Sigurður Skagfjörð Bjarnason fæddist 6. september 1947 á Bjargi á Skagaströnd. Hann lést 16. maí 2022 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.

Foreldrar hans voru Bjarni Jóhann Jóhannsson verkamaður á Skagaströnd, f. 22.11. 1900, d. 12.9. 1971, og Rósa Pálsdóttir húsfreyja á Skagaströnd, f. 1.9. 1911, d. 1.5. 2002.

Systkini Sigurðar eru Ánn Jóhann Karl, f. 19.7. 1935, d. 14.9. 2015, Guðrún, f. 28.8. 1936, d. 13.9. 1936, Ingólfur Skagfjörð, f. 24.10. 1938, d. 17.1. 1967, Anna Ingibjörg, f. 18.12. 1939, Ragna Skagfjörð, f. 7.8. 1943, Sævar Skagfjörð, f. 28.7. 1944, og Fritz Magnús, f. 13.10. 1951.

Sigurður kvæntist Sigrúnu Kristínu Lárusdóttur hinn 1. október 1972. Sigrún Kristín fæddist 25.2. 1951 á Fossi á Skaga. Foreldrar hennar voru Lárus Björnsson, f. 3.11. 1918, d. 28.4. 1995, og Svava Steinsdóttir, f. 17.11. 1919, d. 8.12. 2001.

Dætur Sigurðar og Sigrúnar eru: 1) Svava Guðrún, f. 30.5. 1972. Eiginmaður hennar er Halldór Björnsson, f. 9.5. 1974. Þeirra börn eru a) Lárus Björn, f. 8.9. 2002, og b) Sigrún Efemía, f. 16.2. 2005. 2) Inga Lára, f. 28.11. 1973. Eiginmaður hennar er Stefán Ómar Stefánsson, f. 27.10. 1973. Þeirra börn eru a) Sigurður Lárus, f. 10.6. 1998, og b) Rannveig Sigrún, f. 1.8. 2002.

Sigurður fór ungur að heiman í atvinnuleit og fékkst við ýmis störf næstu árin, m.a. vann hann við byggingu Búrfellsvirkjunar og við fiskvinnslu víða um land. Hann sneri aftur heim til Skagastrandar 25 ára gamall og bjó þar á Breiðabliki allt til enda. Sigurður var verkamaður alla tíð og starfaði lengst af sem vélamaður við Rækjuvinnsluna á Skagaströnd. Hann var mikill söngmaður og félagi í kirkjukór Hólaneskirkju um áratugaskeið.

Sigurður verður jarðsunginn frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 27. maí 2022, klukkan 14.

Gott fólk skilur eftir sig góðar minningar og það er margs að minnast þegar við kveðjum pabba.

Pabbi var einstaklega glaðlyndur og jákvæður maður. Hann kunni þá list að gleðjast yfir litlu hlutunum og var fundvís á hamingjuna í hversdagsleikanum. Hann undi sáttur við sitt og fátt veitti honum meiri gleði en velgengni samferðamanna sinna því pabbi öfundaði aldrei nokkurn mann heldur samgladdist öðrum innilega. Eftir því sem árin líða skil ég sífellt betur hvað þetta er fágætur og dýrmætur eiginleiki. Pabbi var okkur mikil fyrirmynd í þessum sem og öðrum efnum.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og vildi allt fyrir fólkið sitt gera. Þegar við systur vorum unglingar átti hann það meira að segja til að keyra okkur á böll í Miðgarði og bíða svo uns ballinu var lokið til að skutla okkur heim aftur, taldi það ekki eftir sér frekar en annað. Þegar tengdasynirnir bættust í hópinn hafði hann mikið dálæti á þeim og átti náið og gott samband við þá alla tíð. En það voru barnabörnin sem hann sá ekki sólina fyrir, taldi þau vera afburðafólk í alla staði og þreyttist aldrei á að hrósa þeim.

