Eyjafjarðarsveit Ný ræsi hafa verið sett í ána og steypt yfir. Jarðvegi er ekið að ræsi og vegur útbúinn en á meðan fara bílar yfir gamla brú, ofar í gilinu.
Eyjafjarðarsveit Ný ræsi hafa verið sett í ána og steypt yfir. Jarðvegi er ekið að ræsi og vegur útbúinn en á meðan fara bílar yfir gamla brú, ofar í gilinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Miklar framkvæmdir standa nú yfir við Eyjafjarðarbraut eystri, sunnan við Akureyri, þar sem sett er nýtt ræsi á Þverá í Kaupangssveit. Áin fellur þar fram í gljúfri og rennur svo niður um eyrar í Eyjafjarðará.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir við Eyjafjarðarbraut eystri, sunnan við Akureyri, þar sem sett er nýtt ræsi á Þverá í Kaupangssveit. Áin fellur þar fram í gljúfri og rennur svo niður um eyrar í Eyjafjarðará. Ræsið sem þarna var fyrir og var sett upp fyrir um 30 árum skekktist í júní á síðasta ári í flóði sem líkja mátti við náttúruhamfarir. Tvær af fjórum einingum sem mynda 60 metra langt ræsið skekktust í flóðinu svo burðarþol þess gagnvart fyllingu og umferðarálagi raskaðist. Því var ekkert annað í stöðunni en að setja upp tvær nýjar einingar í ræsið. Slíkt er talsverð framkvæmd og er í höndum brúarvinnuflokks Vegagerðarinnar á Hvammstanga.

Verki þessu fylgir að um skipta þarf um jarðveg að hluta undir ræsinu og 20 stálstaurar sem mynda festingar eru reknir niður. Ánni er veitt fram hjá mannvirkinu meðan á þessu stendur en það var nauðsyn svo framkvæmdir þessar væru í raun vinnandi vegur. Umferð um Eyjafjarðarbraut fer meðan á þessu stendur yfir gamla brú sem er ofan við ræsið. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í haust. sbs@mbl.is