Fyrirliði Karim Benzema hefur farið á kostum í Meistaradeildinni á tímabilinu og skorað 15 mörk í ellefu leikjum.
Fyrirliði Karim Benzema hefur farið á kostum í Meistaradeildinni á tímabilinu og skorað 15 mörk í ellefu leikjum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mitt sjónarhorn Philipp Lahm @philipplahm Þegar Real Madrid tapaði fyrri leiknum gegn París SG í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París hinn 15. febrúar var heimurinn ekki sá sami og hann er í dag. Þegar síðari leikur liðanna fór fram í Madríd höfðu Rússar ráðist inn í Úkraínu. Fótboltinn varð allt í einu smávægilegur í stóra samhenginu. Þeir sem sáu hins vegar Real snúa leiknum og einvíginu sér í vil á ótrúlegan hátt munu aldrei gleyma því.

Mitt sjónarhorn

Philipp Lahm

@philipplahm

Þegar Real Madrid tapaði fyrri leiknum gegn París SG í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París hinn 15. febrúar var heimurinn ekki sá sami og hann er í dag. Þegar síðari leikur liðanna fór fram í Madríd höfðu Rússar ráðist inn í Úkraínu. Fótboltinn varð allt í einu smávægilegur í stóra samhenginu. Þeir sem sáu hins vegar Real snúa leiknum og einvíginu sér í vil á ótrúlegan hátt munu aldrei gleyma því.

Í ár mun úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fara fram í skugga stríðsins í Evrópu. Leikurinn átti upphaflega að fara fram í Pétursborg í Rússlandi en var færður til Parísar í Frakklandi vegna innrásar Rússa sem hafa verið útilokaðir frá alþjóðasamfélaginu. Stríðið sem einræðisherrann Vladimír Pútin fyrirskipaði er að breyta heiminum.

Ófyrirsjáanlegur fótbolti

Real Madrid-liðið hefur veitt fólki bæði innblástur og gleði á þessum erfiðu tímum. Á leið sinni í úrslitaleikinn slógu þeir ríkjandi Evrópumeistara Chelsea úr leik, sem og Englandsmeistara Manchester City. Real Madrid sló ensku liðin úr leik á svipaðan hátt og þeir slógu París SG úr leik. Mótherjar þeirra stjórnuðu leikjunum en eftir að Real Madrid hafði komist yfir erfiðasta hjallann tókst þeim að koma andstæðingum sínum, og knattspyrnuheiminum, á óvart með stórkostlegum augnablikum.

Í einvígi sínu gegn City voru Madrídingar tveimur mörkum undir þegar klukkan sló í 90 mínútur, en tókst samt að vinna einvígið. Endurkoma Real Madrid í þessum leikjum minnti mig á sársaukafullt tap Bayern München gegn Manchester United í úrslitunum árið 1999, og sigur Chelsea á heimavelli Bæjara í úrslitunum 2012, minn persónulegi Waterloo-ósigur. Í ensku úrvalsdeildinni tókst City hins vegar að snúa 0:2 tapi gegn Aston Villa í lokaumferðinni sér í vil á fimm mínútna kafla þar sem þeir skoruðu þrjú mörk og stóðu að endingu uppi sem Englandsmeistarar. Ófyrirsjáanleikinn er einn af þeim þáttum sem gerir fótboltann svo heillandi og töfrandi.

Einn af þeim bestu

Í úrslitunum í ár mætast þrettánfaldir Evrópumeistarar Real Madrid liði Liverpool sem hefur sex sinnum orðið Evrópumeistari. Hvort Real Madrid takist að töfra fram en eitt kraftaverkið verður að koma í ljós en allra augu verða á Karim Benzema. Besti framherji heims í dag stendur fyrir allt það sem Real Madrid snýst um; hæfileikar, snilligáfa, ótrúlegur leikskilningur og sjálfstraust. Hann skoraði þrjú mörk á sautján mínútum gegn París SG. Alls skoraði hann tíu mörk í sex leikjum í útsláttarkeppninni. Hann jafnaði þar með met Cristiano Ronaldo í keppninni þegar kemur að markaskorun og gæti tekið fram úr Portúgalanum í úrslitaleiknum sjálfum.

Mislagðir fætur Benzema utan vallar hafa gert það að verkum að hann er kannski ekki alltaf metinn að verðleikum. Það leikur hins vegar enginn vafi á því að hann er einn af þeim bestu. Hann hefur fjórum sinnum fagnað sigri í Meistaradeildinni. Benzema, ásamt Luka Modric, Casemiro og Toni Kroos (sem vann sinn fyrsta af fjórum titlum með Bayern München), gæti jafnað met Alfrédo di Stefano en Stefano átti stóran þátt í því að búa til þá sigurhefð sem ríkt hefur innan Real Madrid eftir einstaka sigurgöngu félagsins á árunum 1956 til 1960.