Pabbi var mjög hjálpsamur og ófá handtökin sem liggja eftir hann, ekki síst heima hjá okkur systrum því hann var alltaf boðinn og búinn til aðstoðar þegar einhverjar framkvæmdir stóðu fyrir dyrum. Pabba fannst líka svo gaman að geta liðsinnt tengdasonunum sem hann elskaði af öllu hjarta og það munaði sko um Sigga Bjarna því hann var bæði hörkuduglegur og vandvirkur.

Pabbi var rótgróinn Skagstrendingur, dásamaði bæði staðinn og fólkið sem þar bjó í tíma og ótíma og hélt því statt og stöðugt fram að það væri alltaf blíða á Skagaströnd. Hann átti það til að hringja til að segja okkur veðurfréttir þegar vel viðraði og að sama skapi varaði hann okkur reglulega við yfirvofandi vonskuveðri, jarðhræringum eða öðrum náttúruhamförum á höfuðborgarsvæðinu og benti í leiðinni á alla þá kosti sem Norðurland hefði upp á að bjóða.

Pabbi vann sín verk í hljóði, einn af þessum einstaklingum sem bæta sitt nærsamfélag með störfum sínum án þess að ætlast til nokkurs í staðinn. Hann skilur eftir sig djúp fótspor sem verða vandfyllt og hans verður sárt saknað.

Hvíl í friði elsku pabbi, við sjáumst síðar.

Svava og Halldór.

Í dag kveðjum við pabba og þótt sorgin sé mikil þá er þakklæti okkur efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa átt hann að og að hafa fengið að njóta kærleika hans og væntumþykju alla tíð.

Pabbi var glaðlyndur, jákvæður og einstaklega hjálpsamur. Hann gladdist af einlægni yfir velgengni annarra, hvort sem það voru skyldir eða óskyldir, og hann hafði einstakt lag á að sjá það jákvæða í öðrum. En þótt sýn pabba á lífið hafi verið einstaklega björt kom það ekki til af því að hann hafi alist upp við allsnægtir. Pabbi fæddist 1947 á Skagaströnd og var næstyngstur af átta systkinum. Hann ólst upp við ástríki en jafnframt aðstæður sem við myndum kalla sára fátækt. Fimmtán ára fór hann því burtu til þess að vinna og fór víða um land, m.a. á vertíðar og í byggingarvinnu, og aflaði þannig tekna fyrir heimilið á Skagaströnd. Átján ára var hann búinn að festa kaup á húseign á Skagaströnd, Breiðabliki, og bjuggu móðir hans og þau börn sem enn voru í foreldrahúsum sér heimili þar. Eftir að pabbi eignaðist sjálfur fjölskyldu flutti hann í Breiðablik og bjó þar allt til enda.

Pabbi var verkamaður alla ævi og vann langa vinnudaga til þess að sjá fjölskyldunni farborða, lengst af í rækjuverksmiðjunni á Skagaströnd. Þá eru ótalin öll þau viðvik og handtök sem hann átti bæði innan sveitar og utan, því alltaf var pabbi kominn til þess að aðstoða þar sem hjálpar var þörf. Fátt fannst honum skemmtilegra en að komast til að aðstoða tengdasynina við ýmiskonar byggingarframkvæmdir. Þá gekk hann ætíð fram af mikilli vinnusemi og mátti vart vera að því að setjast niður í mat og kaffi. Þótt tengdasonunum hafi kannski stundum þótt krafturinn í pabba helst til mikill var alltaf gaman að vinna með honum því pabba fylgdi glaðværð og jákvæðni sem smitaði út frá sér.

Pabbi var mikill söngmaður, hann tók virkan þátt í kórstarfi alla tíð og var m.a. í kirkjukór Hólaneskirkju öll sín fullorðinsár. Kirkjukórinn stóð hjarta hans nærri, bæði vegna félagsskapar góðra kórfélaga en einnig vegna þess að kórinn var leið pabba til þess að þjóna samfélaginu sem honum þótti svo vænt um.

