Pétur Sveinsson fæddist í Svefneyjum á Breiðafirði 8. janúar 1941. Hann lést 12. maí 2022 á líknardeild Landakotsspítala.

Foreldrar Péturs voru Sveinn Pétursson frá Rauðseyjum í Skarðshreppi í Dalasýslu, f. 6. ágúst 1920, d. 2014, og Rebekka Guðmundsdóttir frá Bíldudal, f. 5. október 1921, d. 2020.

Systkini Péturs eru: Ástríður, f. 18. ágúst 1942, gift Hlöðveri Magnússyni; Brandur, f. 13. desember 1945, kvæntur Khanngoen Hoisang.

Fyrri kona Péturs var Sigurveig Helga Thorlacius Jónsdóttir, f. 28. maí 1941, hún lést af slysförum 1991. Þeirra börn eru: 1) Jón, f. 12. nóvember 1961, í sambúð með Eddu Sigurðardóttur, eiga þau Sigurveigu Helgu, sem á tvær dætur, tvíburana Eddu Maríu og Sigrúnu Maríu, og Sigurð Inga, sem er í sambúð með Dagnýju Evu Magnúsdóttur og eiga þau tvö börn, Eyrúnu Örnu og Sindra Hrafn. 2) Sveinn, f. 14. október 1962, var kvæntur Þorbjörgu Svövu Óladóttur, hún lést 2016, í sambúð með Bergrúnu Halldórsdóttur. 3) Arnfríður Thorlacius, f. 2. júní 1965, gift Arngrími Arngrímssyni. Arnfríður á tvær dætur, Dagbjörtu Fjólu, sonur La'trese Pétur, og Sigurveigu Huldu. 4) Pétur Ingi, f. 30. mars 1974, kvæntur Söru Dögg Árnadóttur og eiga þau synina Leon og Ísak, Pétur Ingi á dótturina Anítu Ýri, hennar sambýlismaður er Axel Óli Atlason, þau eignuðust dótturina Viðju 18. mars 2021, d. 29. mars 2021.

Seinni kona Péturs er Bjarney Kristjana Friðriksdóttir frá Bíldudal, f. 4. júlí 1949. Árið 1993 hófu þau sambúð og giftu sig 1. apríl 2022. Börn Bjarneyjar Kristjönu eru: 1) Guðný Höskuldsdóttir, f. 30. desember 1969, dætur hennar eru Stefanía Bjarney, gift Jóhanni Bergþórssyni, Rebekka Sigríður, hennar sambýlismaður er Helgi Júlíus Sævarsson og eiga þau soninn Leó, og Harpa Kristjana. 2) Friðrik Höskuldsson, f. 24. janúar 1971, kvæntur Steingerði Stellu Sigþórsdóttur, eiga þau dæturnar Emmu Ljósbrá, í sambúð með Mjöll Einarsdóttur, og Lóu Kolbrá, hennar kærasti er Davíð Þór Ásgeirsson. 3) Davíð Höskuldsson, f. 30. janúar 1981, kvæntur Önnu Birnu Guðlaugsdóttur og eiga þau þrjár dætur, Sögu og tvíburana Emblu og Ásu Soffíu.

Pétur fór í Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og lauk gagnfræðaprófi 1957. Vorið 1963 lauk hann skipstjórnarprófi frá Sjómannaskólanum í Reykjavík, þá fluttur til Patreksfjarðar og búinn að stofna heimili þar, eftir það stundaði hann sjó á ýmsum skipum og bátum.

Pétur starfaði árin 1974-1984 sem lögreglumaður, síðar sem varðstjóri hjá Sýslumannsembættinu í Barðastrandarsýslu, þar til hann flutti til Reykjavíkur 1984. Starfaði sem lögreglumaður í Reykjavík árin 1985-1990, var settur rannsóknarlögreglumaður 1989. Sem rannsóknarlögreglumaður starfaði hann hjá lögregluembættinu í Reykjavík við ýmsar deildir uns hann lét af störfum 2006.

