Magdalena Margrét Sigurðardóttir fæddist 26. september 1934 í Hrísdal í Miklaholtshreppi. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 16. maí 2022.

Foreldrar Magdalenu voru Margrét Oddný Hjörleifsdóttir, húsfreyja í Hrísdal, f. 1899, d. 1985, og Sigurður Kristjánsson, bóndi í Hrísdal, f. 1888, d. 1969. Systkini hennar í aldursröð voru Hjörleifur, Kristján Erlendur, Sigfús, Kristjana Elísabet, Áslaug, Valdimar, Elín Guðrún, Olga, Anna og Ásdís, öll látin nema Elín og Ásdís.

Eiginmaður Magdalenu var Oddur Pétursson, f. 2. júlí 1931, d. 24. maí 2018, frá Grænagarði. Þau gengu í hjónaband í desember 1955 og eignuðust sjö börn: 1) Margrét, f. 1955, d. 2009, maki Jón Ásgeir Sigurðsson, f. 1942, d. 2007. Synir þeirra a) Oddur Björn, f. 1991, maki Ari Logn Yndu, b) Sigurður Árni, f. 1993, maki Brynja B. Reynisdóttir, c) Ragnar Már, f. 1993 d. 1993. 2) Elías, f. 1956, maki Ingibjörg Svavarsdóttir, f. 1959. Börn þeirra a) Albertína, f. 1980, maki Dofri Ólafsson, b) Þórunn Anna, f. 1985, maki Einar H. Hjálmarsson, c) Oddur, f. 1987. 3) Ólöf Björk, f. 1958, maki Valdimar J. Halldórsson, f. 1953. Börn Ólafar a) Magdalena Margrét, f. 1989, maki Baldur Kristjánsson, b) Sigurður Á. Sigurðsson, f. 1991. 4) Haukur, f. 1959, maki Margrét Gunnarsdóttir, f. 1957. Synir þeirra a) Gunnar Pétur, f. 1985, maki Anna R. Ágústsdóttir, b) Albert, f. 1989, maki Sigrún E. Ólafsdóttir. Haukur á börnin c) Richard Odd, f. 1976, og d) Dagnýju, f. 1983. 5) Jóhanna, f. 1961, maki Jón Ólafur Sigurðsson, f. 1945. Dóttir Jóhönnu a) Brynja Huld, f. 1987. Sonur Jóhönnu og Jóns b) Albert, f. 1997, maki Gígja Björnsdóttir. 6) Pétur, f. 1963, maki Sigurlín G. Pétursdóttir, f. 1968. Börn þeirra a) Kristný, f. 1992, maki Unnar M. Sveinbjarnarson, b) Pétur Tryggvi, f. 1999. 7) Sigurður, f. 1971, maki Birna B. Árnadóttir, f. 1970. Dætur Sigurðar a) Lydía, f. 1993, maki Viktor B. Brynjarsson, b) Natalía, f. 1993, maki Hlynur O. Helgason, c) Sigþrúður, f. 2006, og d) Lena Margrét, f. 2009. Langömmubörnin eru 16.

Lena ólst upp í Hrísdal. Þau Oddur kynntust í vegavinnu sumarið 1953. Sama haust hóf Lena nám í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Þau byggðu sér hús á Seljalandsvegi 38 og bjuggu þar frá árinu 1962. Lena var heimavinnandi húsmóðir fram yfir fertugt, en starfaði síðan lengst af við Menntaskólann á Ísafirði sem ritari og síðar gjaldkeri.

Lena var virk í félagsstörfum og gegndi m.a. formennsku í Skógræktarfélagi Ísfirðinga í yfir 30 ár og var formaður stjórnar Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði um tíma. Hún tók þátt í kórstarfi, m.a. með Sunnukórnum. Þá var hún frumkvöðull að stofnun Atkvenna á Vestfjörðum og í forystu Kvenfélagsins Óskar og vann þar að varðveislu sögu kvenna.