Pabba var mjög umhugað um fólkið sitt og fylgdist vel með bæði gleði og sorgum og var fyrstur til þess að bjóða fram aðstoð og stuðning þegar á þurfti að halda. Hann snerti líf fjölskyldunnar svo fallega og elskaði fólkið sitt af alhug. Hann gladdist sérstaklega yfir barnabörnunum sínum og þreyttist aldrei á að hrósa þeim, bæði í þeirra eyru og annarra.

Pabbi hafði ákaflega gaman af því að ferðast og sem betur fer áttum við margar ferðirnar saman hin síðari ár, bæði innanlands og utan. Nú er pabbi lagður upp í síðasta ferðalagið sitt og þótt hann fari einn veit ég að hann mun hitta marga kæra vini á þeirri leið. Það er sagt að gleðin og sorgin séu systur og þótt hin síðari sé fyrirferðarmeiri þessa dagana veit ég að það er gleðin sem við munum minnast þegar við hugsum til pabba. Hann skilur eftir sig falleg spor í hjörtum okkar fjölskyldunnar og í samfélaginu sem hann tilheyrði.

Hvíl í friði elsku pabbi.

Inga Lára

og Stefán.

Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum Sigga afa á Skagaströnd í síðasta sinn. Hann hafði svo einstaklega hlýja nærveru, það var alltaf létt yfir honum og í raun munum við aldrei eftir að hafa séð hann öðruvísi en glaðan. Hann var einhvern veginn góður í gegn, öfundaði engan en var endalaust hjálpsamur. Afi hafði einlægan áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur og hvatti okkur áfram í öllu, stóru og smáu. Eftir að við urðum eldri hringdi hann oft í okkur, bara til þess að kanna hvernig við hefðum það, hvernig okkur liði og hvað við værum að brasa. Stutt símtöl en afar dýrmæt. Afi kom líka oft á Smáragrundina og fékk sér þá kaffibolla með okkur og spjall, heimsóknir sem enduðu alltaf á orðunum „mikið var þetta nú gaman“ þegar hann kvaddi. Hann var stór þátttakandi í öllum okkar tímamótum, hvort sem það voru afmæli, útskriftir, jól eða páskar, afi var alltaf okkur við hlið í lífinu.

Við eigum svo margar góðar minningar um afa, sjómannadagar á Skagaströnd þar sem hann tók þátt í allskonar þrautum á bryggjunni, ísrúntar og fjórhjólaferðir, öll áramótin á Skagaströnd þar sem afi fór með okkur á brennur og flugeldasýningar, samsöngur á Smáragrundinni þar sem afi uppgötvaði karókí sér til mikillar gleði og heimsóknir í Breiðablik þar sem hann fylgdi okkur alltaf alla leið út í bíl þegar við kvöddum, hvernig sem viðraði. Það er af svo mörgu að taka því allar minningarnar um afa eru svo góðar. Hann hafði nefnilega einstakt lag á að sjá alltaf það jákvæða og hafði í raun aðdáunarvert viðhorf til lífsins. Viðhorf sem við vildum öll hafa því það gerir lífið svo miklu skemmtilegra.

Það er stórt skarð í fjölskyldunni okkar þar sem afi var. Skarð sem við munum reyna að fylla með öllum góðu minningunum um hann og með því að taka lífsviðhorf afa okkur til fyrirmyndar.

Hvíl í friði, elsku afi.

Sigurður Lárus og Rannveig Sigrún.

Nú hefur elskulegur bróðir minn, hann Sigurður, kvatt þessa jarðvist 74 ára að aldri. Hann veiktist snögglega hinn 7. apríl og lést hinn 16. maí án þess að komast til meðvitundar, en það var heilablæðing sem dró hann til dauða, líkt og móður okkar. Siggi, eins og hann var ávallt kallaður af sínum nánustu, var einstaklega mikið ljúfmenni, geðgóður og glaðlyndur og var sá eini af okkar systkinum sem ekki flutti í burtu frá Skagaströnd og undi hag sínum vel þar, ásamt konu sinni og tveimur dætrum, en af þeim var hann ákaflega stoltur. Hann söng í kirkjukórnum í um 40 ár og hafði fallega tenórrödd. Hann hafði mikið yndi af söng en þau sungu oft saman, öll fjölskyldan, við ýmis tækifæri á meðan dæturnar bjuggu enn heima og hlutu örugglega miklar þakkir fyrir. Þá var hann duglegur að koma suður er við systkinin hóuðum í hitting. Þá var hann bróðir minn ákaflega hreykinn af barnabörnum sínum, ekki síst henni Rannveigu Sigrúnu, en hún var úti í Danmörku í söngnámi er hann lést. Hann hringdi ætíð í mig ef hún var að koma fram og syngja því hann vissi vel að það tengdist áhugamálum mínum. Rannveig var aðeins um fermingu er hún hóf að syngja einsöng á jólum í kirkjunni á Sauðárkróki og er afskaplega efnileg með bjarta og fallega sópranrödd.

