Elon Musk
Elon Musk — AFP
Hluthafar Twitter saka milljarðamæringin Elon Musk um að hafa ekki upplýst með réttum hætti um kaup sín á stórum hlut í samfélagsmiðlinum.

Hluthafar Twitter saka milljarðamæringin Elon Musk um að hafa ekki upplýst með réttum hætti um kaup sín á stórum hlut í samfélagsmiðlinum. Hafa þeir höfðað mál gegn Musk í Kaliforníu og segja hann hafa hagnast um 156 milljónir dala með því að greina ekki strax frá því þegar eignarhlutur hans í félaginu fór yfir 5%.

Það kom mörgum á óvart þegar Musk tilkynnti snemma í apríl að hann hefði eignast 9,2% hlut í Twitter og hyggðist taka sæti í stjórn félagsins. Skömmu síðar bætti hann um betur og gerði yfirtökutilboð í félagið, og hefur síðan þá þurft að glíma við bæði stjórn Twitter og misánægða hluthafa.

Kveða bandarísk lög á um að þegar aðili eignast meira en 5% hlut í félagi á markaði verði að tilkynna það til verðbréfaeftirlitsins innan tiltekins tímafrests. Má telja sennilegt að slík tilkynning frá Musk hefði leitt til hækkunar á verði hlutabréfa Twitter og saka málshöfðendur hann um markaðsmisnotkun þar eð hann hélt áfram að stækka hlut sinn í félaginu á verði sem var lægra en það hefði ella verið.

Yfirtökutilboð Musks er í biðstöðu eins og stendur og vill Musk að stjórn Twitter færi sönnur á hversu hátt hlutfall skráðra notenda eru manneskjur af holdi og blóði en talið er að fjölda notendareikninga á samfélagsmiðlinum sé stýrt af forritum .

Hefur yfirtökutilboðið ekki farið vel í hluthafa rafbílaframleiðandans Tesla, sem Musk stofnaði og stýrir. Hefur hlutabréfaverð Tesla lækkað um 25% frá því greint var frá yfirtökutilboðinu. ai@mbl.is