[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefanía Valdís Stefánsdóttir fæddist í Bót í Hróarstungu austur á Fljótsdalshéraði á hvítasunnudag 25. maí 1942.

Stefanía Valdís Stefánsdóttir fæddist í Bót í Hróarstungu austur á Fljótsdalshéraði á hvítasunnudag 25. maí 1942. Stefanía bjó fyrstu fimm ár ævinnar í Bót en þá fluttu foreldrar hennar með börn sín í Egilsstaði, þar sem þau byggðu húsið Birkihlíð sem var meðal fyrstu húsa sem byggð voru á svæðinu. Fjölskyldan fluttist þó aftur um tíma í sveitina eftir að hafa ráðist í að byggja nýbýlið Flúðir í Bótarlandi.

Í sveitinni var farskóli og skiptust bæirnir á að hafa skólann einn mánuð í senn. Stefanía var því aðeins tíu ára þegar hún var fyrst send að heiman til náms. Þrettán ára var hún svo send í Eiðaskóla í tvo vetur, en þriðja veturinn dvaldi hún hjá systur sinni í Vestmannaeyjum og lauk landsprófi árið 1958. Eftir vetrardvölina í Vestmannaeyjum lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri þar sem Stefanía innritaðist um haustið og lauk stúdentsprófi árið 1962. Nú eru nýstúdentar að útskrifast víða um land en svona lýsir Stefanía sínum fyrstu kynnum sínum af MA:

„Það var komið haust árið 1958. Nokkur ungmenni af Austurlandi voru að búa sig til ferðar norður á Akureyri til vetursetu. Brottfarardaginn var veður einstaklega fallegt og rútan fararskjóti okkar beið við Símstöðina á Egilsstöðum. Foreldrar og litli bróðir voru kvödd og lagt var á stað út í óvissuna. Hnútur í maga og blanda af tilhlökkun og eftirvæntingu í huganum. Gaman var að hitta félagana og brátt tók gleðin og spenningurinn við af áhrifum kveðjustundarinnar og kvíðatilfinningu í maganum. Reyndir norðanmenn sem voru að fara í 4. bekk voru líka í rútunni. Þeir báru sig borginmannlega og sögðu okkur busunum sögur úr skólalífinu og við hverju við mætti búast. Mikið var sungið á leiðinni og nú voru það stúdentalögin sem sungin voru og ég ekki verulega vel heima í þeim, en þótti mikið til koma. Fegurð landslagsins í haustblíðunni fangaði ung hjörtun og jók á stemninguna og ferðalagið varð eins konar vígsla inn í það sem koma skyldi.

Ég man enn útsýnið af Vaðlaheiðarbrúninni yfir spegilsléttan Eyjafjörðinn og ekki skýhnoðri á himni. Sjaldan hefur Eyjafjörðurinn birst mér fegurri en þetta septembersíðdegi haustið 1958 og Akureyri blasti við eins og draumaborg í síðdegisskini haustsólarinnar.

Keyrt var beint upp í vist, rútan affermd og haldið á fund skólameistara, Þórarins Björnssonar. Hann tók okkur opnum örmum, spurði til nafns og hvaðan við kæmum. Hann vissi að ég var Snævarr en skólinn hafði fóstrað þrjá móðurbræður mína og afi minn og hann voru kunnugir. Ég naut þeirra allra held ég í samskiptum mínum við skólameistara eftir þennan fyrsta fund okkar og hann var mér eins og flestum ákaflega góður og svo mjög að við dáðum hann framar öðrum mönnum.

En snúum okkur að þessum fyrstu dögum í MA. Skólinn fór hægt að af stað, rétt eins og oftast gerist í byrjun skólaárs. Ég man eftir bæjarferðum með vinkonum, setu á kaffihúsum þar sem ég var kynnt fyrir 4. bekkingum vinum og helstu menningarvitum en það voru fyrst og fremst þeir sem sátu á kaffihúsum í þann tíð.

Það er erfitt að lýsa þeim hughrifum sem fylgdu því að vera komin í Menntaskólann á Akureyri og ganga inn í þetta samfélag menningar, lærdóms og nýrra félagstengsla, þar sem stúdentsefnin gengu um ganga á meðal okkar busanna og þeir jafnvel töluðu við okkur þegar best lét! Virðingin fyrir þeim var óblandin og upphafin og ógerningur að setja sig í þau spor að kannske ættum við eftir að standa í þeirra sporum og verða 6. bekkingar þegar tímar liðu fram, en fjögur ár voru eilífðin sjálf í okkar augum. Í þjóðfélaginu var almennt litið mjög upp til stúdenta á þessum árum og þeir áttu að vita næstum allt. Ég þekkti þá aðallega af útihátíðum í Hallormstaða- og Egilsstaðaskógi þar sem nýstúdentar gengu um götur og stíga með hvítu húfuna á höfði, báru sig vel og horfðu hátt og voru öðruvísi en allir aðrir. Ég mændi á þá í hrifningu og gat ekki ímyndað mér að ég ætti eftir að tilheyra svona hópi.“