Ég veit að það verður vel tekið á móti þér í sumarlandinu, elsku bróðir minn. Mig dreymdi mömmu okkar, stuttu eftir að þú veiktist, þar sem hún var að baka heilmikið, hún ætlar sem sagt að eiga nóg til með kaffinu þegar þú kemur. Eflaust verða bræður okkar, Jóhann og Ingólfur, þarna ásamt pabba sem fór frá okkur fyrir rúmum 50 árum.

Þú varst mjög duglegur til allrar vinnu og ákaflega vel liðinn maður. Ég kveð þig nú elsku bróðir minn með söknuði og þakklæti fyrir alla samveruna. Við Hreiðar vottum Sigrúnu, Svövu, Ingu Láru, Stefáni, Dóra og afabörnunum öllum okkar dýpstu samúð.

Minningin um góðan mann lifir.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þín systir,

Ragna.

Fallinn er frá kær vinur og nágranni. Siggi var traustur og fastur punktur í lífi okkar hér á Skagaströnd. Hann var ávallt boðinn og búinn að aðstoða og leggja gott til málanna. Allar góðar stundir á heimili hans og Sigrúnar að Breiðabliki eru baðaðar umræðu um heima og geima. Þar er oftast talað hreint út og málin reifuð til niðurstöðu eða þá bara skilin eftir óleyst fyrir aðra eða þá okkur þegar við hittumst næst. Þessar samverustundir í hartnær 30 ár hafa verið gefandi og gleðjandi. Börnin okkar og barnabörn finna sig ætíð velkomin og njóta heimsókna í Breiðablik, þar sem vinátta þeirra hjóna, sögustundir og umræður næra og kenna. Siggi gat oft verið hvatvís og ör. Símtölin við hann voru stundum stutt og ákveðin er hann spurði frétta eða sagði þær. Siggi var söngmaður góður og söng í kirkjukórnum í áratugi þar sem hann lagði sitt af mörkum fyrir samfélagið sem honum þótti svo vænt um.

Hann var einstaklega bóngóður, og eru margir sem nutu hans góðmennsku og aðstoðar í gegnum tíðina. Hann vann þau verk sem hann tók að sér með ábyrgð og ákafa enda vildi hann drífa hlutina af.

Að fylgjast með Sigga í göngutúrum með tíkina hana Dimmu gat verið skondið, bæði vildu ráða hvert var farið og oft var ekki gott að greina hvort þeirra var við stjórn, en líklega hafa þau bæði haft reglulega gaman af gönguferðunum.

Nú hefur bjarta tenórröddin þagnað og hláturinn og kátínan hans Sigga hljómar ekki lengur í eldhúsinu á Breiðabliki. Hann gerði tilveru samferðamanna sinna betri og bjartari og við munum minnast Sigga með miklum hlýhug. Elsku Sigrún, dætur og fjölskyldur, megi allt gott styðja ykkur og styrkja.

Dagný Marín og Adolf Berndsen.