Pétri tók þátt í ýmsum félagsmálum á Patreksfirði. Síðustu árin var hann félagi í Kiwanisklúbbnum Jörfa.

Útför Péturs fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 27. maí 2022, klukkan 10. Streymt verður frá athöfninni.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Engum á ég meira að þakka en fósturföður mínum Pétri Sveinssyni, sem nú hefur siglt inn í sólarlagið í hinsta sinn. Hann tók mig inn í sitt líf, leiðbeindi og fóstraði. Allmikill mótbyr var á tíðum í siglingu okkar saman en með lagni, umhyggju, ást og þrautseigju náðu brotsjóir aldrei að stöðva okkar ferð. Stóð stundum tæpt, og þó. Meðbyrinn varð alltaf sterkari. Pétur virtist hafa óbilandi trú á stráknum sem kom með síðan lubba, í rifnum gallabuxum og kögurleðurjakka inn í hans líf fyrir 30 árum. Ég útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum sem sá maður sem ég nú er, þökk sé Pétri. Pétur og mamma tóku mig, labbakútinn inn á heimilið og útskrifuðu mig svo sem mann eftir talsverða mæðu að ég tel. Sama á hverju gekk, Pétur stóð alltaf mér við hlið og ýtti mér áfram, uppgjöf eða aumingjaskapur var ekki í boði. Takk Pétur.

Lífið lék ekki alltaf við Pétur, svo mikið er víst. Dauðinn var ansi oft nálægur, bæði í einkalífi þar sem almættið reiddi hátt til höggs sem og í vinnu hans sem lögreglumanns, sjúkraflutningamanns og skipstjóra. Ófáar sögur heyrði ég af þeim vettvangi frá honum og hvað bæri að varast og virða í þeim efnum. Ráð gaf hann mér mörg þegar ég vann sem stýrimaður og sigmaður á þyrlum Gæslunnar og nýttust þau vel. Og gera enn. Takk Pétur.

Pétur hringdi í mig daginn sem hann var lagður inn á Landakot, orðinn afar þreyttur og veikur. Ég var þá að gera mig kláran í sjóferð á varðskipinu Freyju. Vildi hann þakka mér samfylgdina því þessi síðasti túr væri að klárast hjá honum. Hann bað mig allra lengstra orða að breyta í engu mínum áformum þó dauðinn færðist nær, heldur sigla minn túr. Annað var ekki í boði. Það var erfið ákvörðun að taka, vitandi að Pétur hefði ég líklega rætt við í síðasta sinn. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hætta við túrinn, Pétur hefði aldrei samþykkt það. Svo ég sigldi. Takk Pétur.

Tenging mín við Pétur var afar sterk. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að fullu fyrr en daginn sem hann kvaddi, 12 maí. Var ég við mína vinnu um borð í Freyju, dagur kominn að kvöldi. Þar sem ég sat við dyrnar út á brúarvænginn og reykti fékk ég afar sterkt í mig að nú ætti ég að fara með bæn. Faðirvorið. Lítið vissi ég að á sama tíma voru mamma og séra Sveinn að fara með þá sömu bæn við sjúkrabeð fóstra. Bænina fór ég með en leið samt einkennilega. Tómleiki sótti að. Bænir bið ég skammarlega sjaldan svo það sé sagt. Að bæn lokinni sá ég að þjóðfáninn blakti enn í skut. Það gekk auðvitað ekki enda klukkan orðin nokkrar mínútur gengin í níu að kvöldi. Það hvarflaði strax að mér að fá einhvern háseta skipsins sem í flestum tilfellum sjá um að draga fánann niður að kvöldi dags í verkið. Gerði það ekki, fór í það sjálfur. Arkaði aftur á skut, dró fánann varlega niður í kvöldblíðunni og fékk einhverja værðartilfinningu við þessa athöfn. Pétur dró sinn síðasta andardrátt einmitt á þessum mínútum.

Pétur var ekki allra, en hann var minn. Mjúkur eða hrjúfur. Skiptir engu. Hann var fóstri minn.

