Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Pólitík og prestsskapur eru náskyld verkefni. Inntak beggja eru samskipti við fólk, boða málstað og vinna góðum málum í þágu samfélagsins brautargengi,“ segir sr. Magnús Magnússon, prestur og sveitarstjórnarmaður í Húnaþingi vestra. Nú fyrr í vikunni var gengið frá myndun meirihluta í sveitarstjórn þar nyrðra, með samstarfi sjálfstæðismanna og óháðra og svp-lista Framsóknarflokks og framfarasinna. Með samkomulagi sem fyrir liggur verður Magnús formaður byggðaráðs, en á þeim vettvangi eru stóru línurnar í rekstri og framkvæmdum sveitarfélagsins lagðar og helstu ákvarðanir undirbúnar.
Bjarg til að byggja á
Magnús er á heimavelli í Húnaþingi vestra, hvar þau Berglind Guðmundsdóttir kona hans búa á Lækjarbakka í Miðfirði. Sá samastaður þeirra er nýbýli út úr jörðinni Staðarbakka II, þar sem Magnús ólst upp hjá foreldrum sínum og í átta systkina hópi. Staðarbakki er kirkjustaður, en það umhverfi og trúarlegt uppeldi segir Magnús að hafi myndað og mótað viðhorf sín til lífs og tilveru.„Móðir mín heitin, Guðrún Helga Jónsdóttir, las mikið í ritningunni og ól okkur börnin sín upp eftir kristnum boðskap. Þá var faðir minn Magnús Guðmundsson kirkjukórmaður, sóknarnefndarmaður og meðhjálpari og hafði umsjón með Staðarbakkakirkju. Að bera virðingu fyrir skaparanum og frelsaranum kom því nánast af sjálfu sér hjá mér. Ég fann að boðskapur kirkjunnar væri bjarg til að byggja á. Að lesa guðfræði í háskóla lá beint við og markmiðið var þá að fara út í prestsskap,“ segir Magnús.
Eftir próf og vígslu fluttiu Magnús og Berglind Guðmunsdóttir kona hans með börnin sín, sem þá voru tvö, norður á Skagaströnd. Þar sinnti Magnús prestsþjónustu frá aldamótum fram til 2005. Þá lá leiðin í Ólafsvík til starfa og þjónustu í fimm ár en þegar brauð losnaði á heimaslóðum Magnúsar í Húnaþingi vestra fannst honum einboðið að sækja um starfið og fékk. Fyrstu tvö árin bjó fjölskyldan á Hvammstanga en flutti síðan að Lækjarbakka hvar þau stunda hrossabúskap meðfram öðru.
Stór verkefni sveitarfélags
„Úti á landi hefur kirkjan gjarnan mikið hlutverk og er held ég nær fólkinu en gerist á höfuðborgarsvæðinu. Hér er góður byr með boðskapnum og langflestir íbúar eru skráðir í þjóðkirkjuna. Oft eru líka góð tengsl milli safnaðar og prests, sem þarf þó að vera sýnilegur og virkur þátttakandi í samfélagi fólksins. Þannig hef ég valið að starfa og finnst mikilvægt,“ segir Magnús sem fyrst var kjörinn í sveitarstjórn Húnaþings vestra árið 2018. Var svo endurkjörinn á dögunum og hlakkar til verkefna þeirra sem bíða á næstu misserum.„Í kosningnum á dögunum fékk Framsókn þrjá fulltrúa og við Sjálfstæðismenn tvo. Þetta er öflugur aukinn meirihluti sem þarf mörgu að sinna,“ segir Magnús. Á síðasta kjörtímabili voru stækkun grunnskólabygginga á Hvammstanga stærsta verkefni sveitarfélagsins ásamt endurnýjun hitaveitu á Hvammstanga. Kostnaður við þetta var samanlagt um einn milljarður króna svo gæta þarf aðhalds í rekstrinum næstu misserin. Ýmis umfangsminni verkefni eru þó á verkefnalista næstu ára, svo sem lagfæringar á íþróttaaðstöðu, endurbætur í íbúðum aldraðra og skipulagsvinna sem miðar að fjölgun íbúða á Hvammstanga. Einnig þarf að taka slaginn við ríkið um stuðning við ýmis sameiginleg verkefni, svo sem endurbætur á félagsheimili, þrífösun rafmagns og endurbætur í vegum.
