Ívar Sigurður Þorsteinsson fæddist 7. desember 1944 í Reykjavík. Hann lést 11. maí 2022.

Ívar var sonur Þorsteins S. Sigurðssonar, f. 15. maí 1914, d. 18. maí 1997, læknis á Djúpavogi og Egilsstöðum, og konu hans Friðbjargar Sigurðardóttur, f. 23. október, d. 28. apríl 1986. Bræður Ívars eru Þórhallur, Jón Sigurður, Þorsteinn Hróar og Finnur.

Eiginkona hans er Sesselja Þórðardóttir, f. 1947, og börn þeirra eru: Þórður, f. 1968, Þorsteinn, f. 1971, d. 1988, andvana stúlka, f. 1978, og Eyþór, f. 1981. Barnabörnin eru fjögur: Sóley og Sesselja Þórðardætur og Saga og Eydís Þula Eyþórsdætur.

Ívar var stúdent frá MA 1966 og rafmagnsverkfræðingur frá Brighton Polytechnic, Englandi, 1970. Hann starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1970-1999 og Orkuveitu Reykjavíkur 1999-2003. Sérfræðingur hjá Orkustofnun 2003-2011 og sjálfstætt starfandi 2011-2013. Auk ýmissa nefndarstarfa var hann í orðanefnd rafmagnsverkfræðingadeildar VFÍ 1974-2019 og félagi í Oddfellow-reglunni Þormóði goða frá 1988.

Ívar verður kvaddur frá Seljakirkju í dag, 27. maí 2022, klukkan 13.

Við Ívar hittumst fyrst í heimavist Menntaskólans á Akureyri haustið 1962. Þarna komu saman unglingar úr öllum áttum, misjafnlega langt komnir í þroska og úr misjöfnum aðstæðum. T.d. ég sveitamaður úr Skagafirði, prestssonur, og Ívar, þorpsbúi frá Egilsstöðum, læknissonur. Þarna urðum við að læra að fóta okkur fjarri foreldrum, strauja skyrtur og þvo sokka. Við þessar aðstæður myndast misjafnlega góð kynni og menn „grúppast“ saman. Við Ívar lentum saman í slíkum hópi. Þarna urðu til kynni sem héldust ævilangt. Það var snemma ljóst að hverju hugur Ívars stefndi. Hann hafði mikinn áhuga á öllu sem að rafmagni laut, bjó til tæki og tól úr engu og hafði gaman af að hrekkja okkur góðlátlega með því að láta okkur snerta og gefa okkur „stuð“. Á menntaskólaárunum kynntist Ívar konunni sem fylgdi honum allt til enda, Sesselju Þórðardóttur, Sellu, frá Sauðanesi, jarðbundnum Húnvetningi.

Að menntaskólaárunum loknum dreifðust menn til allra átta og í samræmi við það minnkuðu samskiptin. Það kom ekki á óvart að Ívar valdi rafmagnið og fór til náms til Englands. Eftir heimkomuna jukust svo samskiptin á ný. Ívar átti hlut í jörðinni Útnyrðingsstöðum á Völlum. Þar komu Ívar og Sella ásamt bræðrum Ívars og mökum upp sælureit með miklum trjágróðri. Var gaman að heimsækja þau þangað.

Í mörg ár mættum við Þórdís í Hryggjarselið í byrjun desember í laufabrauðsgerð. Fundum við Ívar okkur gjarnan tilefni til að hverfa á braut, þegar leið á útskurðinn til þess að sinna einhverjum smáverkum eða fara í heita pottinn í Breiðholtslaug. En þó ekki fyrr en búið var að finna til eldvarnateppið og slökkvitækið. Þegar heim var komið var húsið óbrunnið og hangikjöt og uppstúf á borðum.

Síðustu tvö árin hrakaði heilsu Ívar ört, en hann þjáðist af sjúkdómi sem leiddi til minnisleysis. Í síðasta skipti sem ég heimsótti Ívar spurði ég á minn ónærgætnislega hátt hvort hann vissi hver ég væri. Þá brosti hann kankvíslega og sagði: „Sella var búin að undirbúa mig.“ Daginn eftir hringdi Sella til þess að láta mig vita að Ívar myndi að ég hefði komið í heimsókn. Það gladdi mig. Ívar og Sella urðu fyrir þeirri miklu sorg að missa son sinn, Þorstein, í snjóflóði aðeins sautján ára gamlan. Þorsteinn var mikill efnispiltur eins og hann átti kyn til, útivistar- og fjallamaður. Það var í einni slíkri ferð sem þetta hörmulega slys varð. Hvort þetta hafði einhver áhrif á það sem síðar varð veit ég ekki, en sagt er að öll áföll veiki ónæmiskerfið.