Takk Pétur fyrir lífið sem þú gafst mér.

Friðrik Höskulds.

Ég kynntist Pétri árið 2006 eftir að við Davíð byrjuðum saman. Pétur var einstaklega góður maður og alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum. Hann hefði auðveldlega getað skrifað heila seríu af bókum um ævistörf sín sem mörg hver voru ótrúleg. Ég man sérstaklega eftir frásögn hans af því þegar bátur sem hann vann á fór á hliðina. Hann þurfti að klifra upp til skipstjórans og hjálpa til við að rétta bátinn af. Einnig man ég eftir frásögn hans af því þegar hann bjó fyrir vestan og sá bláma í snjó í fjallinu þar sem krakkar voru að leika sér fyrir neðan. Hann fór og lét öll börnin færa sig og stuttu seinna kom snjóflóð á sama stað og börnin höfðu verið.

Eftir að við Davíð eignumst dætur okkar þrjár urðu amma og afi á Prestó stærri partur af lífi okkar. Þau hafa alltaf reynst okkur einstaklega vel og fyrir það er ég þakklát. Ég er líka þakklát fyrir það að dætur okkar hafi náð að kynnast afa Pétri jafnvel og raun er.

Minning hans mun lifa með okkur alla ævi.

Anna Birna.

Tengdapabbi minn Pétur hefur kvatt þessa jarðvist. Vil nota tækifærið og þakka honum fyrir samfylgdina. Dásamlegur afi dætra minna og góður vinur. Alltaf tilbúinn að rétta fólki hjálparhönd sem á þurfti að halda og var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Dætur mínar Emma og Lóa eiga margar góðar minningar af sprelligosanum afa sínum þegar þær voru í næturpössun hjá ömmu og afa.

Takk fyrir allt og allt og blessi minninguna.

Kveðja,

Stella.

Elsku afi. Ég veit ekki alveg hvað ég á að skrifa en ef ég hefði náð að hitta þig í eitt síðasta skipti hefði ég sagt þér þetta.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og fjölskylduna mína. Takk fyrir Flatey, gistingarnar, súkkulaðimolana og nammiskápinn. Takk fyrir að skafa aldrei af neinu og láta allt sem þér datt í hug flakka fyrir framan hvern sem er, því það gerði þig að fyndnasta og hreinskilnasta manni sem ég hef kynnst. Takk fyrir að koma inn í líf pabba míns, hann dýrkar þig og dáir meira en þú getur ímyndað þér, og það gerum við hin líka.

Ég hefði glöð þegið fleiri ár til að rökræða við þig, deila skoðunum, hlæja að þér og tuða yfir blessuðu þjóðfélaginu en við hljótum að fá tækifæri til þess síðar.

Við pössum ömmu og hugsum til þín á hverjum degi. Nú geturðu kannski loksins farið úr jakkanum, sest niður í rólegheitunum og slakað á.

Takk fyrir allt elsku afi minn.

Emma Ljósbrá.

