Sigfús Kristinsson fæddist 27. maí 1932 í Litlu-Sandvík í Flóa, en flutti á fyrsta ári á Selfoss, þar sem hann hefur átt heima síðan. Hann byggði þar eigið hús, að Skólavöllum 3, árið 1955, en festi kaup á húsi Einars heitins Pálssonar bankastjóra að Bankavegi 5 árið 1971 og byggði við það. En það var eitt af fyrstu húsunum á Selfossi og heitir Svalbarð. Húsið var byggt af föður hans árið 1931 og meðan á byggingu þess stóð bjó hann í tjaldi á lóðinni. Sigfús býr enn í þessu húsi.
Sigfús lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1950. Hann lærði trésmíði hjá föður sínum og tók sveinspróf 1954 og öðlaðist meistararéttindi í framhaldinu.
Árið 1961 hóf Sigfús sjálfstæðan atvinnurekstur við byggingastarfsemi á Selfossi og nágrenni, og frá 1997 heitir fyrirtækið Byggingarfélagið Árborg ehf.
Sigfús hefur reist fjölda stórhýsa og íbúðabygginga sem hafa orðið áberandi í bæjarmynd Selfoss og víðar á Suðurlandi, s.s. vöruhús og verkstæðisbyggingar Kaupfélags Árnesinga, Sjúkrahús Suðurlands, Íþróttahús á Laugarvatni, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Laugardælakirkju. Auk þess má nefna m.a. Póst- og símahús á Selfossi, í Hveragerði og á Flúðum, lögreglustöðina á Selfossi, fiskvinnsluhús í Þorlákshöfn og Eyrarbakka, og byggingar Kjöríss í Hveragerði og í Reykjavík.
Segja má að Sigfús hafi verið allt í öllu í eigin rekstri um langt árabil. Fyrirtæki hans óx jafnt og þétt frá stofnun og var með um 50 starfsmenn þegar mest var um 1980 en þá var fyrirtæki hans eitt stærsta verktakafyrirtæki á Suðurlandi. Þá kenndi hann fjölda iðnsveina um árabil en þeir eru nú alls 33 talsins.
Með árunum dró Sigfús úr umsvifum sínum en þrátt fyrir háan aldur er hann þó enn sístarfandi við smíðar. Sigfús var að ljúka smíði torfbæjar á Selfossi, sem jafnframt er teiknaður af honum. Bærinn hefur ytra útlit hins íslenska torfbæjar þar sem grjóthleðsla er við gaflana og torf á þaki, en að innanverðu er bærinn útbúinn nýtískuþægindum. „Torfbærinn hefur vakið mikla lukku fyrir hversu glæsilegur hann er, bæði að utan sem innan. Dóttursonur minn, Benedikt, hjálpaði mér við smíðina. Ég hefði aldrei lagt í þetta ef ég hefði ekki haft hann með mér, en hann er á samningi hjá mér. En hann er einnig að ljúka háskólanámi. Nú er ég byrjaður á 60 fermetra sumarbústað sem ég er að smíða á hlaðinu heima hjá mér.“
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sæmdi Sigfús heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 1. janúar 2018. Sigfús var sæmdur riddarakrossi fyrir framlag til atvinnulífs og iðnmennta í heimabyggð.
Fjölskylda
Sigfús kvæntist 24.10. 1959 Sólveigu Vigdísi Þórðardóttur, f. 18.2. 1935, d. 10.12. 2012, húsmóður. Foreldrar hennar voru hjónin Þórður Jónsson, f. 22.4. 1901, d. 17.4. 2000, bóndi í Sölvholti í Flóa, frá Vorsabæ í Ölfusi, og Þórhildur Vigfúsdóttir, f. 19.3. 1903, d. 4.4. 1989, húsmóðir, frá Þorleifskoti í Flóa.Börn Sigfúsar og Sólveigar eru 1) Aldís, f. 18.3. 1960, byggingarverkfræðingur á Selfossi, sonur hennar er Benedikt Fadel, f. 2000, byggingarverkfræðinemi; 2) Guðjón Þórir, f. 2.1. 1962, byggingarverkfræðingur á Selfossi, kvæntur Guðrúnu Guðbjartsdóttur, efna- og viðskiptafræðingi, en dætur þeirra eru Þórhildur Helga, f. 1992, læknir, sambýlismaður: Hróðmar Helgi Helgason læknir, þeirra dóttir, óskírð, f. 17.4. 2022, og Sólveig Helga, f. 1996, rafmagnsverkfræðingur, sambýlismaður: Arnar Sigurðsson lífefnafræðingur; 3) Kristinn Hafliði, f. 21.9. 1963, húsasmíðameistari á Selfossi; 4) Þórður, f. 2.8. 1972, verkfræðingur í Garðabæ og er sambýliskona hans Selma Jónsdóttir fjármálastjóri en börn þeirra eru Ylja Karen, f. 2003 og Sigfús Ísarr, f. 2006; 5) Sigríður, f. 31.3. 1974, grunnskólakennari í Hveragerði, gift Baldri Guðmundssyni húsasmíðameistara en þeirra börn eru Vigdís Þóra, f. 2000, kennaranemi, Jónína, f. 2002, Helga Guðrún, f. 2006 og Sigurbjörg Marta, f. 2008.
Bræður Sigfúsar voru Guðmundur, f. 31.12. 1930, d. 18.3. 2022, rithöfundur og aðalféhirðir útibús Landsbanka Íslands á Selfossi, og Hafsteinn, f. 11.8. 1933, d. 18.4. 1993, framkvæmdastjóri Kjöríss hf. í Hveragerði.
Foreldrar Sigfúsar voru hjónin Kristinn Vigfússon, f. 7.1. 1893, d. 5.1. 1982, formaður á Eyrarbakka og í Þorkákshöfn, síðan húsasmíðameistari á Selfossi og víðar um land, og Aldís Guðmundsdóttir, f. 24.2. 1902, d. 9.8. 1966, húsfreyja í Árnesi á Selfossi.