Lena tók alla tíð virkan þátt í bæjarpólitík og sat í fjölda nefnda. Þá var hún varaþingmaður Vestfirðinga 1983-1987 fyrir hönd Framsóknarflokksins. Það var fátt sem Lena brann heitar fyrir en málefni kvenna og jafnréttismál, einkum viðurkenning á húsmæðrastarfinu til launa.

Útför Magdalenu verður gerð frá Ísafjarðarkirkju í dag, 27. maí 2022, klukkan 14.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa átt svona góða ömmu og allar fallegu og skemmtilegu minningarnar sem ég hef fengið í gegnum árin. Amma sá alltaf til þess að það væri nóg fyrir stafni þegar maður kom í heimsókn og það veitti mér mikla þekkingu og lærdóm sem ég tek með mér áfram í lífinu og verð ævinlega þakklát fyrir. Amma var alltaf til staðar og fann maður fyrir miklu öryggi að eiga hana að.

Hvíldu í friði elsku amma.

Þín

Lydía.

Nú þegar ég reyni að kalla fram eina minningu til að móta mynd af því sem amma var mér streyma fram óreiðukenndar svipmyndir af mér sem lítilli stelpu og seinna ungri konu umvafin hlýju, öryggi, nánd og djúpri tryggð. Lautarferðir, ferðalög, kaffibollar, skíðafélagstannburstar í glasi, vöfflur með rjóma. Svefnstundir undir berum himni, frændsystkinahópurinn, amma með svuntu, sláturgerð, laufabrauðsgerð, plastkassar fullir af trjáplöntum til gróðursetningar, mold, berjalyng, miðnæturmessur, barnabænir, samtöl um stjórnmál, umhverfismál, heimsmál.

Amma var kvenskörungur, réttsýn, stjórnsöm á einhvern æðislega natinn hátt, klár, forvitin um menn og málefni, hlý, fyndin, frændrækin. Í hvert skipti sem ég lít á hendur mínar hugsa ég til ömmu. Hendurnar hennar sem fæddu og klæddu sjö börn, héldu stórt heimili, saumuðu, elduðu og þrifu, en börðust líka fyrir réttindum og framlagi kvenna, skrifuðu, grúskuðu, gróðursettu tré og veittu hlýju, þerruðu tár og settu plástra á bæði andleg og líkamleg sár þess stóra barnabarnahóps sem hjá henni átti athvarf. Þannig eru sennilega flestir þeir kostir sem mér þykir vænst um í mínu fari, á einhvern hátt ræktaðir fyrir tilstilli ömmu á Seljó; umhyggja fyrir náunganum, samhygð, réttlætiskenndin, og það að sama hversu langt að heiman kona fer eru sumir hlutir þess virði að ferðast þúsundir kílómetra fyrir og þar er fjölskyldan efst á blaði.

Þegar heimsfaraldur skall á og heimurinn fraus lukkaðist mér það að koma heim á Ísafjörð og fékk að vera með ömmu í covid-kúlu fyrstu mánuði faraldursins og verja með henni tíma á hverjum degi. Þegar ég horfi til baka held ég að undirmeðvitund mín hafi vitað að hver einasta stund var stolin, þetta væri tími sem kæmi aldrei aftur og mér þótti vænt um hverja einustu mínútu. Og svo varð. Þetta voru síðustu mánuðir ömmu á Seljalandsvegi 38, í húsinu sem afi byggði fjölskyldunni fyrir 60 árum. Tími sem ég verð að eilífu þakklát fyrir að heimurinn hafi sent mína leið.

