Jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum orsakast af landrisinu undir Svartsengi. Ekki er þó hægt að fullyrða hvort landrisið stafi af kviku eða kvikugasi, að sögn Ólafs G. Flóvens, jarðaeðlisfræðings og fyrrverandi forstjóra Íslenskra orkurannsókna.
„Við teljum okkur hafa mjög sterkar sannanir fyrir því að þetta hafi verið gas að langmestu eða öllu leyti sem olli landrisinu árið 2020, það sama þarf þó ekki að gilda núna.“
Skjálftarnir ekki skaðlegir
„Þessir skjálftar eru bara pirrandi fyrir íbúa en ekki skaðlegir. Raunverulega ógnin er fyrst og fremst eldgosið, þá er spurning hvar það kemur upp og svo hvert hraunið gæti runnið.“Ótvírætt er að kvikusöfnun einhvers staðar undir Reykjanesinu veldur landrisinu. Á fimmtán til tuttugu kílómetra dýpi undir Fagradalsfjalli er að eiga sér stað kvikusöfnun og gas frá henni gæti verið að leita upp í áttina að Svartsengi. Þá er einnig mögulegt að það sé hluti af kvikunni, en ekki bara gasið, sem leiti upp undir Svartsengi og valdi þar landrisi. „Allt eru þetta hættumerki.“
Veruleg hætta á eldgosi
Til þess að eldgos verði þarf kviku og plötuhreyfingar, sem opna leiðina fyrir kvikunni. Jarpskorpan þarf þá að gliðna á plötumótunum þar sem kvikan er fyrir neðan, að sögn Ólafs.„Við vitum að þarna er leið, að minnsta kosti fyrir gas, undir jarðhitakerfinu, svo það er vissulega hætta á eldgosi þarna og sú hætta er eflaust veruleg því eitthvað er þessi kvika að leita.“
Ef hraun kemur upp á óheppilegum stað er Grindavíkurbær í verulegri hættu, að sögn Ólafs. Hann bendir á að Grindavík sé reist á ungu hrauni.
Stöðugt innflæði
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir litlar breytingar hafa orðið á stöðunni á Reykjanesinu undanfarna viku. Skjálftavirkni hefur dregist aðeins saman en þenslan haldist nokkuð jöfn. Veðurstofan notar GPS og gervitunglamyndir til þess að fylgjast með þenslunni, en nýjar gervitunglamyndir berast ekki jafn ört. „Eins og er virðist vera stöðugt innflæði en ekki miklar breytingar.“Sviðsmyndirnar sem Veðurstofan vinnur eftir núna sýna eins konar syllu á fjögurra til sex kílómetra dýpi.
Smyrst út eins og pönnukaka
„Þetta smyrst út lárétt þannig og myndar eins konar pönnuköku undir yfirborðinu.“Hún segir þessa hegðun mögulegrar kviku frábrugðna þeirri sem var í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli, þar sem kvikan hafi safnast saman á rönd.
Þessi útbreiðsla er þó hvorki óeðlileg, né til þess fallin að hægt sé að draga af henni ályktun um minni eða meiri líkur á eldgosi. „Þetta er bara annars eðlis,“ segir Sigríður.
„Það er spurning hvort þetta finni sér leið upp á yfirborðið eftir einhverjum göngum, það er ekki hægt að útiloka það.“
thorab@mbl.is