Stefanía giftist skólabróður sínum úr MA, Skúla G. Johnsen, árið 1962. Stefanía og Skúli fluttust til Reykjavíkur eftir menntaskóla þar sem hann settist á skólabekk við læknadeild Háskóla Íslands en hún vann fyrir fjölskyldunni sem gjaldkeri í Aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti 1962-1968. Þau hjónin fluttust austur á land eftir kandídatsár Skúla er hann tók við embætti héraðslæknis á Vopnafirði. Stefanía sagði þá upp starfi sínu í Landsbankanum og varð sjálfkrafa læknisfrú í plássinu. Þau hjónin fluttust búferlum til Edinborgar í Skotlandi árið 1972, þar sem Skúli lauk framhaldsnámi í lýðheilsufræðum árið 1973. Stefanía vann innan heimilis allt til ársins 1984 er hún sjálf settist á skólabekk í Kennaraháskóla Íslands og lauk þaðan B.Ed.-prófi árið 1987 og M.Ed.-prófi frá sama skóla árið 2005.

Stefanía starfaði við aðaláhugamál sitt, heimilisrekstur og matreiðslu, sem samferðamenn hennar hafa ríkulega notið, en hún kenndi heimilisfræði við Ölduselsskóla í Reykjavík frá árinu 1987-1993, og í Fellaskóla 1990-1993. Hún tók við stöðu aðjúnkts og síðar lektors í heimilisfræðum við Kennaraháskóla Íslands þar sem hún starfaði uns hún lét af störfum sökum aldurs árið 2010. Matreiðslubók Stefaníu „Eldað í dagsins önn“ var gefin út af JPV bókaútgáfu árið 2007. Stefanía hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina en hún hefur verið mikill talsmaður öflugrar verkmenntakennslu á öllum skólastigum og sat m.a. í stjórn hússtjórnarkennarafélags Íslands og skólastjórn Borgarholtsskóla um árabil. Stefanía verður að heiman á afmælisdaginn.

Fjölskylda

Eiginmaður Stefaníu var Skúli G. Johnsen, f. 30.9. 1941, d. 8.9. 2001, borgarlæknir og síðar héraðslæknir í Reykjavík. Foreldrar Skúla voru hjónin Baldur Johnsen, f. 22.10. 1910, d. 7.2. 2006, læknir við Ísafjarðardjúp, í Vestmannaeyjum og Reykjavík, síðar forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og Jóhanna Jóhannsdóttir Johnsen, f. 28.10. 1908, d. 8.10. 1996, söngkennari og konsertsöngkona í Reykjavík.

Börn Stefaníu og Skúla eru 1) Baldur Johnsen, f. 25.11. 1963, tölvunarfræðingur búsettur í Noregi. Maki: Darla Serafina jógakennari. Börn Baldurs eru Tryggvi, f. 1993, og Stefanía Snædís, f. 1995; 2) Valdemar Johnsen, f. 5.12. 1968, lögmaður, búsettur í Garðabæ. Maki: Sigríður Nanna Gunnarsdóttir listfræðingur. Börn Valdemars eru Skúli Þór, f. 1989, Vera, f. 2006, Vigdís, f. 2009, og Saga, f. 2009; 3) Guðrún Johnsen, f. 5.4. 1973, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Maki: Þórarinn R. Einarsson verkfræðingur. Dætur þeirra eru Valdís Anna, f. 2007, og Sólveig Lára, f. 2011.

Systkini Stefaníu: Birna Helga Stefánsdóttir, f. 13.11. 1935, fv. fulltrúi hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, búsett í Kópavogi; Pétur Stefánsson, f. 23.3. 1939, verkfræðingur, búsettur í Garðabæ; Gunnsteinn Stefánsson, f. 13.6. 1947, d. 1.3. 2019, heimilislæknir, bjó í Hafnarfirði; Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir, f. 24.11. 1953, d. 11.6. 1954.

Foreldrar Stefaníu voru hjónin Stefán Pétursson, f. 22.11. 1908, d. 1.3. 1992, vörubílstjóri og smiður á Egilsstöðum og í Reykjavík, og Laufey G.V. Snævarr, f. 31.10. 1911, d. 9.11. 2002, húsfreyja á Egilsstöðum og í Reykjavík.