Fullkominn fyrir Real Madrid

Agi er eitthvað sem maður tengir ekki beint við Benzema. Til þess að ná því besta út úr leikmanni eins og honum þarf þjálfara sem veit hvað hann er að gera hjá félagi sem alla knattspyrnumenn dreymir um að spila fyrir. Carlo Ancelotti, sem er jafnframt fyrsti þjálfarinn til þess að komast fimm sinnum í úrslit Meistaradeildarinnar, er fullkominn fyrir Real Madrid eins og staðan er í dag. Í seinni leiknum gegn City tók hann þá Kroos, Modric og Casemiro alla af velli á tíu mínútna kafla. Að vita hvenær þú átt að taka jafn ríkjandi leikmenn og þá af velli í svona mikilvægum leik er ekki eitthvað sem þú lærir heldur er það byggt á tilfinningu, tilfinningu fyrir leiknum. Það efaðist heldur enginn um skiptingarnar því leikmenn og starfsliðið treysta Ancelotti fullkomlega.

Stjórstjörnur – það er það sem Real Madrid hefur snúist um í meira en hálfa öld. Samansafn af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar sem koma aðallega frá Spáni og Suður-Ameríku. Af og til koma þeir líka frá Evrópu og þá einna helst frá stærstu knattspyrnuþjóðunum eins og Frakklandi, Englandi, Ítalíu og Þýskalandi. City og sérstaklega París SG hafa reynt að feta í fótspor Real Madrid hvað þetta varðar. Á tíu ára tímabili hefur þeim ekki tekist að leika þetta eftir. Þeir eru enn þá eftirhermur, og Real Madrid, sem missti meira að segja af Kylian Mbappé, er enn þá frumgerðin.

Standa fyrir allt annað

Liverpool stendur fyrir eitthvað allt annað. Þar snúast hlutirnir fyrst og fremst um líkamlegan styrk, hraða, snerpu og sóknarþenkjandi fótbolta. Liverpool spilar eins og flest önnur lið vilja spila. Í úrslitum Evrópudeildarinnar vann Eintracht Frankfurt Glasgow Rangers í leik þar sem ákefðin var mikil hjá báðum liðum. Það kemst hins vegar enginn með tærnar þar sem Liverpool er með hælana þegar kemur að ákefð og spilamennska liðsins er mjög táknræn fyrir iðnaðarborgina sem Liverpool er.

Það er mikil samkennd innan félagsins milli leikmanna liðsins og knattspyrnustjórans Jürgens Klopp. Hann hefur gjörsamlega umbreytt liðinu og hugsunarhættinum innan þess. Þetta sögufræga félag hefur náð vopnum sínum að nýju og stuðningsmenn félagsins hafa fylkt sér á bakvið Klopp og liðið. Eins og öll stórkostleg lið hefur Liverpool þróað með sér ákveðin einkenni sem hefur skilað liðinu í þriðja úrslitaleikinn á fimm árum. Barcelona var meira en klúbbur og Bayern var „mia san mia“. Hjá Liverpool ganga þeir Virgil van Dijk, Trent Alexander-Arnold og Sadio Mané aldrei einir.

Úrslitaleikur í skugga stríðs

„You‘ll never walk alone!“ Liðið er stærra en leikmennirnir. Philippe Coutinho, einn af þeim bestu hjá félaginu á sínum tíma, áttaði sig aldrei á þessu. Hann náði aldrei að stimpla sig inn hjá Barcelona né Bayern München og spilar í dag fyrir Aston Villa. Egyptinn Mohamed Salah varð hins vegar stjórstjarna hjá Liverpool-samfélaginu. Hann ferðaðist í fjóra klukkutíma á dag þegar hann var tólf ára gamall til þess að komast á æfingu. Í dag er hann kominn í frægðarhöll félagsins. Metnaður hans og viðleitni til þess að halda áfram að bæta sig sem leikmaður er það sem Liverpool snýst um. Liverpool og Real Madrid eru hálfgerðar andstæður og það er ein af ástæðum þess að ég get varla beðið eftir þessum úrslitaleik.

Auðvitað mun það reynast mörgum erfitt að njóta leiksins til fullnustu vegna stríðsins í Úkraínu. Stríðið hefur haft miklar afleiðingar í för með sér fyrir alla Evrópu og sérstaklega Úkraínu auðvitað. Í riðlakeppninni tapaði Real Madrid á heimavelli fyrir Sheriff Tiraspol frá Moldóvu. Þjálfari liðsins, Yuri Wernydub, sagði starfi sínu lausu hjá félaginu stuttu fyrir leik liðsins gegn Braga í Evrópudeildinni hinn 24. febrúar. Wernydub lét af störfum til þess að verja heimaland sitt Úkraínu. Fyrir nokkrum mánuðum síðan vann hann frækinn sigur á Santiago Bernabéu í Madríd, en er núna að berjast ásamt samlöndum sínum við víglínuna með byssu í hönd. Fótboltasaga frá árinu 2022.

Pistlar frá Philipp Lahm

Philipp Lahm var fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu þegar það varð heimsmeistari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er mótsstjóri Evrópumóts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistlar hans, „Mitt sjónarhorn“, birtast reglulega í Morgunblaðinu og/eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra þýska netmiðilsins Zeit On-line, og birtast í fjölmiðlum nokkurra Evrópulanda.

Í ellefta pistli sínum í dag fjallar Lahm um úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem Liverpool og Real Madrid mætast á Stade de France í París á morgun.