrigðum með baráttu Ölgerðarinnar gegn þeim nauðsynlegu breytingum sem gera þarf í áfengismálum hér á landi. Ölgerðin hefur beitt sér gegn nær öllum þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram á liðnum árum, yfirleitt undir því yfirskini að það sé ekki gengið nógu langt í frelsisátt. Undir það má taka, en það er þó ekki ástæðan fyrir andstöðu félagsins.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, veit sem er að skref í átt að auknu frelsi eru oft fá og stutt en þau þarf að stíga. Hljóð og mynd fara því ekki saman þegar hann beitir sér gegn auknu frelsi á þessu sviði. „Til þess að uppskeran verði góð þurfa stjórnvöld að skapa svigrúm til athafna. Ekki leggja til hömlur og afskipti. Íslenskt atvinnulíf þarf ekki á því að halda að fara 60 ár aftur í tímann með höftum, neyslustýringu, pólitískum klíkuskap og spillingu,“ sagði Andri Þór á aðalfundi SA árið 2010. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar Andri Þór hefur beitt sér gegn auknu frjálsræði í viðskiptum með áfengar vörur, af því að félagið hefur það náðugt í faðmi (eða hillum) Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Það gengur vissulega gegn viðskiptalegum hagsmunum Ölgerðarinnar að heimila öðrum en ríkinu smásölu á áfengi, eins og fram kemur í útboðslýsingu félagsins. En ef þú ert fylgjandi viðskiptafrelsi hlýtur það að gilda um öll fyrirtæki – líka þau sem þú ert í samkeppni við.

Ef viðskiptalegir hagsmunir felast í góðu samstarfi við deyjandi risaeðlu hlýtur það að skerða væntingar um arðgreiðslur framtíðarinnar.