Sella hlúði að Ívari af einstakri umhyggjusemi í veikindum hans, enda kona með mikið jafnaðargeð, raunsæ og glaðvær. Var Ívar heima í Hryggjarseli þar til skömmu fyrir andlátið.

Ívar var einstaklega traustur maður, rólyndur, íhugull og drengur góður. Blessuð sé minning hans. Við Þórdís vottum Sellu, Þórði, Eyþóri og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

Gunnar og Þórdís.

Ötull og traustur eru lýsingarorð sem hæfa vel þessum látna skólabróður. Hann kom haustið 1962 austan af Egilsstöðum til liðs við menntagyðjuna undir Súlnatindi og útskrifaðist í vorsólinni 1966 – í fyrsta hundrað manna stúdentahópnum frá skólanum okkar gamla og góða.

Mynd af okkur, flokknum stóra, tekur heila opnu í Æviskrám MA stúdenta IV. bindi og þar þeir sitja saman Ívar og Jón Sveinsson, námsmenn og grúskarar að austan, sem höfðu alltaf eina skúffu í litla skrifborðinu sínu fyrir tengur og lóðbolta, bjuggu sömuleiðis öll árin í vistinni, öðlingar sem báðir hafa kvatt jarðlífið svo snemma – þykir okkur sem eftir stöndum!

Við Ívar urðum allmiklir embættismenn við nýju setustofuna á Nýjuvistum. Við vorum valdir sem fulltrúar þriðjubekkinga í setustofunefndina ef ég kann enn að nefna hana. Aðalverkefni okkar var að standa kvöldvaktina eina viku í mánuði, hafa umsjón með setustofunni þegar hún var opnuð fyrir okkur MA-inga eftir kvöldmatinn. Við tókum þar spjall, bridgehring, lomberslag eða skák. Þar höfðum við til sölu mjólk á flöskum og gráfíkjustykki, sjálfsagt hefur líka verið gos og súkkulaði á boðstólum. Þurftum svo að ganga um stofuna og þurrka af borðum þegar stofunni var lokað, safna öskubökkum og skola úr þeim tyggi, stubba og pípuösku. Þarna lágu fyrst saman leiðir okkar Ívars, hann bjó á vistinni, ég úti í bæ – og skólameistari lokaði aðaldyrunum stundvíslega kl. 22.45. Þá snerum við bæjarmenn út í rökkurheiminn en vistarmenn fóru að búa sig til náða.

Ég kveð öðlinginn Ívar, fyrrverandi svila og skólabróður – allt frá haustinu 1962 – með Kvöldljóði Hannesar Péturssonar:

Eitthvað er það

sem innstu hnúta bindur

og leysir þá aftur

létt eins og vindur

sem strýkur um þak

á þessum fjallakofa

án þess nokkur heyri

– meðan allir sofa.

Eitthvað er það

sem engin hugsun rúmar

en drýpur þér á augu

sem dögg – þegar húmar.

Ingi Heiðmar Jónsson.

Tryggð og og trúmennska koma mér fyrst í hug þegar ég minnist Ívars Þorsteinssonar rafmagnsverkfræðings og fyrrverandi samstarfsmanns míns hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ívar réðst til Rafmagnsveitunnar 1970 en lauk störfum hjá Orkuveitunni 2003, en Orkuveitan varð til 1999 með sameiningu Rafmagnsveitunnar og Hitaveitunnar. Hann hafði því starfað við rafvæðingu borgarinnar í 33 ár. Árið 2003 réðst hann til Orkustofnunar og vann þar til starfsloka. Ívar var einn af þeim verkfræðingum innan borgarkerfisins sem voru trúir yfirmönnum sínum og þeim verkefnum sem þeim voru falin. Á þessum árum var það talin dyggð að þjóna sínu fyrirtæki sem lengst. Hoppa ekki yfir girðinguna þótt grasið væri grænna hinum megin. Mér finnst að þessi trúnaður starfsmanna eins og Ívars hafi ekki verið metinn af eigendum Rafmagnsveitunnar á þessum árum.