Einhvern tíma sátum við amma og afi að drekka kaffi á Seljó að ræða líf þeirra og það hvernig þau kynntust. Afi sagði með tindrandi undrandi augum að hann væri enn oft hissa að amma hefði viljað eiga hann: „Ég er af sauðaþjófum og tófuveiðimönnum af Hornströndum og hún svona klár og glæsileg af stórbændum á Snæfellsnesi.“ En amma sá aldrei neitt annað en skíðakappann með heiðbláu augun og saknaði hans sárt alla daga eftir að hann féll frá. Í dag, réttum fjórum árum eftir að afi kvaddi, kveð ég ömmu Lenu hrygg og vængbrotin yfir mínum missi en sæki huggun í að nú sitji hún loksins í lautarferð á angandi blómabreiðu með Oddi afa.

Guð geymi þig elsku amma mín.

Þín

Brynja Huld.

Lena móðursystir mín var fædd og uppalin í Hrísdal í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.

Að vita af Lenu frænku og Oddi á Ísafirði skipti miklu þegar kom að ákvörðun 16 ára stúlkukindar að sækja um skólavist í Menntaskólanum á Ísafirði. Ævintýraþráin mikil og sjálfstæði fylgdi því að fara að heiman í heimsborgina Ísafjörð sem bauð upp á margt spennandi. Stúlkunni þótti samt sem áður gott að vita af því akkeri sem hjónin á Seljalandsvegi 38 voru henni hvort sem þeim líkaði betur eða verr. Enda kom í ljós að þau virtist ekki muna um að hafa viðloðandi eina stelpuskjátu til viðbótar inn í stóra fjölskyldu.

Það var allt svo stórfenglegt við Lenu frænku og heimilið við fjörðinn fagra. Mikill matur á borðum, soðið niður og sultað, búin til saft, öll matseld frá grunni. Með stóru heimili og öllu sem því fylgdi var hún í Sunnukórnum, rekin var bílaleiga á heimilinu og var hún virkur framsóknarmaður á öllum vígstöðvum. Hin eina og sanna framsóknarmaddama. Unga frænkan í menntaskólanum var meira að segja fengin til að sitja í kjördeild og merkja við hverjir kusu í alþingiskosningunum í desember 1979. Maður sagði ekki nei við Lenu frænku.

Lena frænka var mikil prinsippkona og ósveigjanleg á sumum sviðum. Hún var ekki alltaf hrifin af djammi ungu frænkunnar en umbar það og sagði ekki mikið nema kannski með svipnum. Fyrir öllu var að standa sig í skólanum og mikil hvatning í boði frá þeim hjónum og aldrei dvalið við einhver smáatriði sem skiptu ekki máli.

Þeim Lenu og Oddi fannst ómögulegt að unga frænkan hefði aldrei stigið á skíði fyrir menntaskólagönguna svo farið var í að græja gönguskíði og drösla mér margoft með fjölskyldunni upp á Breiðadalsheiði eða Seljalandsdal. Enda er það staðreynd sem allir á Ísafirði vita, og þó víðar væri leitað, að meðlimir Grænagarðsættarinnar fæðast með gönguskíði á fótunum og tengdum aðilum því nauðsynlegt að taka þátt í því sporti. Berjaferðir í Dýrafjörð eða inn í Skóg tilheyrðu á haustin. Manni var skutlað fram og til baka á Brjánslæk til að taka Baldur heim í Hólminn á vorin og haustin. Í minningunni virtist þetta allt sjálfsagt og aldrei rætt um að hjálpsemin væri fyrirhöfn.

Seinni tvö árin mín í MÍ buðu þau Oddur mér að búa hjá þeim, eitthvað hafði fækkað á heimilinu þegar börnin fóru að heiman til náms. Þar var ótrúlega gott að vera, maður var umvafinn ást og umhyggju og ekki að ræða að fá að borga leigu. Lena töfraði svo fram stúdentsveislu fyrir mig á útskriftardaginn vorið 1981 án þess að nefna það. Það bara gerðist.

Ég er þakklát fyrir Lenu sem var mér sem móðir á miklum mótunarárum í lífi mínu og vonandi hef ég hafi náð að læra eitthvað af kærri frænku og tileinka mér þó ekki væri nema brot af hennar kostum.

