Karl Jónasson fæddist 23. desember 1919 í Reykjavík. Hann lést 15. maí 2022.

Foreldrar hans voru Jónas Páll Magnússon bókbindari, f. 18. maí 1885 í Reykjavík, d. 11. nóvember 1945, og Guðbjörg Gísladóttir húsfreyja, f. 25. janúar 1897 í Þórisdal í Lóni, d. 18. janúar 1978.

Karl átti sex systkini: Sigríður Jónasdóttir, f. 18. september 1916, d. 14. nóvember 2001, Hólmfríður Jónasdóttir, f. 24. október 1917, d. 21. desember 2011, Jón Jónasson, f. 1918, d. 1918, Birgir Jónasson, f. 26. janúar 1922, d. 21. desember 2002, Ragnar Jónasson, f. 4. júlí 1923, d. 9. apríl 1961, Páll Magnús Jónasson, f. 7. nóvember 1927, d. 11. febrúar 2005.

Karl ólst upp í foreldrahúsum við Lindargötuna til fimm ára aldurs ásamt tveimur systrum. Þá fór hann austur að Hoffelli í Hornafirði, til móðursystur sinnar Rögnu Gísladóttir og manns hennar Leifs Guðmundssonar.

Karl var tíu ára er hann kom aftur á Lindargötuna og átti þar heima fram yfir fermingu. Karl byrjaði í Austurbæjarskólanum þegar skólinn tók til starfa, árið 1930. Karl byrjaði að vinna í Félagsprentsmiðjunni er hann var þrettán ára, hóf þar nám í prentiðn fimmtán ára og lauk sveinsprófi 1939.

Karl kynntist Guðnýju Aradóttur, f. 10. apríl 1919, d. 9. febrúar 2018, verðandi konu sinni, árið 1936. Hann stundaði síðan nám við Flensborg í Hafnarfirði 1939-40 og síðan við Menntaskólann á Akureyri, lauk þaðan stúdentsprófi 1944, innritaðist í Háskóla Íslands og hóf nám við lagadeildina þar. Að loknu námi giftust Karl og Guðný, 20. janúar 1945.

Börn þeirra sjö eru: Karl Magnús, f. 1945, Björg, f. 1946, Rannveig, f. 1948, d. 19. júlí 1981, Ari, f. 1950, Eyjólfur, f. 1952, d. 14. nóvember 2010, Björn, f. 1956, Gísli Stefán, f. 1959. Afkomendur Karls og Guðnýjar eru 77.

Karl hætti laganáminu og fór út á vinnumarkaðinn. Á menntaskólaárunum hafði Karl starfað hjá Félagsprentsmiðjunni og var auk þess blaðamaður við dagblaðið Vísi. Karl og Guðný, eiginkona hans, fluttu norður á Akureyri vorið 1945. Þar tók Karl við stöðu prentsmiðjustjóra Prentsmiðju Björns Jónssonar. Hann var prentsmiðjustjóri og framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar og lengst af aðaleigandi hennar fram á haust 1960, þá seldu þau reksturinn og eignir sínar á Akureyri og fjölskyldan flutti suður og kom sér fyrir í Kópavoginum.

Karl stofnaði prentsmiðjuna Karl M. Karlsson og Co. árið 1962, sem árið 1970 var breytt í hlutafélagið Vörumerking. Það sérhæfði sig snemma í ýmiss konar sérhæfðum umbúðum, límmiðum og vörumerkingum.

Reksturinn gekk vel, fyrirtækið óx hratt og um árabil störfuðu þar kringum 40 manns.

Karl starfrækti fyrirtækið með sonum sínum, Karli Magnúsi, Ara og Birni, til ársins 2012. Þá sameinaðist fyrirtækið öðru fyrirtæki.

Útför Karls fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 25. maí 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Gamli, eins og við fjölskyldan og nánustu vinir kölluðum hann, var um margt merkilegur karakter, var klókur, ráðagóður og heimsmaður með reisn. Maður minnist veislanna í Melgerðinu og síðar Skógarlundinum þar sem mamma fékk aðeins klukkutíma til að útbúa veislu fyrir gesti sem gamli var þá búinn að bjóða í mat og það kláraði hún með stæl, enda rómaður veislukokkur.