Mannabreytingar voru tíðar og sífellt komu ungir tæknimenn til starfa en þeir stóðu stutt við vegna launa. Það var í höndum þeirra eldri eins og Ívars að halda við þekkingunni innan fyrirtækisins. Það var hans metnaður og yfirmanns hans, Hauks Pálmasonar aðstoðarrafmagnsstjóra. Stefna þeirra var að efla tækniþekkingu og starfsþekkingu innan deilda Rafmagnsveitunnar. Þessu var öðruvísi farið innan annarra veitufyrirtækja borgarinnar þar sem meira var um útboð á verkfræðivinnu og framkvæmdum. Væntanlega hefur Steingrímur Jónsson, fyrsti rafmagnsstjórinn, lagt þessar línur en framsýni hans og verklag mátti lengi sjá í öllum þáttum Rafmagnsveitunnar. Við kveðjum Ívar Þorsteinsson, sem vann sín störf með öryggi að leiðarljósi og án upphrópana eða yfirgangs. Hann var virtur meðal samstarfsmanna sinna. Við Margrét áttum margar góðar stundir með Ívari og Sesselju Þórðardóttur eiginkonu hans, bæði hér heima og á erlendri grundu. Við vottum fjölskyldu Ívars Þorsteinssonar samúð okkar við fráfall hans.

Blessuð sé minning Ívars Þorsteinssonar.

Guðjón

Magnússon.

Við hittum Ívar fyrst í MA haustið 1962. Við vorum á heimavistinni og kynntumst hratt. Ívar kynnti sig vel. Hann tók námið föstum tökum og skilaði góðum árangri með samviskusemi og góðri ástundun. Hann var hógvær í framgöngu en gamansamur með stríðnisglampa í augum og fáir menn hlógu eins innilega og hann. Í menntaskólanum varð til vinátta til lífstíðar og við sem hér setjum saman fátækleg kveðjuorð höfum notið þess að eiga vináttu og trúnað Ívars.

Þarna í MA lágu saman leiðir Ívars og Sellu. Allar götur síðan var hann Ívar hennar Sellu og hún var Sella hans Ívars. Annað aldrei nefnt án þess að hitt væri nefnt í sömu andrá og saman hafa þau leiðst um lífsveginn og samhent smíðað hamingju sína og farsælt líf. Eftir að Ívar lauk námi í rafmagnsverkfræði í Englandi hafa þau hjónin lengst af búið í glæsilegu raðhúsi í Hryggjarseli. Heimilið er fallegur griðareitur og þar býr andi gestrisni og hlýju. Bílskúrinn ekki endilega notaður til að hýsa bíla heldur líka nýttur til smíða og listrænnar sköpunar húsbóndans. Tíminn telur daga sína og tilveran færir gleði og sorgir. Gleðin þökkuð og mótlæti og sorgum mætt með æðruleysi og styrk. Margt ber í hug af löngum kynnum. Ógleymanleg er heimsókn á heimaslóðir Ívars nærri Egilsstöðum þar sem hjónin hafa skapað sér sælureit. Þar var gaman að koma. Sú heimsókn endaði með gönguferð í Stórurð undir Dyrfjöllum sem átti að taka þrjár klukkustundir en endaði í sex.

Sumir í hópnum voru göngulúnir en Ívar og Sella voru þrautþjálfaðir göngugarpar sem hafa haft gönguferðir um fjöll og firnindi að áhugamáli til margra ára. En ferðin sú er eftirminnileg í stórbrotnu og ægifögru umhverfi í glöðum hópi góðra vina.

Í gegnum tíðina hefur samstilltur vinahópur nýtt hvert tilefni til að hittast. Afmæli hafa verið slík tækifæri. Þar var sunginn og fluttur frumsaminn eðalkveðskapur og afmælisbörn mærð og lofuð í hástert og öll auðvitað að verðleikum. Ef slík fyrirhöfn féll niður af einhverjum orsökum mátti búast við kveðju á netinu frá Sellu: „Ívar á afmæli, súpa og meðlæti í Hryggjarselinu, allir velkomnir,“ og í framhaldinu bauð lífið upp á gæsku og gefandi vinafundi.

Næstliðin ár höfum við hist reglulega gömul skólasystkin, án sérstakra tilefna annarra en að eiga stund saman yfir léttum hádegisverði. Nú hefur fækkað um einn í þessum hópi og við söknum vinar í stað.

Ívar var góður drengur í besta skilningi þeirra orða. Framganga hans yfirveguð og stillt. Hann var heilsteyptur maður, næmur og minnugur, viðræðugóður og skemmtilegur. Fundvís á það spaugilega, kankvís, brosmildur og hlýr, í minningunni er hann alltaf brosandi. Hann var hreinskiptinn vinur og traustur.

Eftir greiningu á erfiðum sjúkdómi hrakaði heilsu Ívars hratt. Sella var

kletturinn hans, óbilandi í umhyggju sinni, yfirveguð og sterk og vakti yfir velferð hans og framvindu.

Við kveðjum góðan vin og þökkum yndislega samleið um langa tíð. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sellu okkar, börnum og ástvinum öllum.

Guð blessi minningu Ívars Þorsteinssonar.

Jón og Sigríður,

Guðmundur og Auður,

Ríkharður og Ída,

Gunnar og Þórdís.