Enginn stöðvaði hinn átján ára gamla árásarmann, Salvador Ramos, á leið inn í grunnskóla í Uvalde í Texas á þriðjudag, þar sem hann varð nítján börnum og tveimur kennurum að bana, áður en lögreglan skaut hann. Fyrri upplýsingar um að Ramos hafi rekist á öryggisvörð sem stóð fyrir utan skólann, voru þar af leiðandi ekki réttar.
Ramos hafði átt í samskiptum við fimmtán ára stelpu frá Þýskalandi, á samfélagsmiðlum. Hann sagði henni á mánudag frá því að hafa keypt skotfæri og þegar hún innti hann eftir því hvað hann hygðist nota þau í, svaraði hann: „Bíddu bara.“
Ramos hóf daginn á að skjóta ömmu sína. Þá hélt hann út og laskaði bifreið sína, steig út úr henni farþegamegin með riffil í annarri hendi, skaut í átt að tveimur vitnum, áður en hann klifraði yfir girðingu við skólann. Hann skaut í átt að skólanum og gekk svo óhindrað inn um ólæstar dyr, sem alla jafna ættu að vera læstar. Rauk hann þá inn í eina kennslustofuna og hóf skothríð á nemendur og kennara. Vegfarendur sem urðu vitni að skotárásinni hvöttu lögreglu til að fara inn í skólann. Það gerði hún þó ekki um leið. Javier Cazares, sem missti dóttur sína í árásinni, sagðist hafa hlaupið í átt að skólanum þegar hann heyrði af árásinni og var lögreglan enn stödd fyrir utan skólann þegar Cazares kom á vettvang. Hann var í uppnámi yfir því að lögreglan væri ekki á leið inn og velti því upp við nokkra nærstadda hvort þau ættu að taka málin í sínar eigin hendur.