Á síðustu sex árum fjölgaði íbúum í Húnaþingi vestra úr 1160 í 1230 íbúa sem Magnús segir vera mjög ánægjulegt. Ástæður þessa séu margar.
Landsbyggðin hafi rödd
„Hér eru sterkrir innviðir, að frátöldu tengivegakerfinu. Hins vegar ef við horfum á björtu hliðarnar þá er búið hitaveituvæða þéttbýlið og stóran hluta dreifbýlis. Sama er að segja um þrífösun rafmagns, ljósleiðaravæðingu dreifbýlis lokið og þéttbýlið langt komið. Vel er hlúð að grunnþjónustu, svo sem leik- og grunnskóla og dreifnámsdeild, sterkt kaupfélag, góð og öflug heilbrigðisþjónusta svo fátt eitt sé talið. Síðan eru íbúar sjálfum sér nægir til dæmis með skemmtilegu og fjölbreyttu menningarstarfi. Svo byggðin nái að dafna er þó alltaf mikilvægast að atvinnumálin séu í lagi. Hér um slóðir er landbúnaður mikilvæg undirstaða, grein þar sem ekki verður hjá því komist að gera breytingar svo sem á ýmsum styrkjagreiðslum,“ segir Magnús.„Í stað þess að framleiðslutengja stuðningsgreiðslurnar jafn mikið og gert hefur verið tel ég að í ríkari mæli ætti að tengja styrki við búsetu á lögbýlum. Á þeim jörðum mætti gera svo margt sem styrkir byggð, svo sem fara í skógrækt, akuryrkju og fleira slíkt sem í dag kallast kolefnisbúskapur. Meginmálið er alltaf að tryggja búsetu á jörðum, sem í vaxandi mæli eru keyptar af stórfyrirtækjum sem stefna að ræktun til að ná jafnvægi í sitt græna bókhald. Ég vil að virðing sé borin fyrir fjölskyldubúskapnum bæði í orði og verki, lögum og reglum. Ég vil til að mynda sjá löggjafann taka skýra afstöðu með búsetu- og nytjaskyldu á jörðum. Þetta er grundvallaratriði til þess að sveitir landsins haldist í byggð, þar verði auðugt líf og þróttmikið starf. Fyrir þessu tala ég og berst; landsbyggðin þarf að hafa rödd og ég er í pólitísku starfi af því ég hef hugsjónir fyrir mína byggð.“
Guðhúsin eru 24
Nýlega var sú breyting gerð stofnað var Húnavatnsprestakall sem spannar Vestur-og Austur-Húnavatnssýslur, frá Hrútafirði og norður á Skaga. Þessu svæði sinna prestarnir sr. Bryndís Valbjarnardóttir á Skagaströnd, sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir á Blönduósi og séra Magnús sem verður sóknarprestur og þannig fremstur meðal jafningja. Áður voru öllu fleiri prestar á þessu svæði, en í breyttu samfélagi með aðrar þarfir en forðum er niðurstaðan þessi.„Með góðu skipulagi, samvinnu og réttu hugarfari á þetta fyrirkomulag að geta gengið upp,“ segir Magnús „Samt veit ég vel að á stundum getur þetta orðið krefjandi, því vegalengdirnar eru miklar og guðshúsin að meðtöldum sjúkrahússkapellum í Húnavatnssýslunum báðum eru alls 24. En með góðum vilja ætti allt að takast og markmiðin að nást; að sinna fólki og flytja því góðan boðskap í sorg jafnt sem gleði.“