Í Loðmundarfirði Koberling sáttur við lífið á sínum uppáhaldsstað á Íslandi, Loðmundarfirði á norðanverðum Austfjörðum. Myndin var tekin árið 2003.
Í Loðmundarfirði Koberling sáttur við lífið á sínum uppáhaldsstað á Íslandi, Loðmundarfirði á norðanverðum Austfjörðum. Myndin var tekin árið 2003. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling er móður og másandi þegar blaðamaður hringir í hann um miðjan dag vegna sýningar hans í Berg Contemporary sem opnuð verður á morgun, laugardag.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Þýski myndlistarmaðurinn Bernd Koberling er móður og másandi þegar blaðamaður hringir í hann um miðjan dag vegna sýningar hans í Berg Contemporary sem opnuð verður á morgun, laugardag. Hann segist á leið upp margar hæðir í húsi einu í Berlín að skoða verk ungs myndlistarmanns. Spyr hvort blaðamaður geti hringt eftir klukkustund og það er auðvitað sjálfsagt. Þegar hringt er klukkustund síðar er Koberling á leið inn í lyftu, að fara upp á vinnustofu sína. Þarf að frestaviðtali um nokkrar mínútur þar sem lyftur eru ekki góður staður fyrir farsímasamband.

Þegar svo loksins gefst friður til viðtals er Koberling kominn með tebolla á vinnustofunni og hinn hressasti að heyra. Hann segist við góða heilsu en þó eiga erfitt með að veita viðtöl þegar hann sé að ganga upp margar hæðir, enda að verða 84 ára. Blaðamaður hefur fullan skilning á því.

Besta hreyfingin

Koberling hefur allt frá árinu 1977 vanið komur sínar til Íslands á sumrin og unnið úti í guðsgrænni náttúrunni við vatnslitamálun. „Það er besta stúdíóið fyrir mig,“ segir hann um íslenska náttúru og að ekki sé til betri hreyfing en að vappa um móa með pensla, liti og pappír. Dýrkun sína á norrænni náttúru rekur Koberling aftur til þess er hann var um tvítugt og nam myndlist í Berlín. Fór hann þá í ferðalag um nyrsta hluta Svíþjóðar og heillaðist af náttúrunni og birtunni þar. Hann segist líka allt frá fjögurra ára aldri hafa haft dálæti á stangveiði og komist að því, sér til ómældrar ánægju, að nóg væri af ám, vötnum og fiski í þessum hluta heimsins. Seinna lá leiðin til Noregs og loks til Íslands. Má þakka Dieter Roth það að Koberling fór í sína fyrstu ferð til Íslands og hélt með syni Roth, Birni, til Loðmundarfjarðar. Hefur hann upp frá því unnið til skiptis í firðinum og Berlín og fær aldrei nóg af hinu íslenska sumri.

Kemur með innblásturinn

Koberling segir náttúruna aðalþema verka sinna og ítrekar að hann sé ekki að myndgera einhverjar fyrirfram ákveðnar hugmyndir. Hann fylgi ákveðnum fagurfræðilegum siðareglum og innri áttavita í listsköpun sinni. „Ég er oft spurður hvort ég fari til Íslands til að fá innblástur og af því ég hef gaman af því að ögra dálítið og gaman af þversögnum svara ég að nei, ég sé ekki í leit að innblæstri á Íslandi heldur komi ég með innblásturinn með mér,“ segir Koberling kíminn. „Á hverju ári upplifi ég eitthvað nýtt og innblásturinn sem ég kem með blandast við nýja innblásturinn sem ég fæ á Íslandi. Upp úr því sprettur eitthvað nýtt sem kemur mér mjög á óvart,“ segir Koberling. Hann segir gróðurinn breytast ár frá ári í Loðmundarfirði, stundum sé blár litur bláklukknanna meira áberandi, til dæmis.

„Kannski þróast einhverjir litir innra með mér og ég fer þess vegna að taka eftir þeim í raunveruleikanum. Við sjáum í rauninni aðeins það sem við erum að hugsa og ímyndum okkur,“ segir Koberling heimspekilegur og bendir á að innblástur sé mun flóknari en svo að hann komi bara utan frá. Innblásturinn komi líka að innan og best sé þegar jafnvægi náist þarna á milli, milli þess innra og ytra.