Siggi Bjarna hefur verið til staðar í lífi okkar á Hrauni svo lengi sem ég man enda langt síðan hann og Sigrún frænka frá Neðra-Nesi rugluðu reytum og hófu sambúð á Skagaströnd, fyrst í Herðubreið en í Breiðabliki frá 1973. Dæturnar Svava Guðrún og Inga Lára fæddust svo með stuttu millibili, glæsilegar og sérstaklega vel gerðar konur. Siggi naut ekki langskólagöngu frekar en margir af hans kynslóð, vann lengst af verkamannavinnu og kom sér alls staðar vel, svo ötull, harðduglegur og samviskusamur starfskraftur sem hann var. Það var reyndar jafn gott að nóg væri fyrir stafni því Siggi kunni því illa að sitja með hendur í skauti þegar hann gekk til starfa, lítt smámunasamur um verkefni, ekki jafn laginn við allt, en bætti það upp með óbilandi áhuga og vilja til að skila sínu dagsverki með sóma. Geðprýði og glaðværð var honum gefin í miklum mæli og veitti stundum ekki af, í minningunni að minnsta kosti, þegar hann kom í Nes að aðstoða tengdaforeldra sína Svövu og Lárus. Oft var það við búskaparbrasið, en þá bagga bundu þau sínum sérstöku hnútum og þurfti Siggi oft að hlýða á ákúrur frá Lárusi um að svona ætti ekki að gera þetta eða hitt eða standa hér en ekki þarna þegar átti að reka inn. Aldrei skipti ljúflingurinn Siggi skapi en sló fjasinu upp í grín og allt endaði vel. Tónlist var líf Sigga og yndi. Hann söng með Kirkjukór Skagastrandar í áratugi og á tímabili með Karlakór Bólhlíðinga. Og hver gleymir Breiðablikskvartettinum! Þau Sigrún og Siggi ásamt dætrum skemmtu nefnilega oft opinberlega undir því nafni. Sigrún spilaði á gítar og fjölskyldan söng eins og englar fjölrödduð dægurlög. Fyrir kom að Svava föðursystir okkar væri með og naut hennar fallega rödd sín vel með afkomendunum. Tónlistaráhuginn og færnin hafa erfst svo eftir er tekið til afkomenda Sigga og Sigrúnar. Það hefur verið Sigga uppspretta mikillar gleði og stolts að sjá dæturnar og barnabörnin blómstra í störfum og leik, ekki síst í tónlistinni, og hann hefur hvatt og stutt svo þau njóti þeirra tækifæra sem hann sem ungur maður sá aðeins í hillingum.

Breiðablik er lifandi staður. Þar er gestkvæmt og glaðvært enda umræðuefnin nóg og húsráðendur vel að sér. Gildir þá einu hvort borið sé niður í dægurmálum, sögum af liðnum atburðum, skepnuhaldi eða pólitík en við eldhúsborðið í Breiðabliki hafa mörg slík mál verið til lykta leidd. Siggi var selskapsmaður sem ræktaði góðvild og hjálpsemi í sínum garði, einmitt það sem gerir samfélagið svo dýrmætt og berst áfram með afkomendum og samferðafólki.

Þessa góða og trausta vinskapar við Sigga og Sigrúnu höfum við fjölskyldan á Hrauni notið í ríkum mæli sem og hjálpsemi við fjárrag, hrossastúss og sameiginlegar smalamennskur á haustin. Þegar búið var að reka inn í Neðra-Nesi beið okkar svo veisluborð inni í bæ þar sem farið var yfir daginn og ævintýrin sem Siggi hafði ratað í í heiðinni.

Sigga var skammtaður allt of naumur tími hér á jörðu. Hann skilur eftir stórt tómarúm en um leið margar góðar minningar.

Elsku Sigrún, Svava, Inga Lára og fjölskyldur. Hjartans samúðarkveðjur til ykkar allra um leið og við þökkum samferðina með gæðamanninum Sigga Bjarna.

Fyrir hönd fjölskyldunnar á Hrauni,

Gunnar

Rögnvaldsson.