Einkenni og sú mynd sem flest okkar hafa af gamla er hann sitjandi við skrifborðið sitt stóra við að lesa eða skrifa með rautt á kantinum innan um allar bækurnar sínar, en þær telja hátt á annað þúsund, en hann var mikill bókaunnandi og gaf út nokkrar bækur á Akureyrarárunum. Fyrsta hugsun okkar systkina var að hann yrði að fá skrifborðið sitt með sér er hann flutti á Hrafnistu í desember sl. og þar sat hann flestar stundir og skrifaði og las til síðasta dags.

Alla tíð minntist hann með hlýju uppeldisáranna hjá Rögnu móðursystur sinni og Leifi manninum hennar í Hoffelli í Nesjum í Hornafirði, en þar var hann frá fimm ára aldri til 10 ára er hann kom aftur heim til Reykjavíkur til að ganga í skóla. Námsferillinn var öðruvísi en hjá flestum en 13 ára hóf hann störf sem sendill hjá Félagsprentsmiðjunni og fór á samning þar í setjaraiðn 15 ára. Þegar því námi lauk með sveinsprófi 1939 fór hann í menntaskóla, fyrst í Flensborg en síðan í MA þar sem hann lauk stúdentsprófi vorið 1944. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands haustið 1944 en hætti um áramót og fluttist með mömmu, en þau kynntust 1936, til Akureyrar þar sem hann tók við sem prentsmiðjustjóri í Prentsmiðju Björns Jónssonar, þar voru þau í 16 ár, sjö börnum ríkari, og fluttu suður aftur. Fyrst hóf hann störf sem meðeigandi í Félagsprentsmiðjunni en stofnaði síðan eigið fyrirtæki 1961, Karl M. Karlsson og Co en breytti nafninu í Vörumerking 1971. Afkomendur gamla og mömmu telja nú um 80 hausa og árin þeirra saman voru 83 en mamma lést 2018, rétt að verða 99 ára.

Gamli minn, takk fyrir samveruna þessi tæpu 72 ár sem ég hef lifað, þú skilar kveðju til mömmu, Bassý og Eyfa.

Ari Karlsson.

Nú er faðir minn allur eftir langa og farsæla ævi. Verður mikill missir að honum fyrir okkur öll.

Karl Jónasson (Gamli) fæddist á Lindargötunni í Reykjavík á Þorláksmessu 1919, ólst þar upp til 5 ára aldurs, var svo sendur til móðursystur sinnar Rögnu Gísladóttur og Leifs Guðmundssonar í Hoffelli, Hornafirði, þar var hann í góðu yfirlæti til 10 ára aldurs og hefur hann alla tíð talað um hvað honum hafi liðið vel þar, og hefur borið sterkar taugar þangað. Ófá skiptin höfum við Gamli rifjað upp sögur og atvik frá Hoffelli, þar sem ég var síðar í sveit hjá sama sómafólkinu í sex sumur, þekktum við báðir örnefni á klettum, fjöllum og hólum og hvað gott var að vera í þessari fögru sveit.

Sem barn var Gamli var námfús og fór hann í farskóla á næsta bæ, Setberg, tvisvar sinnum sex vikur og var hann jafn vel að sér eða betur en jafnaldrar hans þegar hann kom aftur til Reykjavíkur.

Lærði síðar prent í Félagsprentsmiðjunni og þaðan fór hann í Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent 1944 og fagnaði með öðrum nýstúdentum á Lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944.

Alltaf rifjast upp skemmtilegar stundir sem við áttum með foreldrum okkar í Skógarlundi þar sem oft var slegið upp grillveislum með stuttum fyrirvara og allir kallaðir inn með börnum sínum. Þar var oft grillað lambalæri í holu í jörðinni.

Ófá ferðalög um landið þar sem við nutum leiðsagnar Gamla og mömmu, þau voru hafsjór af fróðleik og sögum í hverju héraði.

Á langri og viðburðaríkri ævi þar sem framþróunin var mikil safnaðist mikil viska og fróðleikur upp hjá honum og var sama hvaða spurningar komu upp í samræðum við hann, hann hafði alltaf mikið fram að færa og var ráðagóður, var með gott minni og gat rifjað upp hluti sem gerðust frá barnæsku hans og fram á okkar daga.

Það hafa verið forréttindi að njóta samvista við hann svo lengi.

Hvíl í friði, Gamli minn.

Björn Karlsson (Brasi)

Svanhildur Þórarinsdóttir.