Lena dó södd lífdaga og fær nú að sameinast Oddi sínum og Möggu í sumarlandinu. Af systkinunum gjörvilegu frá Hrísdal lifa nú tvær systur, Elín móðir mín og Ásdís. Ég kveð Lenu með þakklæti og söknuði. Börnum hennar og fjölskyldu allri votta ég mína dýpstu samúð.

Þorgerður

Sigurðardóttir.

Enn fækkar í stóra systkinahópnum hennar mömmu. Nú er Lena frænka farin í sitt síðasta ferðalag. Hún kemur úr stórum systkinahóp; systurnar sjö og fjórir bræður. Snæfellsnesið var þeirra heimur og uppeldið heima í Hrísdal fyrir flest þeirra var eins og ævintýrastaður. Þar var svo margt fólk í minni bernskuminningu. Minning mín um herbergi Ellu og Lenu þar sem þær áttu sér samastað og spilað var á gítar af og til. Líf og fjör. Og margir í mat hjá ömmu sem hafði ráð undir rifi hverju við að seðja alla munnana og líka okkur ömmubörn sem sóttum í að koma t.d. í sauðburð og réttir. Lífið sjálft. Lena kom líka inn á bernskuheimilið mitt sem unglingur því gisting á Miklubrautinni var alltaf velkomin. Oftast var verið að sækja sér læknishjálp, fara í kirtlatöku eða annað. Einnig kom amma Margrét til að láta sauma á sig og vitja ættingja því hún var einstaklega ættrækin og vinmörg. Svo líða árin. Lena fer í húsmæðraskóla vestur á Ísafjörð en flestar systurnar fóru í húsmæðraskóla sem var merkilegt að hægt væri þar sem bústofn afa og ömmu var ekki mjög stór. För Lenu á Ísafjörð varð til þess að hún fann sinn lífsförunaut á staðnum og þá varð ekki aftur snúið. Næsta minning er að þau koma suður Lena og Oddur til að gifta sig og fór sú athöfn fram heima hjá presti í Garðastræti. Vottar voru foreldrar mínir og skottið ég fékk að vera með. Þá var Margrét dóttir þeirra á leiðinni. Á þessum árum eru vegir vestur alveg hrein hörmung og því var lítið um að fólk skryppi í heimsóknir og bílar fáir. Það þótti fréttnæmt þegar pabbi kom í heimsókn til Lenu og Odds á sjöunda áratugnum í lögregluvegaeftirliti. En gott samband hélst og munar þar líka um að Oddur kom við á sínum ferðum á skíðamót erlendis. Mamma var líka dugleg að eiga góð samtöl við sitt fólk. Á síðari árum höfum við maðurinn minn náð að tryggja ættarböndin með ferðum á Ísafjörð í ýmsum tilgangi, m.a. í áttræðisafmæli Odds. Ættarmótin hafa líka hjálpað til að halda tengslum. Lena var dugnaðarforkur og átti mörg áhugamál, m.a. skógrækt. Þau Oddur og Lena komu og gistu í Dölunum þegar við vorum að byggja og halda þar brúðkaup. Þau voru líka að hvetja okkur áfram í að planta trjám í landið. Ég mun á föstudaginn 27. maí gróðursetja nokkur Lenutré sem verða tileinkuð minni góðu móðursystur. Sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir og Þórhallur Runólfsson.

Á lífsins leið kynnumst við oftar en ekki fólki, sem er mjög ljúft að umgangast, fólki sem býr yfir fjársjóðum bæði í ræðu og verki. Sá sem hefur lifað lengi og fallega skilur alltaf eftir sig góðar minningar, og þeir sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast slíku fólki eru ríkari á eftir. Magdalena var ein af þessum einstaklingum og við andlát hennar hefur einn þáttur í lífinu orðið fátæklegri en áður. Við sem þekktum hana vitum að með henni hverfur svo margt sem okkur er kært: innsýn í veröld sem var, frásagnir og ýmis handtök, hlýja og virðing. Hún lætur eftir sig spor á lífsins vegi, spor sem við hjón minnumst með virðingu og þökk í dag er við kveðjum Lenu móðursystur mína hinstu kveðju.

