Flugkappar Nebojsa Marijan og Kristinn Elvar Gunnarsson, til hægri, við Twin-Otter Norlandair á Þórshöfn.
Flugkappar Nebojsa Marijan og Kristinn Elvar Gunnarsson, til hægri, við Twin-Otter Norlandair á Þórshöfn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Eftir flugtak til norðurs frá Akureyrarflugvelli er tekið bratt klifur til norðurs og yfir Pollinn. Kominn í 2.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Eftir flugtak til norðurs frá Akureyrarflugvelli er tekið bratt klifur til norðurs og yfir Pollinn. Kominn í 2.600 feta hæð beygir flugstjórinn vélinni, Twin Otter TF POF , til hægri og setur stefnuna á Vaðlaheiði. Hér blasa við Svalbarðaströnd og Eyjafjarðarsveit og þegar komið er yfir háheiðina sést inn Fnjóskadal. Vor er í Vaglaskógi, eins og ort var forðum, og allt orðið grænt. Í innstu dölum er hins vegar snjór yfir og raunar svo langt sem augað eygir inn á öræfin. En eins og gjarnan gerist á vordögum er loftið tært og sólargeislarnir sterkir. Þegar svo er flogið rétt sunnan við Mývatn í 9.000 fetum sést Herðubreið, drottning íslenskra fjalla með hvíta húfu sem fer henni ósköp vel.

Fimm daga í viku

Norlandair heldur uppi reglulegum ferðum frá Akureyri til Vopnafjarðar og Þórshafnar með flugi fimm daga vikunnar. Flugið er ríkisstyrkt og þarf að vera; loftbrúin er mikilvæg fyrir afskekkt svæði.

„Þetta er skemmtileg flugleið og ég hlakka til hverrar ferðar. Oft getur flug hérna þó verið krefjandi á veturna, þegar allra veðra er von. En einmitt í slíkum ögrunum felast töfrarnir við innanlandsflugið og þjónustu við dreifbýlið,“ segir Kristinn Elvar Gunnarsson flugstjóri. Hann hefur starfað hjá Norlandair frá 2007 og er kominn með þúsundir flugtíma á Twin Otter og King Air; vélunum sem félagið er með í útgerð.

„Twin Otter er sterkbyggð vél og traust. Hentar vel til dæmis í Þríhyrningnum eins og við köllum þessa áætlunarrútu á norðausturhorninu,“ segir Kristinn flugstjóri sem – kominn yfir Hólsfjöll – lækkar flugið. Rennir niður í Vopnafjörðinn sem fagurblá Hofsá klýfur endilangan.

Á langri lokastefnu

Í sjónflugi á langri lokastefnu að Vopnafirði er stefnan sett á braut 04, rennt mjúklega inn á braut og ekið að flugstöðinni. Vaskir Vopnfirðingar afgreiða flugvélina og eru snöggir. Þetta er fljótgert, að frátöldum blaðamanni er aðeins einn farþegi og fraktin ekki mikil. Moggi dagsins er í pakka og blaðberinn inni í þorpi, þess albúinn að byrja dreifingu.

Eftir stopp í svo sem stundarfjórðung er farið aftur í loftið og nú heldur flugmaðurinn Nebojsa Marijan um stýrið. Flogið er út fjörðinn, yfir Vopnafjarðarkauptún á Kolbeinstanga og svo til norðurs. Inn til landsins sjást hér Syðri- og Ytri-Hágangur; systurfjöllin tvö inni á heiðum sem bæði eru vel yfir 900 metra há.

Fjall í bómull

Norðar er Gunnólfsvíkurfjall; himinhátt og hömrum girt. Ský líkust bómull umvefja fjallið þegar við fljúgum fram hjá því – og mannvirkin vekja athygli. Þarna er ratsjárstöð, reist af NATO og rekin af Landhelgisgæslunni. Í gegnum hana er fylgst með ferðum herskipa og flugvéla við landið. Á Íslandi eru fjórar svona stöðvar, hver á sínu horni þess. Frá Langanesströnd er einmitt gott færi til þess fylgjast með því sem gerist á Norður-Íshafinu. Þar eru kyrr kjör sem sakir standa, en hvað verður. Allur varinn er góður.

Þórshöfn: flugbrautin er á heiðinni rétt fyrir ofan kauptúnið. Flugmennirnir eru kátir og spjallið er tekið. Tveir farþegar koma um borð og fljótlega er farið aftur í loftið. Farið yfr Öræfin, Ásbyrgi, Kelduhverfi, Þeistareyki og Aðaldal.

Þurfum að lesa í landið

„Á veturna þurfum við oft að fljúga um þetta svæði eftir GPS-punktum og taka mið af ýmsum kennileitum og aðstæðum. Pæla í veðurfræði og lesa í landið sem getur reyndar verið mjög gaman. Núna á fallegum léttskýjuðum vordegi er þetta eins og draumur,“ segir Kristinn Elvar á stíminu til Akureyrar. Rétt lent fyrir klukkan ellefu að morgni eftir tveggja tíma túr og flug yfir fjöll og firnindi.

Samgöngumálin séu í lagi

„Flugsamgöngurnar eru okkar sem búum á Langanesi mjög mikilvægar,“ segir Sólrún Arney Siggeirsdóttir. Hún er frá Þórshöfn og var meðal farþega í flugi þaðan til Akureyrar í síðustu viku. Norlandair flýgur á NA-hornið að morgni á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum. Ferðir á föstudögum og sunnudögum eru síðdegis og slíkt þykir koma vel út. Í því sambandi bendir Sólrún á að þá geti fólk til dæmis farið í flug á NA-hornið eftir vinnu á föstudegi og komist aftur til baka í helgarlok. Nái með því nánast allri helginni á viðkomustað sínum og komist aftur til baka áður en ný vinnuvika hefst. Þá taki flugið aðeins um hálftíma og feli í sér þægindi og tímasparnað. Hins vegar taki akstur til dæmis milli Þórshafnar og Akureyrar fast að þrjár klukkustundir, en vegalengdin þarna á milli eru 234 kílómetrar.

„Fyrirtækin á Þórshöfn nýta sér flugið talsvert til að fá nauðsynlegar sendingar. Einnig er þetta mikilvægt fyrir til dæmis unglinga sem eru í skóla á Akureyri,“ segir Sólrún Arney. Síðustu tvö árin hefur hún verið með annan fótinn í Reykjavík hvar hún nemur ljósmóðurfræði og er í starfsnámi á Landspítala. Stefnir hins vegar á búsetu á Þórshöfn.

„Minn vettvangur er heilbrigðisþjónustan. Þótt mörgu þar megi sinna í héraði, þurfa samgöngur að vera í lagi ef sækja þarf frekari hjálp á stóru sjúkrahúsin,“ segir Sólrún.