Ný gata í Garðabæ Alls 276 íbúðir verða í Eskiási sem er fyrir miðri mynd á þessari teikningu. Fjölbýlishúsið Eskiás 1 er í hægra horninu niðri. Eftirspurnin vitnar um virkan fasteignamarkað þrátt fyrir óvissu og vaxtahækkanir.
Ný gata í Garðabæ Alls 276 íbúðir verða í Eskiási sem er fyrir miðri mynd á þessari teikningu. Fjölbýlishúsið Eskiás 1 er í hægra horninu niðri. Eftirspurnin vitnar um virkan fasteignamarkað þrátt fyrir óvissu og vaxtahækkanir. — Teikning/ONNO
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Forsalan gekk mjög vel. Við tókum tilboðum í 30 íbúðir af 35. Þær sem eftir standa eru komnar í sölu hjá Eignamiðlun og Torg fasteignasölu,“ segir Örn Valdimar Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins Eskiáss, um sölu íbúða í fjölbýlishúsinu Eskiási 1, en félagið byggir húsið.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Forsalan gekk mjög vel. Við tókum tilboðum í 30 íbúðir af 35. Þær sem eftir standa eru komnar í sölu hjá Eignamiðlun og Torg fasteignasölu,“ segir Örn Valdimar Kjartansson, framkvæmdastjóri félagsins Eskiáss, um sölu íbúða í fjölbýlishúsinu Eskiási 1, en félagið byggir húsið.

Eskiás er ný gata í Garðabæ vestan við nýleg fjölbýlishús í Stórási og Lyngási en hún er hér sýnd á mynd. Þar verða 276 íbúðir á níu lóðum/reitum: Eskiási 1-8 og Eskiási 10.

Örn segir ríflega sjö hundruð manns hafa skráð sig á póstlista upp úr áramótum vegna nýju íbúðanna. Mánudaginn í síðustu viku, 16. maí, hafi verið haft samband við þessa aðila og þeim verið boðið að skrá sig á forsölulista vegna mögulegra kaupa á íbúðum.

Yfir 300 á forsölulista

Ríflega 300 manns hafi skráð sig í forsöluna og hafi fasteignasalar í kjölfarið haft samband við fólkið og boðið því að skoða íbúðirnar um síðustu helgi og fram á þriðjudag. Frestur til að skila inn tilboði rann svo út á hádegi á miðvikudag.

Örn segir aðspurður að fleiri en eitt tilboð hafi borist í sumar íbúðanna. Nokkrar hafi selst yfir ásettu verði en söluverðið sé trúnaðarmál. Ásett verð íbúðanna 35 hafi að jafnaði verið frá 60 og upp í 90 milljónir.

„Við erum mjög sáttir við móttökurnar. Garðbæingar sýndu verkefninu mikinn áhuga,“ segir Örn um eftirspurnina.

Áformað er að afhenda íbúðirnar í október.

Spurður hvað skýri þessa miklu eftirspurn nefnir Örn nokkur atriði. Eskiásinn sé vel staðsettur og takmarkað framboð af íbúðum af þessari stærð og á þessu verði í Garðabæ.

Sækjast eftir sérinngangi

Þá höfði það til fólks að allar íbúðirnar hafi sérinngang en það lágmarki rekstur sameignar. Þá sé frá upphafi hugað að tengingum fyrir rafbíla, ásamt því sem við öll húsin verði skjólgóður inngarður.

Ekki er bílakjallari við Eskiásinn heldur eru öll stæði sameiginleg. Þá verða sameiginlegir djúpgámar fyrir sorp við Eskiásinn og er það nýlunda á þessu gróna svæði.

Spurður um næstu áfanga segir Örn að skoðað verði með sölu á Eskiási 3 mögulega í ágúst á þessu ári en þar séu einnig 35 íbúðir enda sé húsið nánast eins og Eskiás 1.