Lífið segir manni sjaldan fyrir fram frá því sem kann að vera fram undan, hvað er næst, hvenær er ekki næst. Það verður ekki símtal aftur, ekki heimsókn, ekki spjall í helgarbíltúr. Æskuvinur er horfinn á braut, á einu andartaki er lífið töluvert öðruvísi. Siggi er allt í einu ekki lengur til staðar og maður fær ekki að njóta vináttu og samveru eins og von var til enn um nokkra stund. Maður veit ekki alltaf hvernig eða hvenær vinátta byrjar, hún er bara allt í einu. Hugurinn reikar aftur til fyrstu æskuáranna og heimsókna ungs drengs á æskuheimili Sigga á Bjargi. Þar var kannski ekki vítt til veggja eða hátt til lofts en andrúmsloftið, gestrisnin, veitingarnar og viðmótið gat ekki verið betra. Þetta tók vinur minn með sér út í lífið og traustari og sannari vin var ekki að finna.

Á lífsins leið vann hann öll sín störf af einstakri trúmennsku og alúð. Í fyrstu var vin nudagurinn vítt og breitt um landið en lengstum á Skagaströnd þar sem hann undi sér vel og bjó fjölskyldunni fallegt og vinalegt heimili. Á Breiðabliki hefur alla tíð verið sérlega gestkvæmt enda Siggi og Sigrún kona hans einstök heim að sækja og því ekki undarlegt að margir hafi þar drepið hendi á dyr.

Siggi var fjölskyldumaður og fylgdist af áhuga með námi og störfum dætra sinna og barnabarna og sagði gjarnan frá ýmsum viðburðum í fjölskyldunni. Hann naut þess glaður þegar vel gekk, eins og oftast var, en jafnframt var alvara og þungi í röddinni þegar á móti blés.

Léttur gáski og glaðlyndi samfara alvöru lífsins voru fallega fléttuð saman. Söngur og kátína á góðri stund og kankvíst brosið með gleðibjarma í augum var sérlega heillandi. Stundum var lundin ör og rómurinn hár og þá tók hann yfir sviðið.

Ég sakna Sigga vinar míns og þakka honum samfylgdina í blíðu og stríðu og um leið flyt ég fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Lárus Ægir.

Gamall nemandi, vinur og félagi er fallinn frá. Við kynntumst fyrst þegar ég var kennari á Skagaströnd árið 1960 og hann var nemandi minn þar í unglingadeildinni. Nítján ára fjölskyldulaus kennari á Skagaströnd hafði nægan tíma til þess að starfa með unglingum staðarins og kom þar upp tómstundakvöldum, dansæfingum og fótboltaæfingum að ekki sé talað um einkatíma með strákunum í júdó. Þarna voru þeir Sigurður og Pétur á Lækjarbakka sífellt til aðstoðar og hjálpar. Seinna meir áttum við Sigurður meiri samskipti þegar ég fór í Kennaraskólann til að afla mér réttinda sem kennari en hann hafði ráðið sig í vinnu við byggingu Búrfellsvirkjunar og átti oft leið í bæinn. Seinna þegar við vorum komnir aftur til Skagastrandar gaf ég honum það góða ráð að kaupa gamla skólastjórabústaðinn sem var til sölu eftir fráfall Páls Jónssonar skólastjóra. Eins og ég sagði: „Þú verður yngsti húseigandi á Skagaströnd og þetta er góð fjárfesting.“ Þetta reyndist rétt hjá mér því Siggi bjó í þessu húsi til æviloka með ágætri eiginkonu sinni og dætrunum tveim sem hann var afskaplega stoltur af.

Siggi fékkst við margt um ævina. Hann gerði út bát með Ísleifi Haraldssyni um hríð, vann í rækjuvinnslunni árum saman og stundaði hrossarækt með konu sinni Sigrúnu Lárusdóttur sem er ættuð frá Neðra-Nesi á Skaga. Hann starfaði alla tíð í kirkjukór Skagastrandar og þar eins og annars staðar kom hann sér vel og var hvers manns hugljúfi.

Ég sakna góðs vinar og félaga sem féll allt of snemma frá.

Nú verð ég að semja við einhvern annan um að syngja fyrir mér.

Við Helga samhryggjumst Sigrúnu og fjölskyldu og biðjum þeim blessunar í þeirra erfiðleikum.

Sveinn S.

Ingólfsson.