LSH Landspítalinn við Hringbraut.
LSH Landspítalinn við Hringbraut. — Morgunblaðið/Ómar
Landspítalinn hefur ekki enn brugðist við spurningum og ábendingum sem fram komu í skýrslu umboðsmanns Alþingis sem grundvallaðist á heimsókn umboðsmanns á geðdeild Landspítalans við Hringbraut.

Landspítalinn hefur ekki enn brugðist við spurningum og ábendingum sem fram komu í skýrslu umboðsmanns Alþingis sem grundvallaðist á heimsókn umboðsmanns á geðdeild Landspítalans við Hringbraut.

Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um viðbrögð spítalans við málinu. Þó kemur fram að unnið sé að viðbrögðum spítalans.

Í heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis er ýmsum tilmælum og ábendingum beint til Landspítalans. Til að mynda gaf umboðsmaður Landspítalanum þau tilmæli að gæta þess að verklag og upplýsingagjöf til sjúklinga sem vistast sjálfsviljugir á geðdeild taki mið af réttarstöðu þeirra. Einnig vakti það athygli umboðsmanns hve mikil starfsmannavelta var á deildinni sem leiðir til þess að reynslulítið starfsfólk starfi þar.

Húsnæðið úr sér gengið

Í svari Landspítalans til Morgunblaðsins segir að allar ábendingar og tilmæli frá umboðsmanni Alþingis séu teknar til vandlegrar skoðunar með það í huga að efla þjónustuna við notendur og tryggja enn betur réttindi þeirra, enda er mikil áhersla á viðvarandi umbætur í þjónustunni.

Landspítali segir að ítrekað hafi verið beint tilmælum til stjórnvalda um að bæta lagalega umgjörð þjónustunnar. Þá telur Landspítalinn starfsmannaveltu og manneklu vera vandamál innan spítalans sem og að húsnæðið sé orðið gamalt og úr sér gengið.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að skýrslan sé til umfjöllunar hjá nefndinni.

„Við erum búin að fá kynningu umboðsmanns á henni. Svo höfum við kallað til okkar gesti vegna hennar,“ segir hún og bætir við að nefndin hafi fengið fulltrúa frá Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri til fundar og að verið sé að fá upplýsingar frá þeim sem bera ábyrgð á starfseminni, sem og frá heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytinu.