Skírnir Garðarsson
Skírnir Garðarsson
Eftir Skírni Garðarsson: "Sannarlega fékk ég sagógrjón sagði öryrkinn."

Mig langar til að segja ykkur litla sögu af henni Duggu Lísu, öryrkja á sjötugsaldri, sem í töluðum orðum lepur hafrasúpu úr skel, í boði velferðarsamfélagsins.

Kornung gekk hún í öll verk í sveitinni sinni, og lærði að vera heiðarleg og kurteis. Sú kunnátta reyndist henni þó skammvinnur vermir í ólgusjó lífsins.

Hún Dugga Lísa er nefnilega smá öðruvísi en staðalímyndin. Hún fer sínar eigin leiðir og er trú sjálfri sér.

Eftir áralangan starfsferil var henni sagt upp vinnu í fyrirtæki sem hafði ráðið til sín mannauðsstjóra, sem hóf svokallað „hagræðingarferli“, sem bitnaði aðallega á þeim duglegu. Verkefni voru boðin út og starfsfólki fækkað, skorið að beini, eins og sagt var í sveitinni. Arður fyrirtækisins jókst, en gleðin á vinnustaðnum minnkaði.

Dugga Lísa hafði álpast til að verða trúnaðarmaður starfsfólksins nefnilega og hún hafði kvartað undan áreiti yfirmanns sín. Mannauðsstjórinn hafði ráðið sálfræðistofu í að sýkna yfirmanninn, og sálfræðingurinn hafði notað tækifærið til að skrifa skýrslu, sem Dugga Lísa fékk aldrei að sjá, en þar kom fram að hún hefði valdið núningi á vinnustaðnum.

Dugga Lísa sótti um starf í öðru fyrirtæki, en var hafnað, þrátt fyrir góða menntun, ráðinn var unglingur. Dugga Lísa kærði málið og vann, jafnréttislög höfðu verið brotin, en Dugga Lísa fékk samt ekki starfið, í staðinn fékk hún sagógrjónapoka og kaktusplöntu í sárabætur.

Dugga Lísa var orðin þreytt á þessu, lífið var orðið henni erfitt, og fjárhagurinn bágborinn. Hrunið hafði tekið sinn toll, og vefjagigtin hafði versnað. Hún fékk loks vinnu við skúringar og kynntist útlensku starfsfólki sem kenndi henni ýmis trix til að ná endum saman, líf á lágum launum blasti við.

Þetta líf leiddi Duggu Lísu í örorkumat, og nú er hún þar. Öryrki og vansæl sál. Hún á sér allmörg þjáningarsystkini, það get ég fullyrt.

Í kvikmyndinni „Rain man“ er m.a. fjallað um misskiptingu auðs. Ungur maður fær þær fréttir að eldri bróðir hans hafi erft allt eftir föður þeirra, nema blómabeðin í garðinum.

Ungi maðurinn segir að bragði „I definetely got the roses“, og spyrnir við blómabeðinu fæti.

Dugga Lísa sagði mér í símtali um daginn að hún lifði á þessu. „I definetely got the sagó,“ sagði hún.

Dugga Lísa er enn dugleg og heiðarleg kona, en hvernig stendur þá á því að hún í töluðum orðum þarf að elda sér hafrasúpu, í boði velferðarsamfélagsins, sem hún sjálf tók þátt í að byggja upp?

Það er spurning dagsins.

Höfundur er prestur og fv. fjölskylduráðgjafi. skigard@gmail.com

Höf.: Skírni Garðarsson