Pétur Sveinsson, kær félagi í Kiwanisklúbbnum Jörfa, lést fimmtudaginn 12. maí sl. Hann hafði átt við erfið veikindi að stríða um alllanga hríð. Þegar ég hitti hann fáum dögum fyrir andlátið var hann mjög þreyttur og vissi vel að hverju stefndi. Hann var ókvíðinn og sáttur eftir langt og gifturíkt ævistarf sem lengst af var við löggæslu. Fyrst fyrir vestan á Patreksfirði en síðar í Reykjavík. Lögreglustörf eru ekki alltaf til vinsælda fallin en þar eins og alltaf veldur sá sem á heldur. Ég kynntist Pétri löngu áður en við hittumst í Jörfa. Þá hafði hann fengið það verkefni að leiða starf í lítilli lögreglustöð í Breiðholti. Þá hafði verið nokkuð róstusamt í hverfinu, einkum meðal unglinga. Mikil félagsleg vandamál höfðu safnast saman í hverfinu vegna skipulags í búsetumálum. Pétur hafði skýra sýn á hvernig vinna skyldi að málum. Hann kæmi ekki sem refsivöndur heldur til að þjónusta íbúana, einkum ungmennin sem höfðu verið fyrirferðarmikil og erfið. Þessi aðferðafræði virkaði, hann og félagar komu fram við unglingana af virðingu, hlustuðu á þá, leiðbeindu og reyndu eftir mætti að leysa þeirra vandamál. Þeir einu sem þeir voru tilbúnir að beita harðræði voru landabruggararnir sem voru duglegir við að selja ungmennunum ýmsa ólyfjan. Sem dæmi um árangurinn var að húsnæði lögreglunnar í Breiðholti var oft þéttsetið af ungu fólki sem var að spjalla við lögguna, jafnvel að vinna við heimalærdóminn, því þarna gat verið friðsælla en heima hjá þeim. Þarna varð Pétur lögga að eins konar hugtaki. En því miður var þessi góði árangur ekki notaður nægilega sem fyrirmynd heldur skapaði hann öfund. Hópurinn var leystur upp og Pétur kallaður til starfa í rannsóknarlögreglunni. Þar hefur reynsla hans örugglega komið að góðu gagni.

Í starfi Jörfa var Pétur sérlega öflugur og metnaðarfullur, einkum við fjáraflanir og sölu þess varnings sem þær byggðust á. Þá kom í ljós hversu víðtækt tengslanet Pétur átti og ekki síður hve margir vildu allt fyrir hann gera. Það sagði sína sögu um ævistarfið.

Þegar við hittumst svo aftur í Jörfa kom í ljós að feður okkar höfðu verið vel kunnugir og góðir spilafélagar á sinni tíð enda vorum við báðir upprunnir af sömu slóðum við Breiðafjörð. Það bætti enn sambandið.

Við Jörfafélagar söknum góðs og öflugs félaga og vinar og sendum konu hans, Bjarneyju, börnum hans og fjölskyldu allri innilegar samúðarkveðjur og kveðjum góðan mann.

Haraldur Finnsson, forseti Jörfa.

Kynni okkar af Pétri hófust er við störfuðum saman í lögreglustöðinni í Eddufelli sem stofnuð hafði verið sem tilraunaverkefni í hverfalöggæslu sem nú er nefnd samfélagslöggæsla. Höfðum við frjálsar hendur við mótun starfsins sem gekk út á að auka tengsl við aðrar stofnanir, skóla, félagsþjónustu og gjarnan þá sem starfa með börnum og ungmennum.

Þetta var skemmtilegur og jafnframt krefjandi tími og dagarnir oft langir. Pétur Sveinsson var maður athafna, ekki eingöngu orða, og því skemmtilegur vinnufélagi, áræðinn og óhræddur. Hér verða þau verkefni sem við tókumst á við ekki tíunduð en mörg þeirra komu inn á okkar borð vegna tengsla og trausts sem við höfðum öðlast meðal íbúanna, ekki síst fyrir eiginleika Péturs. Pétur gat verið harður í horn að taka og fylginn sér þegar við vorum að rannsaka sakamál og dró heldur ekki af sér þegar fólk var hjálpar þurfi.

Við settumst niður fyrir skömmu, eftir að Pétur var orðinn veikur, og rifjuðum upp árin okkar í Eddufellinu. Það var af miklu að taka og vorum við ákveðnir í að hittast aftur innan skamms. Pétur sagði okkur að læknar hefðu sagt sér að hann ætti hugsanlega eitt ár eftir og ræddi af æðruleysi um endalokin.

Þótt við getum ekki hist allir þrír framar munu minningarnar og sögurnar af samstarfi okkar við Pétur lifa með okkur. Við þökkum Pétri fyrir kynnin og öll skemmtilegheitin. Blessuð sé minning góðs drengs. Eiginkonu hans, afkomendum og vinum sendum við samúðarkveðjur.

Einar Ásbjörnsson og Arnþór H. Bjarnason.