Að alast upp í stórum systkinahópi á fyrri hluta 20. aldar hlýtur að hafa verið í senn krefjandi en um leið skemmtilegt. Leikvöllur þessara systkina var Hrísdalur í Miklaholtshreppi sem var þeim svo kær. Foreldrarnir klettar og samstíga í því að koma öllum þessum barnahópi upp til manns þó svo að köld skynsemin hafi orðið foreldraástinni yfirsterkari þegar tvö af börnum þeirra eru send í fóstur á annan bæ, þó ekki langt frá. Bernskan mótar mann fyrir lífstíð og það sem fyrir manni er haft sem barni, hjónin í Hrísdal, afi minn og amma, voru glaðsinna en um leið hyggin. Hjá Lenu var stutt í brosið og hyggin var hún, samstíga komu þau Oddur upp stórum barnahópi og grunngildin voru sönn og góð. Samhent voru þau hjón með eindæmum og ómælda virðingu báru þau hvort fyrir öðru og yfirleitt var það nú þannig að maður nefndi sjaldan annað án hins; þau voru einfaldlega Lena og Oddur á Ísafirði. Mínar fyrstu minningar um Lenu eru þegar þau mætu hjón Oddur og hún komu suður og komu þau þá yfirleitt við hjá foreldrum mínum á Brekku og gjarnan var gist. Það var alltaf tilhlökkun hjá móður minni að fá þau í heimsókn, fá Lenu systur sem bjó svo langt í burtu að henni fannst. Alltaf var systrataugin sterk þó svo kílómetrarnir væru margir á milli, þá kom sjálfvirki síminn sér vel í seinni tíð. Þau voru kannski ekki mjög mörg símtölin sem þær áttu á ári en því lengri voru þau og innihaldsríkari. Það var notalegt að sitja og spjalla við þau hjón Lenu og Odd og þó svo að foreldrar mínir væru farnir frá Brekku þá komu þau hjón við og gistu hjá okkur hjónum eina helgi fyrir allmörgum árum. Það voru góðar kvöldstundir og mikið spjallað. Þegar við hjón komum á Ísafjörð á ferðalögum okkar um Vestfirði var alltaf komið við á Seljalandsveginum. Þangað var alltaf gott að koma.

Hrísdalssystkinin eru miklar fyrirmyndir, hvert á sinn hátt, stórar og eftirminnilegar persónur sem manni getur ekki annað en þótt vænt um og nú er höggið eitt skarðið enn í stóra hópinn. Enn og aftur horfa þær Elín og Ásdís á að það fækki í stóra systkinahópnum sem áður lék sér á kastalanum í Hrísal.

Nú er komið að kveðjustund. Blærinn flytur kveðjur og þakkir fyrir samfylgd.

Blessuð sé minning einstakrar konu, Magdalenu frá Hrísdal.

Þórhildur Þorsteinsdóttir.

Í dag kveðjum við formann okkar, Magdalenu Sigurðardóttur, en fyrir rúmum þrjátíu árum kallaði Lena, eins og hún var ætíð kölluð, saman konur til ráðagerða um atvinnumál kvenna, sem voru henni mjög hugleikin.

Haldin var ráðstefna um þau mál og í kjölfarið stóðu konurnar, með Lenu í fararbroddi, fyrir stofnun Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða ásamt fyrirtækjum og einstaklingum í fjórðungnum.

Atvinnumál kvenna voru Lenu mikið hjartans mál og vildi hún efla konur til þátttöku í margvíslegum störfum.

Við sem störfuðum með henni þessi ár viljum þakka henni samstarfið og sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. AT-kvenna,

Anna Lóa og

Sigurborg.